Lægðin fór milli Færeyja og Íslands - hvað með næstu lægðir?

Lægðin kröftuga sem fjallað var um á hungurdiskum í gær (24.11.) og fyrradag veldur þegar þetta er skrifað (rétt eftir miðnætti aðfaranótt föstudags 25. nóvember) allmiklu hvassviðri austanlands. Sömuleiðis hefur úrkoma verið töluverð. Fárviðri hefur verið sums staðar í Færeyjum, fréttir af tjóni eru þó enn litlar á heimasíðu færeyska útvarpsins. Þar hefur þó mátt sjá kort sem sýnir vindhraða eins og hann mælist á veðursstöðvum Landsverks.  Okkur sem vön erum vönduðum línuritum Veðurstofunnar og Vegagerðarinnar finnst þó pirrandi að sjá ekki meir. En sjálfsagt verða fréttir færeyska útvarpsins ítarlegri þegar veðrinu slotar.

En fleiri lægðir bíða afgreiðslu. Sú sem var yfir Indianafylki í Bandaríkjunum í fyrradag er nú skammt austur af Nýfundnalandi á leið austnorðaustur yfir Atlantshaf. Hún er öðru vísi heldur en Færeyjalægðin. Spár láta hana dýpka lítið til morguns en hún straujast þó ekki alveg og verður mjög áberandi á gervihnattamyndum á föstudag.

Á laugardaginn nær hún loks í gott fóður. Hún dýpkar snögglega nærri Færeyjum (sem þó virðast eiga að sleppa við hvassviðri) og fer þaðan til austsuðausturs yfir Suður-Noreg á sunnudag. Lægðin er mjög viðsjárverð og má litlu muna að hún valdi ekki ofsaveðri í Skotlandi, Danmörku, Suður-Svíþjóð og S-Noregi. Alla vega fylgjast veðurfræðingar vel með þróuninni. Ef hún fer norðarlega gæti fjalllendi Suður-Noregs dregið úr mesta afli vindsins í byggðum.

En lítum á spákort sem gildir um hádegi á laugardag, 26. nóvember. Þetta er rammi úr norðurhvelsspá evrópureiknimiðstöðvarinnar og fastir lesendur kannast við táknfræðina.

w-blogg251111

Bláu og rauðu línurnar sýna hæð 500 hPa-flatarins í dekametrum (1 dam = 10 metrar). Því þéttari sem línurnar eru því meiri er vindurinn milli þeirra. Þykka, rauða línan markar 5460 metra hæð.

Leifar Færeyjalægðarinnar er falin í bylgjunni sem merkt er B1 á kortinu. Lægðin sem fer austur til Noregs á sunnudag er þarna falin í bylgju B2. Á undan henni fer gríðarlega breiður og flatur hæðarhryggur þrunginn raka. Mikið gæti því rignt á norðanverðum Bretlandseyjum um helgina fyrir svo utan vindógnina sem minnst var á að ofan - og óvissa er um.

Þessi lægð fer sumsé framhjá okkur líka, eina sem hún gerir er að kippa aðeins í háloftalægðina sem er yfir Grænlandi, norðvestan Íslands. Þá gæti éljabakka rekið að Vesturlandi með tilheyrandi hálku.

Lægðin sem okkur er ætluð er á kortinu falin í bylgju B3 sem á kortinu er yfir Nýfundnalandi og svæðinu þar fyrir vestan. Hún er mjög breið og ekki alveg búin að ákveða hvernig hún ætlar að taka það. Í augnablikinu lítur út fyrir að fyrsti hluti hennar komi að landinu á sunnudagskvöld - ekki með neinum látum - en síðan á hún að dýpka mjög rösklega í námunda við landið á mánudaginn.

En tökum samt hóflega mark á langtímaspám. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg250125d
  • w-blogg250125c
  • w-blogg250125b
  • w-blogg250125a
  • w-blogg220125id

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.1.): 6
  • Sl. sólarhring: 123
  • Sl. viku: 2120
  • Frá upphafi: 2436941

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 1937
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband