Leitnilaus ársmeðalhiti

Ekki er fyrirsögnin auðskilin. En skýrum hana betur. Á hefðbundnum línuritum yfir hitafar hér á landi frá miðri 19. öld til okkar daga má greinilega sjá hvernig hiti hefur hægt og bítandi farið hækkandi. Það skiptir auðvitað máli hvenær byrjað er og endað en nái línuritið á annað borð meir en hundrað ár aftur í tímann kemur fram gott samband milli ártals og hita. Sé máli brugðið á þetta samband sýnir það meðalhlýnun sem er um 0,007°C á ári.

Ef miðað er við tímabilið 1798 til 2010 reiknast hlýnunin nákvæmlega 0.0074 stig á ári að meðaltali. Þótt þetta virðist ekki mikið safnast það upp í nærri 1,57 stig á 213 árum. Þetta er svo mikið að það hefur veruleg áhrif á útlit línuritsins. Ég legg áherslu á að þessi reiknaða leitni segir ekkert um framtíðina - né heldur um það hvað þessu veldur. Þetta er útreiknuð tala. Hún er reyndar mjög svipuð - eða litlu minni fyrir norðurhvel í heild. Það er talið benda til þess að ekki sé um eitthvað staðbundið að ræða.

En lítum nú til gamans á það hvernig ársmeðalhitalínuritið lítur út eftir að þessi leitni er numin á brott.

w-blogg280811

Við sjáum hér hinn leitnilausa ársmeðalhita fyrirsagnarinnar. Hafa verður í huga að tölur eru óvissar fyrir 1830 - en alláreiðanlegar eftir það. Bláa, feita línan er 7-ára keðjumeðaltal, munur á hæsta og lægsta gildi þess er um 1,7 stig - ívið meiri en hin brottnumda heildarleitni. Það sem er enn athyglisverðara er auðvitað hversu skyndilegar sveiflur milli hlýskeiða annars vegar og kuldaskeiða hins vegar eru snöggar, 1,0 til 1,4°C á áratug meðan leitnin (sem við tókum burt) er innan við tíundihluti þeirrar breytingar.

Það vekur sömuleiðis athygli að kaldviðri og hlýviðri virðast algengari heldur en eitthvað þar á milli. Eða hvað? Við sjáum að nýbyrjað hlýskeið er á svipuðum slóðum og hlýskeiðið mikla fyrir miðja 20. öld. Ekki hefur 19. aldar hlýskeiðið verið amalegt í sínu umhverfi - það virðist alla vega skera sig úr kuldum á undan og eftir - rétt eins og síðari hlýskeið. En með innskoti frá harðindaárunum 1835 til 1837.

Í 20. aldar hlýskeiðið er líka kalt innskot 1949 til 1952. Þá hafði undirliggjandi (?) hlýnun séð til þess að nær enginn hafís var í nánd við landið - en hann var ekki fjarri á 19. öld. Við erum nú á hlýskeiði sem við vitum ekki hversu lengi stendur þannig að nafn á því er varla við hæfi ennþá.

Myndin á að sýna okkur svart á hvítu að hlýskeið hér á landi geta endað snögglega og þá með kólnun upp á 1 stig eða meira á einum áratug. Undirliggjandi hlýnun upp á 0,1 stig á sama tíma sést varla í þeim hávaða öllum - ekki nema hún verði talsvert ákveðnari heldur en það.

Sé litið á raunverulegu mælingarnar (þar sem leitnin hefur ekki verið numin brott) sést að 20. aldar hlýskeiðið er um 0,7 stigum hlýrra heldur en hlýskeiðið 100 árum áður og núverandi hlýskeið er um 0,4 stigum hlýrra heldur en það síðasta. Í leitnilausa heiminum er hlýjasta árabil 20. aldar hlýskeiðsins á árunum 1927 til 1933 en í raunheimum eru 1936 til 1942 - svo er undirliggjandi hlýnun fyrir að þakka. Í leitnileysinu er toppur núverandi hlýskeiðs (2003 til 2009) 0,16 stigum undir 20. aldar skeiðinu en í raunveruleikanum eru þau ár 0,4 stigum hærri - eins og áður er komið fram.

Stóru sveiflurnar á myndinni náðu til mun stærra svæðis heldur en Íslands en þær voru samt ekki hnattrænar. Hlýskeið 20. aldar var fyrst og fremst norðurslóðafyrirbrigði. Samsvarandi skeið á 19. öld var jafnvel staðbundnara - en það er ekki vitað með vissu. Sveiflur frá ári til árs eru hins vegar tiltölulega staðbundnar - oft um ein stórbylgjulengd í vestanvindabeltinu.

Umtalsverð kólnun hér á landi (og á stóru svæði í námunda við okkur - eða annars staðar) getur dulið undirliggjandi hlýnun - þar til næsta hlýskeið gengur í garð. Ef það gerðist, t.d. eftir 10 ár, ættu köldustu ár þess að verða um 0,3 stigum hlýrri heldur en köldustu 7 árin um 1980.

Síðasta kuldaskeið var um 35 ára langt, núverandi hlýskeið er þegar orðið meira en 10 ára langt. Tuttugustualdarhlýskeiðið var um 40 ára langt og kuldaskeiðið langa á síðari hluta 19. aldar og fyrstu ár þeirrar 20. var 60 ára langt. Nítjándualdarhlýskeiðið gæti hafa verið um 30 ár.

En lítum á þessar vangaveltur sem hugarleikfimi - liðin leitni eða liðin hlýskeið segja ekkert um framtíðina. Hún á ábyggilega eftir að koma á óvart.   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Búandi á Akureyri og frostbrendur af ísköldu nýliðnu vori finnst mér súrt að lesa um yfirstandandi hlýskeið! En það er líklega ákveðin mannlegur breyskleiki.

Kveðja að norðan.

Arinbjörn Kúld, 28.8.2011 kl. 08:51

2 Smámynd: Guðmundur Jónsson

Mér finnst þessi mynd vera athglisverð fyrir þær sakir að á henni er mjög greinlegt að tíu ára sveifla hefur lækað úr rúmum 3° og niður fyrir 2°

Hvað gæti vald svona minnkandi öfgum í hitastrigi hér á landi ?  

Guðmundur Jónsson, 28.8.2011 kl. 20:42

3 Smámynd: Trausti Jónsson

Arinbjörn - hlýskeið er það samt - og meira að segja það mesta sem þekkt er síðan mælingar hófust. Guðmundur: Sveiflur eru trúlega minni á seinni árum heldur en áður vegna þess að lengra er í hafísinn. Það veldur því að hér á landi ríkir meira úthafsloftslag en áður. Munur á hita frá ári til árs er því minni, sömuleiðis er hitamunur milli sumars og veturs minni en áður og munur landshluta líka minni en áður.

Trausti Jónsson, 29.8.2011 kl. 01:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • w-blogg211224b
  • w-blogg211224
  • w-blogg121224
  • w-blogg111224a
  • w-blogg101224b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.12.): 18
  • Sl. sólarhring: 225
  • Sl. viku: 980
  • Frá upphafi: 2421080

Annað

  • Innlit í dag: 18
  • Innlit sl. viku: 858
  • Gestir í dag: 18
  • IP-tölur í dag: 18

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband