Vesturlandsdragið? Suðausturhryggurinn?

Þótt þrýstisviðið yfir landinu sé síbreytilegt frá klukkustund til klukkustundar og frá degi til dags sjást fyrirbrigðin sem nefnd eru í fyrirsögninni furðu oft í gegnum allan breytileikann. Ekki hafa þau þó verið nefnd sérstökum nöfnum þar til nú - enda ekki víst að ástæða sé til nafngiftar. En í þessum pistli fá þau að holdgerast einu sinni - (þótt ekki sé nýjársnótt).

w-blogg120811a

Kortagrunnur í myndum er gerður af Þórði Arasyni. Fyrsta myndin á að sýna Vesturlandsdragið en það er sveigja sem kemur á þrýstilínur yfir landinu þegar vindátt er austlæg. Landið aflagar þrýstisviðið á þennan hátt. Það fer eftir vindátt (almennri stefnu þrýstisviðsins á svæðinu), vindhraða (almennum þrýstibratta á svæðinu) og stöðugleika loftsins hversu áberandi það er.

Ekki verða hér taldir allir fylgiþættir dragsins, en nefnum samt þrjá: i) Meiri vindhraði er undan Mýrdal, Eyjafjöllum og við Vestmannaeyjar heldur en hið almenna þrýstisvið gefur tilefni til. ii) Aukinn þrýstibratti undan Vestfjörðum eykur vind á þeim slóðum. iii) Bjartviðri í innanverðum Húnavatns- og Skagafjarðasýslum. Vindur stendur þar af landi og hindrar ríkjandi norðaustanátt í að ná inn á svæðið. Við þessa mótstöðu verður til samstreymissvæði á annesjum og þar er oft úrkoma, snjókoma á vetrum í þessari stöðu.

Að sumarlagi er myndin yfirleitt allt önnur.

w-blogg120811b

Þá er tilhneiging til lægðarmyndunar yfir landinu, lægðardragið breiðist til austurs og dæmigerð lögun þrýstilína í austlægum áttum verður eins og kortið sýnir. Þá er algengt að óljós hæðarhryggur liggi vestur um Skaftafellssýslur og þar er þá hægur vindur og þokuloft. Aðalafleiðing sumaraflögunar þrýstisviðsins kemur fram á Norðurlandi. Í austlægum áttum sveigir landið þrýstisviðið þannig að vindur blæs af hafi í Húnavatns- og Skagafjarðarsýslum, en á Norðausturlandi vill vindur frekar standa af suðaustri og vinnur á móti innrás sjávarloftsins. Í heildina kemur þetta þannig út að hlýir dagar eru fleiri á austanverðu Norðurlandi heldur en á því vestanverðu.

Síðasta mynd þessa pistils sýnir dæmigerða hringrás yfir landinu að deginum á sumrin.

w-blogg120811c

Bláu örvarnar sýna stefnu hafgolunnar kl.15 eins og hún reiknaðist í gamalli greinargerð minni um dægursveiflu vinds í júnímánuði (mynd 10, bls. 8). Hún stendur alls staðar nánast beint af hafi inn yfir ströndina. Brúnu, stóru, örvarnar sýna hins vegar áhrif þeirrar aflögunar sem landið veldur á þrýstisviðinu og rætt var um hér að ofan. Sé þrýstisviðið mjög flatt fyrir hefur hin eiginlega hafgola undirtökin og blæs vindur þá af vestri bæði í Borgarfirði og við Breiðafjörð, sé áttin hins vegar austlæg tekur hún völdin af hafgolunni - eins og myndin sýnir. Vindur í Borgarfirði og við Breiðafjörð vex þá af landi um miðjan daginn og stundum nær sjávarloftið úr Húnaflóa suður um. Er þetta eins konar öfug hafgola?

Hitalægðin yfir landinu er þó ekki öll sem sýnist því athuganir á hálendinu sýna mjög litla dægursveiflu þrýstings þótt mjög greinileg hitalægð komi fram þegar hann er leiðréttur til sjávarmáls. Reiknitilraunir Haraldar Ólafssonar og félaga munu vonandi skýra þetta dularfulla mál að fullu en Haraldur og Reiknistofa í veðurfræði standa fyrir mörgum athyglisverðum reikniverkefnum sem varpa ljósi á ýmis fyrirbrigði í veðurfari hérlendis, sérstaklega þau sem varða vinda.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ekki veit ég hvað öðrum finnst, en mér finnst að ég skilji örlítið meira í gangi veðurs á landinu eftir þessar skýringarmyndir. Takk fyrir þetta, Trausti.

Þorkell Guðbrandsson (IP-tala skráð) 12.8.2011 kl. 09:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • w-blogg211224b
  • w-blogg211224
  • w-blogg121224
  • w-blogg111224a
  • w-blogg101224b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 87
  • Sl. sólarhring: 235
  • Sl. viku: 1052
  • Frá upphafi: 2420936

Annað

  • Innlit í dag: 80
  • Innlit sl. viku: 929
  • Gestir í dag: 79
  • IP-tölur í dag: 78

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband