Af norðurhvelshringekjunni í upphafi árs 2012

Enn sem fyrr er frekar hlýtt innan heimskautarastarinnar og öflugir kuldapollar halda sig á mottunni - að mestu. Litlar grundvallarbreytingar eru í veðurlagi við norðanvert Atlantshaf frá því sem verið hefur að undanförnu. En rifjum nú upp þessa stöðu með því að líta á spá evrópureiknimiðstöðvarinnar fyrir hádegi miðvikudaginn 4. janúar.

w-blogg030112

Fastir lesendur ættu að kannast við táknmálið. Bláu og rauðu línurnar sýna hæð 500 hPa-flatarins í dekametrum (1 dam = 10 metrar). Því þéttari sem þær eru því meiri er vindurinn milli þeirra. Þykka, rauða línan markar 5460 metra hæð, en þynnri rauðar línur sýna 5820 metra og 5100 metra.

Margt er það sem vekja má athygli á þessu korti. Suður af Íslandi eru sérlega þéttar jafnhæðarlínur enda er öflugasti hluti heimskautarastarinnar einmitt þar (þegar spáin gildir), vindur nærri veðrahvörfum er þar nærri 120 m/s þar sem mest er og flugvélar fljótar austur yfir Atlantshafið. Lægðarbylgja kreistist til austurs við norðurjaðar rastarinnar. Við sjáum miðskýjabreiðu hennar örugglega og sumar spár gera ráð fyrir snjókomu sunnanlands á miðvikudag.

Lægðin sem valda á tjónveðri við Norðursjó á morgun (þriðjudag) er þarna komin austur til Svíþjóðar. Lægðarbylgjan sunnan við land fer svipaða leið. Hún nær sennilega ekki að dýpka mikið - en við vitum að lítið má út af bregða undir vindstreng sem þessum. Alla vega mega skipstjórnarmenn og þeir sem stjórna flóðavörnum í Norðursjónum suðaustanverðum halda vöku sinni þar til þetta kerfi er runnið hjá.

Næstu bylgjur sem koma til okkar eru merktar með bókstöfunum f (föstudagur) og s (sunnudagur). Þær eru þarna enn yfir austanverðri Norður-Ameríku. Mjög langt er á milli meginbylgnanna yfir Skandinavíu og Labrador. Það er lægðin við Asóreyjar sem styður sunnan undir hrygginn breiða á milli lægðardraganna - dálítið merkilegt.

Við tökum eftir því að 5100 metra línan (rauð og mjó) nær ekki saman á norðurslóðum heldur myndar hún nokkra lokaða hringi. Þetta bendir til þess að ekki sé sérlega kalt á norðurslóðum miðað við það sem oft er á þessum árstíma. Mest virðast hlýindin vera á Svalbarðasvæðinu og þar austur af, en ekki er sérlega kalt á Norður-Grænlandi og við strendur Norðuríshafs. Fréttir segja ís vera að nálgast meðallag vestan Grænlands - en þar er kalt, -37 stig í Syðri-Straumfirði núna kl. 21 á mánudagskvöldi - ekki er nema -8 stiga frost við Scoresbysund, á austurströndinni.

Að undanförnu hafa öflugir kuldapollar ekki verið mjög áberandi á kortinu - en þó má sjá meðalöflugan poll yfir Baffinsflóa, þykktin í honum miðjum er um 4800 metrar - ekkert ofboðslega lítið miðað við staðsetningu og ártíma. En vetur hefur ekki enn náð hámarki á norðurhveli, nokkrar vikur eru væntanlega í það og minni þykkt væntanlega á dagskrá síðar.

En öldugangurinn á Atlantshafi heldur áfram eins og ekkert hafi í skorist - við í norðurjaðri hans (spilliblotar) - og Norður-Evrópa í hlýju lofti af hafi. En þetta ástand endar auðvitað um síðir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Trausti og gleðilegt veðurár. !

Dæmalaust er þetta karúsel  ,sunnan Íslands ,þvert yfir Atlantsála þaulsetið.!

Nú nálgast miðsvetrardagur með þorra og það verður fróðlegt  að sjá hvernig hann artar sig . Og svo góa í kjölfarið.  En allt tekur enda , og þetta tívolí líka.

Spurningin er : hvenær?  Við getum eftilvill prísað okkur sæl miðað við

Bretlandseyjar og S- Skandinavía.  En hvað mun gerast? Færist þessi kalda

röst sunnar - eða norðar ?  Eða breytist hún úr meginelfi í margar smærri?

Eða tætist hún upp og hverfur? Það verður fróðlegt að fylgast með framvindunni.

óli Hilmar Briem Jónsson (IP-tala skráð) 3.1.2012 kl. 22:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg181124a
  • w-blogg151124c
  • w-blogg151124b
  • w-blogg151124a
  • w-blogg141124ii

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 147
  • Sl. sólarhring: 201
  • Sl. viku: 2068
  • Frá upphafi: 2412732

Annað

  • Innlit í dag: 139
  • Innlit sl. viku: 1813
  • Gestir í dag: 129
  • IP-tölur í dag: 122

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband