Enn af kuldakastinu - samanburði haldið áfram

Kuldakastið verður auðvitað marktækara eftir því sem lengra líður - en hafa verður í huga að það hefur „hitt vel í mánuðinn“, það er þægilegt að reikna út meðaltal x-fyrstu daga mánaðarins og bera saman við fyrri tíma. Þægindin eru svo mikil að við sleppum því ekki að fara þannig að.

Í Reykjavík er staðan þannig að kuldinn nú er um það bil að komast „fram úr“ sama tímabili í desember 1936. Fyrstu 12 dagar mánaðarins hafa sumsé ekki orðið kaldari í Reykjavík síðan þá. Við eigum ekki á lager samfelldan lista meðalhita sólarhringsins í Reykjavík. Leynilistar hungurdiska geta þó náð lengra aftur - en aðeins með eyðum og/eða talsverðri ónákvæmni.

Meðalhiti fyrstu 12-dagana í desember 1917 er ekki við höndina en að þeirri eyðu slepptri virðist mega halda áfram allt aftur til desemberbyrjunar 1895 til að finna ámóta kulda og nú en þar rétt aftan við eru 1893 og 1892 sem virðast hafa verið kaldari - sérstaklega 1892.

Öllu samfelldari er hitalistinn úr Stykkishólmi en hann nær aftur til 1845, að vísu vantar desember 1919, en hann kemur varla við sögu í þessari keppni. Þegar hungurdiskar fjölluðu um stöðu kuldamála síðast, fyrir fimm dögum (pistill dagsettur 8. 12.) var desemberbyrjun nú í 17. sæti að neðan á listanum. Það kemur nokkuð á óvart, en núlíðandi desember hefur síðan aðeins færst til um tvö sæti, situr nú í því 15.

 ármeðalhiti
11887-7,53
21847-7,13
31893-6,17
41863-5,58
51892-5,40
61917-5,10
71856-5,02
81848-4,85
91904-4,61
101895-4,27
152011-3,73

Þetta eru samt allt nokkuð fornar tölur. Yngsta gildið kaldara en nú er frá 1917. Talsverðar breytingar hafa orðið á innbyrðis röð annarra ára á listanum og desemberbyrjun 1887 er efst en 1892 sem var í efsta sæti fyrir fimm dögum er kominn niður í 5. sæti.

En hvað með þetta „að hitta í mánuðinn“? Þótt fyrstu 12 dagar desember í ár séu þeir köldustu síðan 1917 er ekki þar með sagt að einhverjir aðrir 12 dagar desembermánaðar (í röð) hafi ekki verið kaldari en einmitt nú - kuldakastið hafi byrjað t.d. 5 dögum síðar.

Til að bregða ljósi á þetta skulum við muna töluna -3,73°C og athuga hversu mörg tilvik við finnum með lægri meðalhita en hana dagana 13. til 24. desember á sama árabili.

Á þeim lista lenti talan -3,78°C í 21. sæti og þar eru til þess að gera nýlegir desemberkaflar kaldari en nú. Árið 1982 gerði t.d. kuldakast sem er ámóta mikið og það sem nú hefur gengið yfir og nýjasta dæmið um ámóta eða kaldari kafla er frá desember 1993. Talsvert kaldara var 1981 og 1973. Enginn þessara síðasttöldu desembermánaða byrjaði með jafnköldu veðri og nú.

Svo er spurningin um hversu lengi kastið nú endist. Sumir myndu e.t.v. segja að það sé þegar búið - hiti var víða vel yfir frostmarki á landinu bæði í gær (sunnudag) og í dag (mánudag). En þar sem spáð er frekar köldu veðri næstu daga er rétt að halda vöku sinni í mánaðametingnum. Það er aldrei að vita hversu langt núlíðandi mánuður kemst á kuldanum. Ekkert vita hungurdiskar um það.

En fyrst haft var fyrir því að reikna meðalhita tveggja 12-daga tímabila var lítið mál að athuga fylgni hitabútanna. Hversu vel spá fyrstu 12-dagarnir í desember um hita næstu 12-daga? Svarið er einfalt: Hiti fyrstu 12 dagana segir ekkert um hita næstu 12 daga. 

Annars hefur hitafar á landinu í dag (mánudag) verið afskaplega skemmtilegt. Hiti hefur verið vel yfir frostmarki víða við strendur landsins en hörkufrost inn til landsins, t.d. var -11 stiga frost á Hvanneyri á miðnætti, en aðeins -1 stig á Hafnarmelum á sama tíma.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Endilega að opinbera alla leynilista! Búum við ekki í OPNU þjóðfélagi? Ég á reyndar líka eigin leynilista, top secret alveg, um gamlan daglegan meðalhita í Reykjavík en hann er bara til pukurslegs heimabrúks enda eflaust oft út í hött. En mér finnst hann samt persónulega gagnlegur til hliðsjónar og pælinga um samanburð gamls og nýs veðurs. Hef hins vegar trú á því að Veðurstofumenn ráði við það vandamál að gera sæmilega áreiðanlega lista a.m.k. til 1880 með öllum þeim tólum og konstum sem þeir hafa yfir að ráða.

Sigurður Þór Guðjónsson, 13.12.2011 kl. 13:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg211124a
  • w-blogg181124a
  • w-blogg151124c
  • w-blogg151124b
  • w-blogg151124a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 38
  • Sl. sólarhring: 261
  • Sl. viku: 1833
  • Frá upphafi: 2412853

Annað

  • Innlit í dag: 33
  • Innlit sl. viku: 1633
  • Gestir í dag: 33
  • IP-tölur í dag: 33

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband