Heldur kuldinn áfram?

Óvenju kalt er nú (miðvikudagskvöldið 30. nóvember) víða um land. Þegar betur er að gáð kemur í ljós að óvenjulegheitin eru bundin við frekar þunnt lag af lofti. Þannig hefur nú síðdegis verið hlýrra í Bláfjöllum heldur en niðri í Reykjavík og frostið á Skálafelli er „aðeins“ -11 stig - en meir en -20 á Þingvöllum þegar þetta er skrifað (milli kl. 23 og 24). Ekki er sérlega kalt á annesjum vestanlands og frostlaust er undir Eyjafjöllum.

Kalda loftið sem streymdi til landsins í gær hefur sums staðar fengið frið til að kólna enn frekar í heiðskíru og hægu veðri. Í nótt og í fyrramálið fer vind að hreyfa og jafnvel blæs hann þá af hafi. Með meiri vindi og hafátt hlýnar umtalsvert - þótt hláku sé varla að vænta.

Frostið á Þingvöllum í kvöld er mjög óvenjulegt, komst niður í -21,6 stig milli kl. 22 og 23 - og enn hefur vind ekki hreyft. Þetta er mesta frost sem vitað er um í nóvember á Þingvöllum - eða er enn nóvember? Mönnuð stöð á Þingvöllum hefði ekki fengið viðurkennt met sem sett er eftir kl. 18 síðasta dag mánaðarins. Aðeins er lesið af lágmarks- og hámarkshitamælum tvisvar á sólarhring og reglan er sú að tala á mæli telst ætíð til þess dags sem hún er lesin.

Sjálfvirkar stöðvar bóka hita hins vegar miklu oftar. Mánuðinum á sjálfvirku stöðinni á Þingvöllum lýkur ekki fyrr en með athugun kl. 24:00. Mest frost í nóvember á Þingvöllum til þessa eru -19,5 stig, 18. nóvember 2006. Mannaða stöðin sá mest jafnlága tölu þann 23. árið 1963. Margir muna daginn áður.

Ógrynni dægurmeta einstakra stöðva hefur verið sleginn í þessum mánuði. Fyrst hrúguðust hitametin upp og nú síðustu daga kuldametin. Flest þessara meta eru marklítil vegna þess hversu stutt stöðvarnar hafa athugað. En dægurmet fyrir landið allt eru merkilegri. Svo virðist sem tvö dægurhámarksmet hafi verið slegin í mánuðinum. Þau komu bæði úr fórum sjálfvirku veðurstöðvarinnar á Skjaldþingsstöðum í Vopnafirði. Hún hafði verið sambandslaus um hríð en átti samt góðan slatta af veðurathugunum á lager. Þær komu í hús þegar sambandi var komið á.

Milli kl. 3 og 4 aðfaranótt þess 8. fór hiti á stöðinni í 21,0 stig - það er landsmet fyrir daginn þann og meðal hæstu hámarka í nóvember. Mannaða stöðin sýndi á sama tíma 20,5 stig - líka met. Var gott að stöðvunum ber saman um þennan háa hita. Nýja metið er 2 stigum hærra heldur en það gamla. Hitt dægurmetið frá Skjaldþingsstöðum er 17,9 stig sett þann 15. Það er 2,7 stigum hærra heldur en eldra met þessa dags en það var sett í Hólum í Hornafirði 1956.

Kuldinn í kvöld á Þingvöllum og í dag í Svartárkoti er landsdægurmet 30. nóvember seinni áratuga (en langt frá nóvemberkuldameti Mývatns sem er -30,4 stig). En 30. nóvember 1893 fór frostið í Möðrudal niður í -25,7 stig. Sami dagur á læsta hita í nóvember í Reykjavík, -16,7 stig.

En heldur kuldinn áfram?

Þegar vind hreyfir dregur úr mesta frostinu. Þá blandast ískalt landloftið ívið hlýrra lofti ofan við. Það tekur sennilega lengstan tíma norðaustanlands. Lægðardrag morgundagsins og lægðin sem fer hér hjá á föstudag sjá um vindinn í hræruna. En síðan virðist staðan nærri því læst í eina viku - ef trúa má spám. Það kólnar aftur þegar vind hægir og aftur léttir til. Við getum vonandi litið betur á þessa stöðu einhvern næstu daga - ef spár reynast hafa rétt fyrir sér með þetta. Lægsta þykkt sem ég hef enn séð í spám fyrir næstu daga er 5020 metrar - á mánudaginn 5. desember.

Lægðir fara þá til austurs fyrir sunnan land og við sitjum í köldu heimskautalofti með éljabakka allt um kring. Þessi ákveðna staða er mjög óþægileg fyrir norðvestanvert meginland Evrópu. Það situr framan við gríðarmikla háloftaröst þar sem óráðnar lægðabylgjur æða til austurs - hótandi illum verkum - en gera ekki endilega neitt úr þeim. Á morgun fá Sogn og firðafylki og Sunnmæri í Noregi yfir sig enn eina gusuna og lægðin sem hér fer hjá á föstudaginn er ekki búin að taka nákvæmt mið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

.......já , þetta var  óvenju öfgafullur nóvember,  svo vægt sé til orða tekið ,

spurningin dagsins  er hversu norðarlega/ sunnarlega  föstudagslægðin fer og

síðan hversu þrálát þessi kalda röst austur um allt Atlantshaf ætlar að verða.

 Og svo líka hvort " Azoreyjahæðin" muni færa sig um set og líka sú sem

kennd er við Grænland.

óli Hilmar Briem Jónsson (IP-tala skráð) 1.12.2011 kl. 09:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Mars 2025
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28 29
30 31          

Nýjustu myndir

  • w-blogg300325a
  • w-2008-hitabylgja-rvk-linurit
  • Slide13
  • w-2008-hitabylgja-rvk-linurit
  • tx rvk 300708 arason i08m afrit

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (30.3.): 825
  • Sl. sólarhring: 840
  • Sl. viku: 1907
  • Frá upphafi: 2457064

Annað

  • Innlit í dag: 773
  • Innlit sl. viku: 1749
  • Gestir í dag: 743
  • IP-tölur í dag: 725

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband