Háloftastaða þriðjudagsins - til fræðslu?

Við lítum á spá hirlam-líkansins um hæð 500 hPa-flatarins og þykktina kl. 15 þriðjudaginn 29. nóvember. Fastir lesendur kannast við táknfræði kortsins en svörtu heildregnu línurnar sýna hæð 500 hPa flatarins í dekametrum og rauðu strikalínurnar tákna þykktina, hún er einnig mæld í dekametrum (dam = 10 metrar). Því meiri sem þykktin er - því hlýrra er loftið. Því þéttari sem svörtu hæðarlínurnar eru því hvassara er í 500 hPa-fletinum en hann er eins og kortið sýnir í 5 til 6 kílómetra hæð.

w-blogg291111

Mjög myndarleg lægð er fyrir norðaustan land. Vonandi verður heldur farið að draga úr illviðrinu hér á landi þegar tími kortsins rennur upp - alla vega segir þetta kort að svo muni vera. Nú skulum við rifja upp eftirfarandi: Til þess að vindur verði mikill við jörð þarf annað hvort mikinn hæðarbratta eða mikinn þykktarbratta - séu hvoru tveggja hlíðin brött - geta þeir eytt vindi hvors annars (eða aukið hann). Næsta málsgrein er frekar þungmelt - sleppið henni bara.  

Í vesturjaðri lægðarinnar norðausturundan er mjög mikill þykktarbratti - en lítill hæðarbratti. Af þeirri staðreynd einni má ráða að vindur niður undir jörð sé mjög mikill. Í lægðarbylgjunni sem merkt er B1 (við Skotland) eru bæði hæðar- og þykktarlínur mjög þéttar - við eigum erfitt með að meta á andartaki hvort vindur við jörð sé mikill - eða ekki. Ekki er þó erfitt að reikna það út - en við gerum það ekki hér. Svipað er uppi á teningnum við bylgju sem merkt er B2. Þar eru bæði þykktar- og hæðarlínur þéttar. Við skulum þó taka eftir því að framan við bylgjuna eru þykktarlínur talsvert gisnari heldur en hæðarlínurnar. Við látum hjá líða að greiða úr þeirri flækju hér, það nægir í lærdómsatriði dagsins að taka eftir þessu.

Engar vindhraðamælingar eru á svæðinu milli Jan Mayen og Grænlands en þrýstibrattinn þar á milli á að vera um 40 hPa þegar kortið gildir. Þetta dugar í vindhraða sem er meir en 35 m/s - fárviðri. Ekki hef ég ölduspár í fingrunum en líklegt er að vindurinn æsi upp býsna mikla öldu á svæðinu.

Bylgja B1 veldur úrkomu og vindi í Vestur-Noregi á þriðjudag. Bylgja B2 ógnar Vestur-Noregi á fimmtudag (ansi ógnandi). Bylgja B3 nær sér illa upp (svífur til austurs rétt aftan við lágan öldufald hæðarhryggsins vestur af Grænlandi - sjá kortið), en á samt að gera vart við sig hér á landi á fimmtudag sem smálægð með úrkomubakka og strekkingsvindi. Rétt utan við kortið er svo B4 sem á að koma hér við sögu á föstudag. Stóru spálíkönin (evrópureiknimiðstöðin og bandaríska veðurstofan) gera mismikið úr henni. Evrópureiknimiðstöðin setur hana niður í um 955 hPa fyrir sunnan land - en sú ameríska niður undir 945 hPa á svipuðum slóðum. Báðar telja okkur þó sleppa furðuvel - en láta nágrannalöndin þjást.

Allt of snemmt er þó að segja til um þróun allra þessara lægða nema þeirrar sem fylgir B1.

Eitt atriði til viðbótar á kortinu: Þeir sem geta talið jafnþykktarlínurnar sjá að innsta línan yfir Grænlandsjökli er 4860 metrar. Þetta er hrikalega lág þykkt - en vegna þess að hún er yfir jöklinum er hún ekki raunveruleg - jökullinn er 2500 til 3000 metra hár og hæð 1000 hPa-flatarins sem nauðsynleg er til að reikna þykktina (á móti 500 hPa) er auðvitað ekki til - hún væri langt undir yfirborði jökulsins. Við lítum því frekar á þykktina við strendur Grænlands - austan og vestan megin til að sjá hita loftsins, 4920 og 4980 metra jafnhæðarlínurnar ná hvergi út fyrir jökulinn á þessu korti - nema alveg í norðurjaðri þess. Kuldaógnin hjá okkur er því helst sú að 5040 metra línan nái til landsins. Það er reyndar nokkuð slæmt - en meir um það síðar ef af verður.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sumarliði Einar Daðason

Það er mjög spennandi að fylgjast með þessu.

Sumarliði Einar Daðason, 29.11.2011 kl. 08:28

2 Smámynd: Trausti Jónsson

Satt er það Sumarliði, en hins vegar eru þeir ekki mjög margir sem lifa sig inn í þessa tegund íþrótta. Hún hefur þó þann kost umfram margar aðrar að keppt er stöðugt í gangi á hverjum degi um allan heim.

Trausti Jónsson, 30.11.2011 kl. 00:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg181124a
  • w-blogg151124c
  • w-blogg151124b
  • w-blogg151124a
  • w-blogg141124ii

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 13
  • Sl. sólarhring: 156
  • Sl. viku: 1934
  • Frá upphafi: 2412598

Annað

  • Innlit í dag: 13
  • Innlit sl. viku: 1687
  • Gestir í dag: 12
  • IP-tölur í dag: 12

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband