Veðrasveiflur síðustu áratuga (7) - upphaf hlýskeiðsins mikla 1920-30

Það er nú e.t.v. fulllangt gengið að fjalla um þriðja áratug 20. aldar í flokki síðustu áratuga - en það er allt afstætt. Við lítum á upphaf hlýskeiðsins mikla sem hófst um 1920, náði fyrsta hámarki sínu 1929, öðru hámarki áratug síðar, hikstaði þá aðeins en hélst þó fram yfir 1960.

Fyrsta myndin sýnir 12-mánaða keðjumeðaltöl hita í Reykjavík frá 1918 til 1929. Vinstri endinn á línuritinu byrjar með tímabilinu apríl 1917 til og með mars 1918, hægri endinn er maí 1928 til apríl 1929.

w-blogg171111a

Ártölin á myndinni eru sett þar sem tímabilin janúar til desember lenda, línan við 1920 á því við allt árið 1920 - ómengað af öðrum árum. Tímabilið sem inniheldur ágúst 1919 til júlí 1920 á lágmarkshita línuritsins, 2,69°C. Þetta er 0,16°C lægra heldur en lægsta talan á þeim myndum sem við höfum séð í fyrri pistlum, sem var 1979. Hæsta talan er lengst til vinstri inniheldur tímabilin apríl 1928 til mars 1929 og maí 1928 til apríl 1929, 6,25°C. Þetta er aðeins 0,36 stigum lægra heldur en hámarkið mikla 2002 til 2003.

Gróflega getum við sagt að á þessu stutta tímabili sem myndin sýnir hafi hlýnað úr 3,5 stigum upp í 5,5 - tveggja stiga hækkun á áratug. Ekki furða þótt veðurfarsfræðingar þessa tíma hafi hrokkið upp af værum blundi. Það er ekki alveg auðvelt að sjá nákvæmlega hvar hlýnunin byrjar (hvaða dag?), en hún er að vísu bröttust veturinn 1920 til 1921. Fimm stigin náðust fyrst á tímabilinu júlí 1925 til júní 1926. Þá voru liðin 45 ár síðan það gerðist síðast. En það er samt fyrst frá og með 1928 að hitinn fer út úr kortinu.

Í þeirri fjarlægð tímans sem okkar sjónarhóll liggur eigum við miklu auðveldara með að ramma myndina inn heldur en þeir sem upplifðu þetta. Við vitum t.d. að hitinn fór ekkert hærra heldur en í toppinn við enda línuritsins.

En hvernig var ástandið í háloftunum um þetta leyti? Í fyrri pistlum sáum við að tveir þættir ráða mestu um hitafar hér á landi, annars vegar styrkur sunnanáttarinnar í háloftunum en hins vegar hæð 500 hPa flatarins. Sunnanáttin segir til um ákefð lægðagangs til norðurs fyrir vestan land, en hæð 500 hPa mælir stöðu stóru bylgjunnar yfir N-Atlantshafi, hvort við erum hæðarbeygju- eða lægðarbeygjumegin í henni. Séum við hæðarbeygjumegin á sunnanáttin uppruna sinn Golfstraumsmegin Atlantshafs en séum við lægðarbeygjumegin eru líkur á að hún eigi uppruna sinn vestra, yfir Kanada. Auk þessa kemur vestanáttin lítillega við sögu hitans.

Fyrst er það sunnanáttin og hitinn, háloftagögnin eru úr bandarísku endurgreiningunni sem hungurdiskar nota mikið - þökk sé þeim er þakka ber.

w-blogg171111b

Blái ferillinn sýnir hitann, rétt eins og á fyrri mynd, en sá rauði er sunnanáttin. Því hærra sem sá ferill liggur í línuritinu því meiri er sunnanáttin (hafið ekki áhyggjur af einingunum á kvarðanum til hægri). Við sjáum að upphafshlýindin byggja á mikilli sunnanátt ársins 1921 - enda er þetta eitt úrkomumesta ár allra tíma um landið sunnanvert. Við sjáum líka að kuldakast á árinu 1924 er tengt skammvinnu sunnanáttarlágmarki. Síðan er hitanum nokkuð sama um sunnanáttina. Hann rýkur upp á við hvað sem henni líður.

Þá er það hin myndin, sú sem sýnir hæð 500 hPa-flatarins og hitans saman.

w-blogg171111c

Hér falla sveiflur betur saman. Hlýindaaukinn 1921 er greinilega ekki hæðarstýrður - sunnanáttin er ein um hann. Sömuleiðis er kuldinn 1924 ekki hæðarstýrður heldur. Topparnir 1925 til 1926 og síðan aðaltoppurinn 1929 eru greinilega hæðartengdir.

Á meðan þessu stóð hækkaði sjávarhiti við strendur landsins svo um munaði. Hæðaratburðurinn 1929 minnir talsvert á hæðaratburð ársins 2010 og við munum svo vel. Hæðin 1929 var þó þannig staðsett að sunnanáttin datt ekki alveg niður eins og 2010. Við getum vel hugsað okkur að svona hæðaratburðir eigi sér tilviljanakennt stað við N-Atlantshaf. Þeir eru missterkir og auk þess ekki alltaf á sama stað. Atburðurinn 2010 var þannig vestar heldur en 1929. Aðrir stórir atburðir hafa orðið enn vestar - þá lendum við í ískaldri norðanáttinni við austurjaðar hæðarinnar. Hversu heppin verðum við næst?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Trausti.

Má þá ekki líka sjá " kuldaskeið "  árin 1880 - 1920 ? Innan þessa tímabils

finnast  einhver mestu harðindaár Íslandssögunnar og frostavetur. (1881 & 1918)

óli Hilmar Briem Jónsson (IP-tala skráð) 17.11.2011 kl. 18:08

2 identicon

Gaman væri að vita hvor einhversstaðar á norðurhveli varð kuldaskeið á þessu árabili, sambærilegt við hlýindaskeiðið hér hjá okkur? (e.k. speglun)

Áskell Örn Kárason (IP-tala skráð) 17.11.2011 kl. 19:24

3 Smámynd: Trausti Jónsson

Óli Hilmar: Ég vonast til að koma fleiri tímabilum að síðar - e.t.v. fljótlega. Áskell: Labradorsvæðið sat eitthvað og beið meðan hlýnaði annars staðar á norðurslóðum. Ég get vonandi síðar fjallað um hvað gerist yfirleitt þegar slaknar á vestanvindabeltinu yfir Norður-Atlantshafi. Séu jákvæð hæðarvik mikil í norðurjaðri beltisins koma venjulega fram neikvæð vik sunnar á svæðinu - þar er því kaldara heldur en venjulega. Ég held það hafi átt við um atburðinn 1927 til 1929. Hægt er að spyrja endurgreininguna margnefndu um þetta - en þar hefur nýlega verið skipt yfir í 1981 til 2008 sem viðmiðunartímabil og má segja að öll fyrri tímabil séu kaldari á norðurhvelsvísu heldur en það. Heldur óheppilegt val á tímabili hvað hitann varðar. En ég athuga þetta e.t.v. nákvæmlega síðar.

Trausti Jónsson, 18.11.2011 kl. 01:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 329
  • Sl. sólarhring: 346
  • Sl. viku: 1903
  • Frá upphafi: 2350530

Annað

  • Innlit í dag: 248
  • Innlit sl. viku: 1697
  • Gestir í dag: 234
  • IP-tölur í dag: 234

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband