Af afbrigðilegum nóvembermánuðum

Nú eru 10 dagar liðnir af nóvember. Tíðarfarið það sem af er hefur verið óvenjuhlýtt, meðalhiti er 3 til 4 stigum ofan meðallags. Allt of snemmt er að segja til um það hver meðalhiti mánaðarins verður - eða hvort hann á nokkra möguleika á háu hlýindasæti þegar upp verður staðið. En við reynum að njóta hlýindanna meðan þau endast.

En í pistli dagsins leitum við að mestu norðan- og sunnanáttarmánuðum - rétt eins og áður hefur verið gert hér á hungurdiskum fyrir mánuðina júní til október. Sömu aðferðir og fyrr eru notaðar. Gerð er grein fyrir þeim jafnóðum.

1. Mismunur á loftþrýstingi austanlands og vestan. Þessi röð nær sem stendur aftur til 1881. Gengið er út frá því að sé þrýstingur hærri vestanlands heldur en eystra séu norðlægar áttir ríkjandi. Líklegt er að því meiri sem munurinn er, því þrálátari hafi norðanáttin verið. Ákveðin atriði flækja þó málið - en við tökum ekki eftir þeim hér.

Mestur norðanáttarmánaða er nóvember 1947. Hiti var undir meðallagi en ekkert sérstakir kuldar. Nánari athugun leiðir reyndar í ljós að austanáttin var líka venju fremur sterk þennan mánuð. Þeir sem lásu pistilinn í gær (köldustu nóvemberdagarnir) muna þó að þar var minnst á mikið kast eftir miðjan mánuð. Þá var þykktin í óvenjulegri lágstöðu. 

Næstmest var norðanáttin samkvæmt þessu tali í nóvember 1923. Þá var mjög kalt og sjóslys tíð. Veðurstofan var nýlega farin að gefa út spár en þær voru mjög ótryggar auk þess sem erfitt var að dreifa þeim - þetta var fyrir tíma útvarps og fáir heyrðu eða sáu þær spár sem þó voru gefnar út. Það var helst við símstöðvar landsins að einhverjar fréttir var að fá.   

Mest varð sunnanáttin í nóvember 1993. Þá gengu óvenjulegar úrkomur og illviðri yfir landið sunnan- og vestanvert. Mjög hlýtt var í veðri. Þetta er úrkomusamasti nóvember sem vitað er um á Suður- og Vesturlandi. Tíð var hagstæð nyrðra og eystra. Meðalhámarkshiti mánaðarins var 9,4 stig á Seyðisfirði og er það hæsti meðalhámarkshiti í nóvember sem frést hefur af hér á landi.

2. Styrkur norðanáttarinnar eins og hann kemur fram þegar reiknuð er meðalstefna og styrkur allra vindathugana á öllum (mönnuðum) veðurstöðvum. Þessi röð nær aðeins aftur til 1949.

Samkvæmt þessu máli er nóvember árið 2000 í fyrsta sæti, nóvembermánuðir áranna 2009 og 2010 koma síðan í öðru sætinu og því þriðja. Þrátt fyrir norðlægar áttir voru þessir mánuðir ekki kaldir og nóvember 2009 meira að segja í flokki þeirra hlýjustu. Hér sjáum við enn hversu veðurlag áranna 2009 og 2010 var afbrigðilegt og norðanáttin hlý.

Sunnanáttaríkastir á tímabilinu 1949 til 2010 samkvæmt þessari reiknireglu eru 1993 og minnst á var að ofan, síðan eru 1956 og 1958. Síðastnefndi mánuðurinn var einnig fádæma úrkomusamur sunnan- og vestanlands - en úrkoma var þó ekki alveg jafn mikil og í nóvember 1993.

3. Gerðar hafa verið vindáttartalningar fyrir þær veðurstöðvar sem lengst hafa athugað samfellt og vindathugunum skipt á 8 höfuðvindáttir og prósentur reiknaðar. Síðan er tíðni norðvestan, norðan, norðaustan og austanáttar lögð saman. Þá fæst heildartala norðlægra átta. Þessi röð nær aftur til 1874. Sunnanáttin er metin á sama hátt.

Hér er nóvember 1877 mestur norðanáttarmánaða. Þá var tíð talin allgóð suðvestanlands en annars óhagstæð. Jafnir í öðru til þriðja sæti eru nóvember 1947 (áður nefndur) og 1919. Þá var mjög kalt en tíð ekki talin óhagstæð.

Sunnanáttin var langmest í áðurnefndum nóvember 1993, en næstmest 1889. Síðarnefndi mánuðurinn var einnig mjög illviðrasamur og gerði vonsku bæði af suðlægum og norðlægum áttum. Mikil skriðuföll urðu í Fljótshlíð og skemmdir á níu bæjum. Markarfljót var sagt svo mikið að engin eyri hafi verið upp úr milli Fljótshlíðar og Eyjafjalla.

4. Fjórði mælikvarðinn er fenginn úr endurgreiningunni amerísku og nær hann aftur til 1871. Fyrstu 20 til 30 árin verðum við þó að taka niðurstöðum greiningarinnar með varúð. Hér er stungið upp á nóvember 2000 sem mesta norðanáttarmánuðinum, 1877 í öðru sæti og 1947 í því þriðja. Þessi ár voru öll nefnd hér að ofan.

Nóvember 1993 er enn langmesti sunnanáttarmánuðurinn, nóvember 1920 er í öðru sæti og 1968 í því þriðja. Sumir muna enn hlýindin í síðastnefnda mánuðinum. Þá sprungu blóm út í görðum, en mikil skriðuföll urðu á Austfjörðum.

5. Fimmti kvarðinn er einnig úr endurgreiningunni nema hvað hér er reiknað í 500 hPa-fletinum. Mest var norðanáttin í nóvember 1878. þá var talað um skammvinn norðanskot og óhagstæða tíð víðast hvar á landinu, meinlítið var syðra. Næstmestur norðanáttarmánaða er nóvember 1969, 2010 er í fimmta sæti.

Sunnanáttin í 500 hPa var langmest í nóvember 1993 - greinilega mestur sunnanáttarmánaða - án vafa. Nóvember 1902 er í öðru sæti. Þá gerði eitt af mestu landsynningsveðrum allra tíma með verulegu tjóni víða land, veðursins gætti minnst á Norðurlandi.   

Það vekur athygli að hlýjasti nóvember allra tíma, 1945, skuli ekki skila sér í toppsætin á sunnanáttarlistunum - en hann er efstur á þykktarlistanum, eins og vera ber. Nóvember 1956 telst hlýjastur norðaustanlands.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

 • Slide10
 • Slide9
 • Slide11
 • w-1945v
 • Slide8

Heimsóknir

Flettingar

 • Í dag (23.5.): 54
 • Sl. sólarhring: 93
 • Sl. viku: 1595
 • Frá upphafi: 2356052

Annað

 • Innlit í dag: 50
 • Innlit sl. viku: 1480
 • Gestir í dag: 47
 • IP-tölur í dag: 46

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband