Þrjár lægðir til jóla (síðari þáttur)

Þegar þetta er skrifað seint á þriðjudagskvöldi 20. desember eru enn þrjár lægðir til jóla. Sú fyrsta fer yfir landið á morgun, miðvikudag, önnur fer hjá rétt suður af landinu (ef spár rætast) á fimmtudag og sú þriðja fer yfir landið eða hjá því á aðfangadag. Óvissa er um það hvar þriðja lægðin fer hjá og hversu djúp hún verður.

Við lítum á háloftaspákort sem gildir kl. 18 á miðvikudag (21. desember). Það sýnir hæð hæð 500 hPa-flatarins (svartar, heildregnar línur) og þykktina (rauðar strikalínur).

w-blogg211211a

Við sjáum gríðarlega stóran kuldapoll (háloftalægð) vestur af Baffinslandi og hæð nærri ströndum Spánar og Portúgal. Á milli þessara stóru kerfa er mikill vindstrengur. Við þekkjum hann á lítilli fjarlægð milli jafnhæðarlína. Þær eru dregnar með 6 dam (= 60 m) bili, en 60 metrar eru nálægt 8 hPa.

Lægðarmiðjurnar eru merktar með tölustöfum. Miðvikudagslægðin (1) er hér nálægt Suðvesturlandi, fimmtudagslægðin (2) er nokkuð langt suðvestur í hafi, en aðfangadagslægðin (3) er við vesturjaðar kortsins. Við sjáum vel hvernig jafnþykktarlínurnar liggja í hæðarbeygju þar sem lægðirnar eru. Lægðarbeygja er hins vegar á jafnhæðarlinunum - þar eru háloftalægðardrög. Á undan og eftir lægðardrögunum er mikið misgengi þykktar- og jafnhæðarlína. Þar fer hlýtt aðstreymi á undan en kalt á eftir. Lægðir sem fylgja þessu mynstri köllum við oftast riðalægðir, jafnhæðar- og jafnþykktarlínur mynda (riðið) net.

Á eftir fyrri lægðinni fylgir kalt aðstreymi eins og vera ber, en það ríkir á frekar þröngu svæði því strax á eftir er komið í hlýtt aðstreymi næstu lægðar. Bilið á milli lægðanna er óþægilega lítið og litlu má muna að sveigjur þykktarlínanna raskist. Gerist það geta lægðirnar ýmist dýpkað eða grynnst snögglega og þar með breytt stefnu. Við skulum líta nánar á mynstrið í fyrri lægðinni (kortið er frekar óskýrt).

w-blogg211211c

Það sem hér fer á eftir er nokkuð tyrfið - nördin ættu að reyna að halda þræði en hinir geta hoppað yfir þrjár málsgreinar - án þess að tapa af neinu nema tormeltu nördafóðrinu.

Yfir landinu sýnir hæðarsviðið suðvestanátt, hún er nokkuð sterk. Við getum slegið á það lauslega vitandi að fjarlægðin á milli Reykjavíkur og ytri hluta Snæfellsness er um 1 breiddargráða. Við vitum líka að 1 hPa á breiddarstig jafngildir um það bil 10 hnúta vindi. Hér er munurinn um hálft hæðarbil, hæðarbilið er 60 metrar, hæðarmunur er því um 30 metrar, 4 hPa. Það gerir um 40 hnúta vind (20 m/s). Í hina áttina (til suðausturs) eru línurnar talsvert þéttari og vindur er 60 til 70 hnútar (30 til 35 m/s).

Nú skulum við taka eftir því að enn meiri munur er á bratta þykktarsviðsins eftir því hvort við lítum til norðvesturs eða suðausturs. Jafnþykktarlínurnar eru mjög þéttar til norðvesturs, sennilega er brattinn þar tvöfaldur á við hæðarbrattann. Til suðausturs er hann hins vegar mun minni og eitt þykktarbil tekur þar yfir tvö og hálft hæðarbil. Þar sem þykktarlínur eru gisnar undir miklum háloftavindi nær hes háloftarasta niður undir yfirborð (hér suðaustan við lægðarmiðjuna). Þar sem þykktarlínur eru þéttar undir miklum háloftaröstum gætir háloftavindsins ekki, vindhámarkið er þá í aðeins 1 til 2 km hæð og stefnan öfug við vindinn uppi (norðaustanátt í þessu tilviki). Hafa verður í huga að þykktar- og hæðarsviðið hafi sömu hallastefnu.

Við sjáum e.t.v. af þessu að mjög litlar hreyfingar á þykktar- eða hæðarsviðinu geta valdið gríðarlegum breytingum á vindátt og vindhraða. Bylgjukerfi sem eru togandi hvort í annað eins og hér um ræðir eru sérlega rokgjörn og stutt á milli hægviðris og ofsa. Þeir sem eitthvað eiga undir veðri eiga því að fylgjast vel með veðurspám næstu daga.

Aðfangadagslægðin hefur verið mjög rokgjörn í spám undanfarna daga og ýmist runnið hjá án teljandi veðurs eða orðið að meiriháttar lægð með tilheyrandi illsku. Við fylgjumst e.t.v. með þróuninni næstu daga.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg181124a
  • w-blogg151124c
  • w-blogg151124b
  • w-blogg151124a
  • w-blogg141124ii

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 38
  • Sl. sólarhring: 144
  • Sl. viku: 1959
  • Frá upphafi: 2412623

Annað

  • Innlit í dag: 38
  • Innlit sl. viku: 1712
  • Gestir í dag: 37
  • IP-tölur í dag: 36

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband