Norðan meginrasta - eins og séð verður(?)

Hversu óvenjulegt er frostið nú? Hart frost í nokkra daga er ekki óvenjulegt á þessum árstíma, tíu daga harður frostakafli er frekar óvenjulegur. Við getum sett upp nokkur viðmið: Í Reykjavík er óvenjulegt að frost fari niður fyrir -13 stig. Í nágrannasveitum ýmsum innar í landi liggja mörk þess óvenjulega frekar við -17 til -20 stig. Á Akureyri gætum við sett mörkin við -17 til -20 stig og á landinu í heild þarf enginn að æsa sig þótt frost fari niður í -20 til -25 stig. Þrjátíu stig eru alltaf óvenjuleg.

Þessi pistill er skrifaður seint á fimmtudagskvöldi 1. desember. Enn er smávegis éljagangur suðvestanlands. Kaldasta loftið blandaðist víða en enn eimir eftir af því inn til landsins, t.d. á Suðurlandsundirlendinu þar sem hafa verið athyglisverðar hitasveiflur í dag - stöðvar hafa hrokkið inn og út úr þunnum kuldaskildi sem legið hefur yfir láglendinu án þess að blandast.

En á morgun fer mjög djúp lægð hratt til austurs fyrir sunnan land. Spár telja þó að landið sleppi að mestu við illviðrið sem henni fylgir - sem er verulegt. Það stefnir til Suður-Noregs. Hér á landi er það helst svæðið allra syðst á landinu sem gæti lent inni í skammvinnu austnorðaustanveðri með hríðarbyl. Rétt að huga að spám Veðurstofunnar þar um.

Landið er nú norðan allra meginrasta vestanvindabeltisins. Þar ríkir mikil flatneskja í háloftum og kuldapollarnir hættulegu sem vilja vera á sveimi á vetrum eru satt best að segja heldur linir miðað við það sem oftast er. Ekki virðist næstu daga heldur vera mikill áhugi hjá hlýjum hryggjum að skjóta sér norður á bóginn til móts við kuldapollana - að minnsta kosti ekki hér við norðanvert Atlantshaf. En til að sjá þetta betur lítum við á 500 hPa norðurhvelsspá sem gildir um hádegi á laugardag.

w-blogg021211a

Bláu og rauðu línurnar sýna hæð 500 hPa-flatarins í dekametrum (1 dam = 10 metrar). Því þéttari sem línurnar eru því meiri er vindurinn milli þeirra. Þykka, rauða línan markar 5460 metra hæð. Þau tíðindi hafa þau helst orðið frá því að hér var litið á þetta kort síðast að þunna rauða línan sem markar hæðina 5100 metra nær nú í kringum allt norðurskautssvæðið og liggur meira að segja sunnan við Ísland. Gríðarlegur vindstrengur er yfir Norður-Atlantshafi frá Nýfundnalandi til Bretlands og síðan austur um.

Lægðabylgjur berast hver á fætur annarri til austurs nærri þessum vindstreng og stefna á Vestur-Evrópu - en láta okkur í friði að mestu. Smávægilegar breytingar eru á stöðunni frá degi til dags en spár gera samt ráð fyrir því að ástandið haldist næstu viku. Ekki er nú víst að það gerist þótt spár helstu reiknimiðstöðva séu sammála um þetta. Strengurinn sem við sjáum nú nærri Hudsonflóa á þannig að hreyfast beint austur um haf án þess að byggja upp bylgju á undan sér.

Mikil hlýindi fylgja vestanáttinni langt austur um Evrópu - hlýindin eru því meiri eftir því sem austar og norðar dregur þar um slóðir. Einnig er óvenjuhlýtt í Kanada og Alaska þessa dagana. Ástandið í Síberíu er mjög óljóst eins og sjá má á kortinu. Þar er í aðalatriðum hlýtt - þótt þau hlýindi séu nú svona og svona - en varla sást meir en -40 stiga frost þar í dag nema í afdölum og uppsveitum. Kalt er í Miðausturlöndum og ekki sérlega hlýtt í Bandaríkjunum. Frost á veðurstöðvum Austur-Grænlands norðan við Ísland var ekki mikið meira í dag heldur en á Suðurlandsundirlendinu.

Sérstökum áhugamönnum - þeim sem nenna að skoða nýjar langtímaspár á 6 klukkustunda fresti allan sólarhringinn og þreytast kunna á læstri stöðu hér um slóðir - er nú bent á bylgjuna sem á kortinu er við Aljúteyjar. Reiknimiðstöðvarnar eru algjörlega ósammála um þróun hennar (það má nefnilega alltaf finna eitthvað spennandi, ágætu nörd).

Eftir að lægðin verður farin hjá á morgun (föstudag) lendum við í veðurlagi þegar hver smálægðin á fætur annarri myndast á Grænlandshafi og hreyfist síðan til austsuðausturs við landið eða sunnan við það. Ekkert hlýtt loft er í kringum þessar smálægðir - ekkert aðstreymi frá suðlægari slóðum heldur aðeins varminn frá kólnandi hafi. Lægðirnar myndast því ekki sem bylgjur á meginskilum eins og okkur er sagt að algengast sé. En hvernig þá? Ástæðurnar geta verið nokkrar - ef tölvurnar spýta út úr sér skýrum kortum næstu daga má e.t.v. reyna að upplýsa málið hér á hungurdiskum. Ekki er þó víst að af því verði.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Norska veðurstofan spáir veðurskiptum í kringum 12. des með hlýnandi veðri hér en kólnandi veðri yfir Skandinavíu.Kannski að kuldibolinn sé að fara heimsækja Evrópu 3. árið í röð?

Hermundur Sigurdsson (IP-tala skráð) 4.12.2011 kl. 11:02

2 Smámynd: Trausti Jónsson

Spár svo langt fram í tímann eru mjög óáreiðanlegar - vonandi er að hér hlýni sem fyrst. Í augnablikinu (sunnudagskvöldið 4. desember) eru spár mjög ósammála um kulda í Evrópu á næstunni. Vel má vera að þeir fái þriðja kuldaveturinn í röð - það hefur svosem gerst áður.

Trausti Jónsson, 5.12.2011 kl. 00:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg181124a
  • w-blogg151124c
  • w-blogg151124b
  • w-blogg151124a
  • w-blogg141124ii

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 125
  • Sl. sólarhring: 180
  • Sl. viku: 2046
  • Frá upphafi: 2412710

Annað

  • Innlit í dag: 119
  • Innlit sl. viku: 1793
  • Gestir í dag: 110
  • IP-tölur í dag: 103

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband