Klósigar (það er nafn á skýjaætt)

Í dag, laugardaginn 20. ágúst, voru klósigar mjög áberandi á himni um landið vestanvert. Klósigar eru háský en svo nefnast ský sem eru ofar 4 km hæð hér á norðurslóðum. Ekki veit ég fyrir víst hversu hátt klósigarnir í dag voru, en ég sting upp á annað hvort 5 eða 7 til 8 kílómetrum. Veðrahvörfin voru um hádegið í rúmlega 10 km yfir Keflavík.

Oft eru klósigar fyrsti fyrirboði skila- eða úrkomukerfa á leið til landsins. Í fyrradag var hér fjallað um háloftalægðardrag eða lægð á leið til suðurs yfir Grænland. Klósigarnir í dag voru fylgifiskar dragsins. Fyrsta tilraun þess til að búa til samfelldan háskýjabakka. Það tekst væntanlega betur á morgun. Hvort við sjáum það fer eftir því hvort sýn okkar til háskýja verður byrgð af lægri skýjum eða ekki. Gaman að fylgjast með því - kannski að viljugir teikni þá samskil í bakkann?

En meir um klósiga. Um þá má mjög margt segja - ég á meira að segja 300 bls. bók sem fjallar um nær ekkert annað enda ber hún nafnið Cirrus sem er alþjóðaheiti skýjaættarinnar/meginskýjaflokksins.

Klósigaflokkurinn greinist í margar undirtegundir eftir útliti og uppruna. Sé mikið far á þeim tengjast þeir oftast miklum vindröstum í háloftunum, oftast fylgifiskar og fyrirboðar stórra úrkomukerfa. Algengt er að sjá klósiga í lok skúradags eða í tengslum við éljagarða, þá eru þeir leifar af efstu hlutum skýjaklakka sem hafa dælt raka upp í efri hluta veðrahvolfs. Sé vindur hægur í efri lögum getur rakinn dvalist þar dögum saman og myndað ský öðru hvoru, t.d. þegar neðri loftlög bólgna í sumarhita og valda lyftingu í því lagi þar sem rakinn sem myndar klósigann dvelur. Klósigar tengjast oft fjallauppstreymi og myndast þá langt yfir fjöllunum. Auk þessa er algengt að klósigar verði til í útblæstri þotuhreyfla (flugslóðar).

w-blogg210811

Vonandi að myndin sjáist á skjám lesenda en hún er í grunninn fengin úr Veðurfræði fyrir byrjendur (Elementary Meteorology) sem Eyðublaðastofa hennar hátignar bretadrottningar gaf út fyrir 50 árum og er einhver besta byrjendakennslubók í veðurfræði sem ég hef rekist á.

Klósigi er langoftast samsettur úr tveimur einingum, annars vegar litlum skýjahnoðra, en hins vegar skýjaböndum, slæðu eða greinum (virga) niður úr henni. Ískristallar klósigans myndast í uppstreymi í hnoðranum og falla síðan niður úr honum, geta vaxið í fallinu, en gufa þar smám saman upp í þurrara lofti neðan við. Skýið minnir oft á plöntu sem rifin hefur verið upp með rótum. Slæðan (afurð skýsins) er langoftast mest áberandi hluti klósiga sem gefur þeim nokkra sérstöðu meðal skýjaflokkanna.

Skýjahnoðrinn ofan á er mjög misáberandi og er orðinn til í óstöðugu lofti. Orsakir óstöðugleikans eru fjölbreyttar. Ískristallar falla nú niður úr hnoðranum og er nú ýmist að þeir mynda stuttar greinar sem eru allþéttar efst, en þynnast síðan - eða að þeir falla fyrst í gegnum rakt lag sem stækkar þá og gerir greinarnar þar með skýrari okkar augum. Að endingu gufa kristallarnir upp. En fyrir kemur að uppgufunin kælir loftið og þar með geta slæðurnar myndað bylgjur áður en þær hverfa.

Vindsniði (mismunandi vindur í mismunandi hæð) ræður útliti hins dæmigerða krókaklósiga.  (vatnsklær). Ískristallarnir sem mynda slæðu/greinar falla niður í vind sem er annað hvort meiri eða minni, eða blæs úr annarri átt heldur en vindurinn í hnoðranum.

Greint er á milli margra klósigaafbrigða/tegunda. Fjalla mætti um þau mál síðar.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Svo forfeður vorir og -mæður hafa sumsé haft að miklu leyti rétt fyrir sér varðandi túlkun á því sem klósigar og vatnsklær sérstaklega voru talin boða. Á eftir fylgja oft blikuský og uppgangsblika og síðar gráblika ef ég man rétt? Það er stundum meira til í svonefndum "alþýðuvísindum"  en sumir telja, þótt margt af því séu auðvitað hrein hindurvitni.

Þorkell Guðbrandsson (IP-tala skráð) 21.8.2011 kl. 10:28

2 Smámynd: Trausti Jónsson

Mjög margt er rétt í alþýðuveðurvísindum. Klósigar koma þar oft við sögu sem fyrirboðar, bæði hinar hefðbundnu vatnsklær sem og aðrar klósigategundir sem ég mun e.t.v. minnast á síðar.

Trausti Jónsson, 22.8.2011 kl. 01:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • w-blogg241224b
  • w-blogg241224a
  • w-blogg211224b
  • w-blogg211224
  • w-blogg121224

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.12.): 46
  • Sl. sólarhring: 443
  • Sl. viku: 1597
  • Frá upphafi: 2421976

Annað

  • Innlit í dag: 38
  • Innlit sl. viku: 1450
  • Gestir í dag: 38
  • IP-tölur í dag: 38

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband