Norðurhvel - er hásumri að ljúka?

Fyrirsögnin kann að vera villandi að því leyti að ekki er nein ákveðin skilgreining til um það hvenær hásumar byrjar eða því lýkur. En ýmislegt er leyfilegt á blogginu (sýnist mér). Við lítum á spákort evrópureiknimiðstöðvarinnar um hæð 500 hPa-flatarins á laugardaginn 27. ágúst kl. 12.

w-blogg260811

Fastir lesendur kannast við táknfræði kortsins en aðrir þurfa að vita að höfin eru blá, löndin ljósbrún. Ísland er neðan við miðja mynd. Bláu og rauðu línurnar sýna hæð 500 hPa-flatarins í dekametrum (1 dam = 10 metrar). Því þéttari sem línurnar eru því meiri er vindurinn milli þeirra. Þykka, rauða línan markar 5460 metra hæð, en sú þunna sýnir hæðina 5820 metra.

Nú er orðið fullvíst að 5460 metra línan (sú þykka rauða) mun ekki hverfa af kortinu í sumar. Svæðið innan við hana fer að breiða úr sér svo um munar. Á kortinu er það enn sundurskilið í nokkra lokaða hringi. Þetta er e.t.v. síðasta kort sumarsins þar sem hringirnir eru aðskildir - um helgina taka þeir höndum saman og mynda eitt risastórt sameiginlegt svæði. Hásumri yfir Norðurslóðum er lokið að sinni.

En sumarið er ekki alveg búið - ekki heldur yfir Norðuríshafi þar bráðnar ís enn og þykktin hefur ekki enn sigið niður í vetrartölur. Reyndar var það þannig í dag (fimmtudaginn 25. ágúst) að minnsta þykkt norðurhvels virtist vera við Norðaustur-Grænland - ekki langt frá okkur, 5260 metrar. Það er óþægilegt fyrir okkur - en telst til þæginda á norðurpólnum.

Þunna, rauða línan á kortinu (5820 metrar) hörfar ekki jafnhratt til suðurs og 5460 línan sækir að. Þetta þýðir að bratti á milli línanna vex. Þar með bætir í vind og misgengi þykktar- og hæðarflata vex, en það ýtir undir myndun öflugra lægða.

En undanfarna daga hefur mikil hitabylgja plagað suma evrópubúa, hiti hefur jafnvel nálgast met á Norður-Ítalíu. Snarpt lægðardrag sem á laugardaginn verður yfir Norðursjó á að skafa hlýja hrygginn (sem valdið hefur hitabylgjunni) til austurs. Þá mun 5700 metra þykktarlínan heimsækja Danmörku og Suður-Svíþjóð stutta stund. Sólarleysi mun eiga að koma í veg fyrir að hiti þar nái 30 stigum auk þess sem hlýja loftið stendur mjög stutt við. Danska veðurstofan talar um að svæðið verði eins og púðurtunna um helgina þar sem kalda loftið brýst undir það hlýja og flæmir það burt. Mjög erfitt er að spá smáatriðum í slíkum kuldaskilum - e.t.v springur tunnan ekki.

Á kortinu má einnig sjá mikið línukraðak í kringum fellibylinn Irene sem á laugardaginn verður skammt austur af Norður-Karólínu í Bandaríkjunum. Það er erfitt að sjá af kortum hver þykktin er í miðju fellibylsins - en á nákvæmari kortum virðist talan 5940 metrar standa við miðjuna (það kann þó að vera missýning hjá mér). Mér sýnist sömu kortum að 500 hPa hæðin í miðju bylsins sé um 5570 metrar. Fréttir eru af því að miðjuþrýstingur við sjávarmál sé 950 hPa, það jafngildir því að hæð 1000 hPa flatarins sé um -400 metrar, það gæfi þykktina [5570 - (-400)] = 5970 metra. Ótrúleg tala - en varla mjög fjarri lagi.  

Fellibylurinn Irene hverfur þegar hann kemur inn yfir land. Það á að gerast á sunnudaginn (held ég). Það er ekki auðvelt að koma hitabeltislofti norður fyrir 50. breiddarstig. Af ástæðum sem ekki er hægt að rekja hér eiga fellibyljir þó auðveldara með það heldur en önnur veðurkerfi.

Tvær aðrar hitabeltislægðir eru á kortinu, báðar á Kyrrahafi. Sú nær Filippseyjum er fellibylur en hin er hitabeltisstormur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg211124a
  • w-blogg181124a
  • w-blogg151124c
  • w-blogg151124b
  • w-blogg151124a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 8
  • Sl. sólarhring: 879
  • Sl. viku: 2330
  • Frá upphafi: 2413764

Annað

  • Innlit í dag: 8
  • Innlit sl. viku: 2149
  • Gestir í dag: 8
  • IP-tölur í dag: 8

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband