Liðnir júlímánuðir - hæstu hámörk frá 1874

Meðan við bíðum eftir hlýja loftinu skulum við líta á hæsta hita í júlímánuðum frá og með 1874. Ég held að hæsti hiti í júlí í ár hafi ekki enn náð 23 stigum - en þó nærri því. Ég get þó ekki flett því upp héðan úr bloggstóli og biðst forláts ef það er rangt. Þegar þetta er skrifað er liðið á kvöld laugardaginn 16.

w-blogg1707

Lárétti ásinn sýnir ártöl - nútíminn er lengst til hægri, síðasta strikið endar í 2010. Lóðrétti ásinn sýnir hámarkshita júlímánaðar. Ég hef sett leitnina inn sem rauða línu - en bið lesendur um að taka ekki mark á henni - hún ræðst nær eingöngu af lágri stöðu fyrstu áranna - þegar engar stöðvar voru starfræktar inni í landi - þar sem júlíhámörkin mælast yfirleitt. Rauða línan er því eingöngu á myndinni til að minna lesendur á að ekki skuli endilega taka mark á reiknaðri leitni - gagnasafnið verður að vera (sæmilega) einsleitt.

Eftir að fyrstu árunum lýkur og hitavænni stöðvar fara að koma inn fór að verða líklegra að mælingar hafi komist nær um það hver hæsti hiti hvers mánaðar á landinu raunverulega var hverju sinni. En stöðvarnar voru samt fáar og næsta öruggt að hærri hiti hefur verið einhvers staðar - bara ekki mældur. Eftir að sjálfvirku stöðvarnar komu til um miðjan 10. áratug 20. aldar varð líklegra að mælir hitti á met. En útlit myndarinnar hefur samt ekki mikið breyst. Þó má sjá að metin liggja heldur ofar síðustu 25 árin eða svo heldur en þar næst á undan. Sjaldgæft hefur verið að hiti hafi ekki mælst meiri en 24 stig. Núlíðandi mánuður verður að fara að bæta sig.

Við sjáum greinilega á myndinni að 25-stiga mörkin virðast ekki svo mjög erfið. Miðað við allt tímabilið hefur hitinn náð þeim mörkum 63 sinnum af 127 - kannski ættum við ekki að telja fyrstu árin með í því mati. 

Tuttugu og sex stigin eru aðeins erfiðari, 40 sinnum hefur hiti þó náð því marki, 27 stigin hafa aðeins náðst í 20-júlímánuðum og eru því nokkuð feitur biti. Tuttugu og átta stigin eru helmingi sjaldséðari, með 10 júlímánuði og síðustu 60 árin hafa þau aðeins komið tvisvar í júlí, 1991 og 2008. Í bæði þau skipti fór hitinn yfir 29 stig, en hiti hefur mælst 29 stig eða meira fjórum sinnum. Auk tilvikanna áðurnefndu var það á Akureyri 1911 og á Hallormsstað 1946 - en þar með fara hungurdiskar að endurtaka sig. Við tökum eftir röðinni, 26 stig - 40 sinnum, 27 stig - 20 sinnum, 28 stig - 10 sinnum, 29 stig - 4 sinnum og 30 stig - einu sinni. Ekkert fjarri helmingun við hvert stig - kannski er það einhver regla? Ef við trúum þeirri reglu hefðu 30 stigin kannski átt að nást tvisvar - þar af 31 stig einu sinni?

Og enn bíðum við eftir meir en 30 stigum - og óformlega hef ég reiknað að við erum eiginlega að bíða eftir 34 stigum. Um það má lesa á bls. 9 og 10 í hinni sívinsælu greinargerð Hitabylgjur og hlýir dagarsem Veðurstofan gaf út 2003. Sá texti er þó vart fyrir aðra en veðurnördin einu og sönnu.

En fleira athyglisvert má sjá á myndinni. Takið t.d. eftir því að á árunum 1967 til 1974 náði hiti aldrei 25 stigum í júlí (júní og ágúst stóðu sig kannski betur). Sömuleiðis eru júlímánuðir áranna 1960, 1961 og 1962 undir 23 stigum, 1961 lægst með 20,6 stig í júlí. Ástandið var jafnaumt í júlí 1993 - var hann ekki mesti norðanáttarjúlí allra tíma? Núverandi júlí 2011 er þegar búinn að gera betur en það.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Fróðlegt væri að sjá töflu yfir sama tíma, þar sem aðeins væru gömlu mælinga staðirnir.

Ef til vill eru gömlu mælinga-staðirnir ekki samhangandi yfir tímabilið.

Þá mætti nota sambærilega staði.  jg

Jónas Gunnlaugsson (IP-tala skráð) 17.7.2011 kl. 08:00

2 identicon

Þakkir fyrir áhugaverðan pistil Trausti og ekki síður góðan tengil á sívinsælu greinargerðina þína. Samkvæmt henni kemur fram að:

'Hiti hefur aðeins 6 sinnum verið bókaður 30°C eða hærri á Íslandi. Þessi tilvik eru: a) Teigarhorn 24. september 1940 (36,0°C), b) Möðrudalur 26. júlí 1901 (32,8°C), c) Teigarhorn 22. júní 1939 (30,5°C), d) Kirkjubæjarklaustur 22. júní 1939  (30,2°C),  e) Hallormsstaður júlí  1946  (30,0°C)  og f)  Jaðar í Hrunamannahreppi  júlí 1991  (30,0°C) auk þess hefur hiti á sjálfvirkri veðurstöð einu sinni náð 30°C.' (bls. 7).

Ég fæ ekki betur séð en að þessar niðurstöður komi illa heim og saman við meinta 'hnatthlýnun', þar sem mælitölur lenda nær allar á fyrri hluta aldarinnar.

Í annan stað vil ég þakka fyrir staðfestingu á óáreiðanleika mælinga framan af öldinni. Ljóst er að skekkjumörk í hliðrænum mælingum eru veruleg og því ekki hægt að líta á hitamælingar Veðurstofunnar sem 'vísindi' fyrr en sjálfvirkar stöðvar komu til sögunnar.

Mikilvægasti punkturinn finnst mér þessi:'Ég hef sett leitnina inn sem rauða línu - en bið lesendur um að taka ekki mark á henni - hún ræðst nær eingöngu af lágri stöðu fyrstu áranna - þegar engar stöðvar voru starfræktar inni í landi - þar sem júlíhámörkin mælast yfirleitt. Rauða línan er því eingöngu á myndinni til að minna lesendur á að ekki skuli endilega taka mark á reiknaðri leitni - gagnasafnið verður að vera (sæmilega) einsleitt.'

Þetta á ekki bara við um Ísland heldur virðist þetta vera einkenni á hitamælingum um heim allan. Á þetta hefur ítrekað verið bent þegar fylgismenn kolefniskirkjunnar fara hamförum yfir meintri mælanlegri leitni í hnatthlýnunarátt.

Hilmar Þór Hafsteinsson (IP-tala skráð) 17.7.2011 kl. 09:29

3 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Vegna haldlítilla fullyrðinga Hilmars varðandi innihald og ályktanir þær sem hann telur að Trausti haldi á lofti, þá þætti mér fróðlegt að vita hvort að eitthvað þvílíkt og Hilmar ályktar um sé nærri því sem Trausti vildi koma á framfæri með þessum pistli. Ég tel að ályktanir Hilmars séu úr lausu lofti gripnar og tengjast hans persónulegu skonum á "fylgismönnum kolefniskirkjunnar" (hvað sem það nú er). Það væri fróðlegt að fá Trausta til að svara þessum ályktunum Hilmars...ef ekki væri nema til að fá það á hreint hvort að það megi túlka pistil Trausta á þann hátt sem Hilmar telur..?

Sveinn Atli Gunnarsson, 17.7.2011 kl. 11:13

4 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Greinargerðin Hitabylgjur og hlýir dagar kom út 2003 og síðan hafa margir mælar stigið í hæðir. Það þarf endilega að uppfæra þá greinagerð aveg til 2010.

Sigurður Þór Guðjónsson, 17.7.2011 kl. 11:22

5 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Ef Hilmar hefði lesið vandlega greinargerðina hefði hann séð að einungis tölurnar frá 1939 og 1946 og kannski þessi frá sjálfvirku stöðinni eru trúverðugar. Auk þess er alveg hægt að taka mark á hitamælingum Veðrustofunnar lengst af og alveg sérstakelga eftir að frístandandi skýli komi til sögu  mörgum áratugum fyrir sjálfvirkar mælingar.

Sigurður Þór Guðjónsson, 17.7.2011 kl. 12:39

6 identicon

Sigurður Þór Guðjónsson, 17.7.2011 kl. 12:39 og Svatli, 17.7.2011 kl. 11:13: Það er að vonum að vísindaleg nálgun á viðfangsefninu komi við kaunin á sanntrúuðum fylgismönnum kolefniskirkjunnar. En sannleikurinn er alltaf sagna bestur og hann hefur þá vísindalegu leitni að koma alltaf fram að lokum.

Ég fagna niðurstöðu Trausta og sýnist hún einmitt koma heim og saman við ábendingar virtra loftslagsvísindamanna: 'Ég hef sett leitnina inn sem rauða línu - en bið lesendur um að taka ekki mark á henni - hún ræðst nær eingöngu af lágri stöðu fyrstu áranna - þegar engar stöðvar voru starfræktar inni í landi - þar sem júlíhámörkin mælast yfirleitt. Rauða línan er því eingöngu á myndinni til að minna lesendur á að ekki skuli endilega taka mark á reiknaðri leitni - gagnasafnið verður að vera (sæmilega) einsleitt.'

Vísindi og trúarbrögð eiga sjaldnast samleið, en því verður þó seint neitað að kolefniskirkjan hefur grætt ótalda milljarða dollara á því að mistúlka vísindin.

Hilmar Þór Hafsteinsson (IP-tala skráð) 17.7.2011 kl. 12:54

7 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Það þarf ekki að túlka það vítt og breytt þótt leitnin sé ekki marktæk þarna. Leitnin er nefnilega mjög mikil eða um 3,5 gráður sem er miklu meira en hefur almennt hlýnað á Íslandi á tímabilinu.

3,5 gráður er líka miklu meira en jafnvel æstustu áhangendur kolefniskirkjunnar halda fram að hafi hlýnað um í heiminum frá 19. öld sem er eitthvað um 0,7 gráður eða rúmlega það.

Emil Hannes Valgeirsson, 17.7.2011 kl. 13:11

8 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Skil ekki þessa setningu Hilmars: ''Það er að vonum að vísindaleg nálgun á viðfangsefninu komi við kaunin á sanntrúuðum fylgismönnum kolefniskirkjunnar.'' Hver er hin vísindalega nálgun sem þarna er átt við og hverjir eru þessir sanntrúuðu fylgismenn kolefniskirkjunnar, sem væntalega hafa þá ekki vísindalega nálgun?

Sigurður Þór Guðjónsson, 17.7.2011 kl. 13:44

9 identicon

Sigurður Þór Guðjónsson, 17.7.2011 kl. 13:44: Eitt er að skilja ekki og annað að þykjast ekki skilja Sigurður. En gott og vel - hér kemur (vonandi) nógu auðskiljanleg skýring á ofanrituðu:

Vísindaleg nálgun í þessu tilfelli er nálgun Trausta, sem ég leyfi mér að þakka fyrir að koma skilmerkilega á framfæri: 'Ég hef sett leitnina inn sem rauða línu - en bið lesendur um að taka ekki mark á henni - hún ræðst nær eingöngu af lágri stöðu fyrstu áranna - þegar engar stöðvar voru starfræktar inni í landi - þar sem júlíhámörkin mælast yfirleitt. Rauða línan er því eingöngu á myndinni til að minna lesendur á að ekki skuli endilega taka mark á reiknaðri leitni - gagnasafnið verður að vera (sæmilega) einsleitt.'

Trausti bendir á hið augljósa: Ekki er hægt að henda reiður á hitamælingar framan af öldinni m.t.t. ákvörðunar um leitni. Ég leyfi mér að bæta við að þetta er ekkert séríslenskt fyrirbæri heldur alþekkt um allan heim innan fræðigreinarinnar. Hliðrænir hitamælar fortíðarinnar voru staðsettir hér og þar og allsstaðar, í ýmsum hæðum yfir yfirborði og oft voru utanaðkomandi þættir að hafa áhrif á mælingar. Það er ekki fyrr en með tilkomu stafrænna mælinga - og þá helst utan úr geimnum - sem hægt var að fara að taka þokkalegt mark á niðurstöðunum.

Og já, Emil Hannes fer nærri tölunni þegar hann nefnir að hin stórkostlega 'hnatthlýnun' af mannavöldum á 20. öldinni lætur nærri að súmmera sig upp í 0,7 gráðum. Nær mun þó að túlka þessar niðurstöður sem suð en marktækan mun.

Vil að endingu benda á að 'Norræna velferðarstjórnin' var að gleðja okkur landsmenn með kolefnisskatti á bensín og díselolíu frá og með síðustu áramótum. Hérna hafið þið vísindalegu rökin á bak við þá skattlagningu, þ.e. þau eru engin.

Hilmar Þór Hafsteinsson (IP-tala skráð) 17.7.2011 kl. 14:39

10 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Merkilegt hversu nálgun Hilmars á þessum málum er lituð pólitískum skoðunum hans, enda hefur hans nálgun ekkert með vísindi að gera - hverju sem hann sjálfur heldur fram.

Ég hvet hér með Trausta til að svara Hilmari, enda er það þarft verk, alger óþarfi að láta staðhæfingar, Hilmars, um meintar niðurstöður pistilsins standa ósvaraðar (enda fjallaði pistillinn ekki um hnattræna hlýnun eða þess háttar máli). En það er allavega mín skoðun að vísindamönnum beri að svara sumum (alls ekki öllum) af þessum innihaldslausu fullyrðingum sem fram koma, t.d. eins og í tilfelli Hilmars.

En allavega fróðlegur pistill, þó ekkert hafi hann með hnattræna hlýnun að gera eins og Hilmar virðist telja.

Sveinn Atli Gunnarsson, 17.7.2011 kl. 15:03

11 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Hvar er Höski?

Magnús Sigurðsson, 17.7.2011 kl. 15:48

12 identicon

Svatli, 17.7.2011 kl. 15:03: Það vill þannig til kunningi að þú veist ennþá minna um ætlaðar 'pólitískar skoðanir' mínar en þú veist um gagnsemi CO2 fyrir plöntur og dýralíf á jörðinni. Ef þú hefðir reynt að kynna þér álagningu kolefnisskattsins þá ættir þú að vita að fjórflokkurinn stendur allur að honum, enda fer heimska ekki í pólitískt manngreinarálit.

Hins vegar tek ég heilshugar undir með þér að fróðlegt væri nú að heyra í véfréttinni í Öskjuhlíð.

Hilmar Þór Hafsteinsson (IP-tala skráð) 17.7.2011 kl. 17:03

13 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Þessar 0,7 gráður eru meðaltal fyrir allan hnöttinn með loftinu yfir höfunum og öllu saman og eru alls ekkert suð þótt talan virðist ekki vera stórkostleg. Kannski hefur talan eitthvað að hækkað vegna þess hversu heitt hefur verið á jörðinni síðustu ár. Á 19. öld hér í Reykjavík var algengt að meðalhiti ársins væri um 3,5-4,0 gráður en síðustu 10 árin hefur meðalhitinn verið á bilinu 5,1-6,1 stig og það er heldur ekki neitt suð og mælingar alveg nógu marktækar.

Trausti mun örugglega tjá sig eitthvað um þetta, kannski um eða eftir miðnætti samkvæmt venju.

Emil Hannes Valgeirsson, 17.7.2011 kl. 17:46

14 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Pólitískar skoðanir breyta ekki vísindalegum niðurstöðum eða efni þessa pistils. Mér er svo sem nokk sama um bæði þínar pólitísku skoðanir og hugmyndafræði, en bendi bara á að þínar skoðanir á loftslagsvísindum (sem virðist vera það sem þú ert að ræða hér) eru litaðar pólitískum og hugmyndafræðilegum skoðunum þínum, en snúast ekki um vísindi...það er nokkuð ljóst af þínum málflutningi.

Hvað ég veit um einhver ákveðin málefni kemur þessu máli hins vegar ekkert við, ekki frekar en að þessi pistill fjallar ekki hið minnsta um hnattræna hlýnun eða ályktanir þar um. Annars má ætla að Trausti muni hugsanlega sleppa því að svara, enda erfitt að sjá hvað út úr því getur komið, en nú sjáum við... Mér finnst allavega sjálfsagt að fræðimenn, eins og t.d. Trausti, eigi að einhverju leiti að reyna að útskýra misskilning sem getur orðið hjá þeim sem lesa pistla eins og þennan.

Sveinn Atli Gunnarsson, 17.7.2011 kl. 17:53

15 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Síðasta athugasemd mín var ætluð Hilmari Þór Hafsteinssyni, ef einhver skyldi velkjast í vafa um það...

Sveinn Atli Gunnarsson, 17.7.2011 kl. 17:54

16 identicon

Svatli, 17.7.2011 kl. 17:54: Það er afskaplega óvísindaleg nálgun að ráðast á menn fyrir meintar 'pólitískar skoðanir' þegar málefnafátæktin er augljós. Minn áhugi á loftslagsvísindum er eingöngu vísindalegs eðlist og mótast af því - eins og vísindaleg nálgun á reyndar að gera - að efast um alla hluti og leita eftir mælanlegum staðreyndum, en hlaupa ekki eftir bullinu í pólitískum loddurum.

Mikið er annars hjartnæmt að sjá hvað þú ert opinn fyrir að gerast málpípa Trausta í þessu máli. Viltu bara ekki halda þig við að leyfa honum að svara fyrir sig í ró og næði?

Hilmar Þór Hafsteinsson (IP-tala skráð) 17.7.2011 kl. 18:44

17 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Hilmar:
Ef áhugi þinn er eingöngu vísindalegs eðlis, þá væri væntanlega fínt að vita hverjar vísindalegar nálganir þínar eru - hvaða rannsóknir, mælingar og vísindalegar staðreyndir eru hluti þeirrar hugmyndafræði? Ekki kem ég auga á þessa meintu vísindalega nálgun í þínum málflutningi. Ég bendi þó á hið augljósa, að þú ert að rugla saman skoðunum þínum (pólitískum og/eða hugmyndafræðilegum) inn í pistil Trausta, sem ekki fjallar um það sem þú telur vera.

Að vera efasemdarmaður er hlutverk þeirra sem vilja skoða hluti (t.d. vísindamanna), en það er þó ekki hluti vísindalegrar nálgunar að hundsa gögn þó þau sýni fram á annað en hugmyndafræðilegar skoðanir viðkomandi (t.d. þínar) bjóða upp á. En þú ert kannski til í að benda forvitnum á þínar vísindalegu nálganir, það væri fróðlegt að vita hvað það væri, hvað sem öðru líður - enda ekkert borið á þeirri nálgun í þínum málflutningi hingað til. En ef þú hefur áhuga á að skoða eitthvað varðandi vísindalega nálgun á loftslagsvísindum, þá langar mig að vísa í tvær færslur á loftslag.is, Mælingar staðfesta kenninguna og Fingrafar mannkynsins á hnattrænu hlýnunina - fróðleg lesning fyrir þá sem telja að vísindi séu trúarbrögð, samsæriskenningar og pólitískt plott...

PS. Ég bíð bara eftir að Trausti svari fyrir sig (ef hann hefur áhuga), ég hef enga skoðun á því hvað hann gæti hugsanlega sagt eða ekki sagt, en mér þykir þó ljóst í huga mér að þín túlkun á pistli hans er alröng- enda var það bara það sem ég vildi koma á framfæri, ásamt því að biðja Trausta um að leiðrétta þennan misskilning þinn. 

Sveinn Atli Gunnarsson, 17.7.2011 kl. 20:43

18 identicon

Svatli, 17.7.2011 kl. 20:43: Með fullri virðingu væni, ég er ekki að tala við þig á þessari síðu. Ég á erindi við Trausta, bæði að þakka honum fyrir góðan pistil og ræða við hann um athyglisverðar upplýsingar sem hann setur fram. Þú fyrirgefur, en það er hreinlega ekki hægt að rökræða við þig. Ég hef reynt það, svo og fleiri, en við höfum hreinlega gefist upp. Þú ert gjörsamlega týndur í Faðirvori kolvetniskirkjunnar og engin útgönguleið sjáanleg.

Eins og venjulega tranar þú þér fram með frekju og yfirgangi og reynir að kaffæra umræðuna. Ég bíða bara rólegur eftir sólarupprás og leyfi jarðfræðingunum að rannsaka þig.

Hilmar Þór Hafsteinsson (IP-tala skráð) 17.7.2011 kl. 21:39

19 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Hilmar:
Ég bendi einfaldlega á að þú hafir, að mínu mati, rangtúlkað efnistök Trausta. Þú verður að fyrirgefa, en mér finnst það nú bara þátttaka í opinni umræðu (leiðinlegt að þér þyki mín þátttaka frekja og yfirgangur). En ef rök byggjast m.a á að ég sé týndur í "faðirvori kolefniskirkjunnar" þá verður þú að eiga það við sjálfan þig - afskaplega ómálefnalegt að mínu mati.

Mér þykir umræða við þá sem sjá samsæriskenningar, pólitískt plott og falsanir út um allt í loftslagsvísindunum, afskaplega leiðinleg á köflum, en mér þykir þó nauðsyn til, öðru hverju, að benda á rökvillur þær sem mér finnst koma upp í umræðunni. En það er svo sem ekkert nýtt að þeir sem koma fram á völlinn með hverja rökleysuna á eftir annarri þoli ekki að þeim sé bent á það og bregðast því illa við þess konar áreiti... Jæja, hvað um það ekki ætla ég að banna þér að hafa einhverjar skoðanir, en þú verður að þola að þér sé bent á aðrar hliðar málsins eða augljósar rökvillur - annars geturðu nú bara hætt að taka þátt í svona opinni umræðu.

Sveinn Atli Gunnarsson, 17.7.2011 kl. 22:51

20 identicon

I rest my case! Blessaður einfeldningurinn og kolefniskirkjutrúboðinn skilur ekki að ég hef nákvæmlega engan áhuga á að hlusta á hans útlistanir á því hvort hann telur að ég hafi rangtúlkað efnistök Trausta eða ekki. Allir sæmilega gefnir einstaklingar skilja auðvitað að það er Trausta að svara því.

Blessað tröllið er búið að bíta alla umræðu um loftslagsmál af sér vegna þess að enginn nennir lengur að rökræða við hann. Nú er svo komið að hann spyr sjálfan sig í örvæntingu: 'Er loftslagsvandinn tabú? (!)

'Gulli' gerir heiðarlega tilraun til að svara honum:

Þessi mál eru orðin "tabú" vegna þess að það má ekki efast um þau - flestir eru hættir að nenna að reyna að ræða þau vegna þess að þetta eru eins og trúmál, ef þú ekki fylgir rétttrúnaðarbókinni þá er allt sem þú segir bull, vitleysa og borgað af olíufélögunum.

Á þann hátt eru "málin útrædd" og "engin vafi lengur" - enginn sem ekki er sammála fær að tjá sig án þess að fá yfir sig staðlaða skítkastið um olíufélögin.

Ég gæti ekki orðað þetta betur. Það er enginn 'loftslagsvandi' til staðar. Vandinn liggur í hættulegum bullukollum eins og Sveini Atla sem kaffæra eðlilega umræðu með heimsóttakenningum og hatursboðskap. Vísindin þurfa að losna við svona óværu.

Hilmar Þór Hafsteinsson (IP-tala skráð) 17.7.2011 kl. 23:46

21 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Sæll Trausti

Ég rakst áðan á umfjöllun um mikla hitabylgju Í New York í júlí 1911. Sjá hér

Ég sé á hitaferlinum þínum að júlí hefur einnig verið hlýr hér á landi þetta sama ár.

Ágúst H Bjarnason, 18.7.2011 kl. 00:04

22 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Hilmar:
Það er ekki nýtt að menn noti persónuleg skot eins og um "einfeldinga" og "kolefniskirkjutrúboð" til að snúa sig út úr rökþroti sínu, það hefur marg oft sést í umræðunni...ekkert nýtt þar. En jú, það væri fróðlegt að vita hvort að Trausti tekur undir orð þín og ályktanir (sem ekki virðast í takti við efni pistilsins).

En takk fyrir að koma fram með þitt rétta andlit og byrja að kalla mig "bullukoll" og öðrum ónefnum, bara af því að þú ert kominn í rökþrot Hilmar (reyndar hef ég ekki séð nein rök frá þér - önnur en útúrsnúningur út úr orðum Trausta) - mér finnst svona nálgun alltaf jafn merkileg...

Sveinn Atli Gunnarsson, 18.7.2011 kl. 00:52

23 Smámynd: Trausti Jónsson

Enn er farið að ræða um hugsanleg aukin gróðurhúsaáhrif af mannavöldum og kolefnisskatta í athugasemdum þótt ekkert hefði verið á slíkt minnst í pistlinum sjálfum. Ég hef bent á það nokkrum sinnum áður á hungurdiskum að reiknuð leitni segi ein og sér ekkert um framtíðina og að í flestum tilvikum kostar það ekkert að spyrja um eðli gagnanna sem að baki liggja. Sú leitni sem reiknast á myndinni sem hér er til umræðu er auðvitað út úr allri skynsemi - enda er gagnasafnið ekki einsleitt, auk þess sem miklu máli skiptir nákvæmlega hvar byrjun reikninganna er sett. Ef við byrjum 1960 virðist leitnin vera mikil, þrátt fyrir mun einsleitara gagnasafn. Reikningslegar forsendur þeirra leitnireikninga væru betri heldur en ef heildarsafnið er tekið - en útkoman vonandi (mjög vonandi) röng. Í þessu tilviki fer Emil nokkuð nærri lagi. Leitni sumarhita á Íslandi síðustu 180 ár er lítil, ekki nema um 0,2°C á öld. Svo lág leitni sæist varla á myndinni hér að ofan. Því má gera ráð fyrir því að á þessari mynd ráði þéttni athugana og gæði þeirra miklu meiru um hegðun reiknaðar leitni heldur en hugsanleg hnattræn hlýnun. Ég hef á undanförnum mánuðum sýnt fjöldann allan af myndum af þessu tagi, á sumum þeirra er leitnin meira að segja áberandi neikvæð, sömuleiðis vegna þess að breytingar á veðurathuganakerfinu hafa svo mikil áhrif. Helsta dæmið um þetta er pistill um lágmarkshita í desembersem birtist á hungurdiskum 5. desember s.l. 

Ágúst. Ég kannast við hitabylgjuna 1911 í Ameríku, óvenjulegir hitar voru þá líka í nokkra daga hér á landi og sömuleiðis í nágrannalöndum okkar bæði í júlí og ágúst. Ég minnist þessara hita í pisli fyrir tæpum tveimur vikum en láðist að geta Ameríku - ætlaði að gera það.

Trausti Jónsson, 18.7.2011 kl. 01:16

24 identicon

Trausti Jónsson, 18.7.2011 kl. 01:16: Þakkir fyrir þetta svar Trausti. Skýrara gat það ekki verið: 

1.  Reiknuð leitni segir ein og sér ekkert um framtíðina og að í flestum tilvikum kostar það ekkert að spyrja um eðli gagnanna sem að baki liggja.

2.  Leitni sumarhita á Íslandi síðustu 180 ár er lítil, ekki nema um 0,2°C á öld. (noise/suð).

3.  Því má gera ráð fyrir því að á þessari mynd ráði þéttni athugana og gæði þeirra miklu meiru um hegðun reiknaðar leitni heldur en hugsanleg hnattræn hlýnun.

Þessar upplýsingar ríma við rök þeirra loftslagsvísindamanna sem hafa leyft sér að gagnrýna kolefniskirkjutrúboðið:

1.  'Hokkíkylfulínuritið' fræga reyndist vera bull.

2.  Raunhækkun hitastigs á jörðinni síðustu 180 ár er hverfandi lítil, nánast noise/suð.

2.  Gæði og þéttni hliðrænu hitamælinganna í heiminum framan af öldinni ráða meiru um reiknaða leitni en meint 'hnatthlýnun'.

Hilmar Þór Hafsteinsson (IP-tala skráð) 18.7.2011 kl. 08:19

25 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Hilmar, alveg stórmerkilegt að þér tekst að snúa svona út úr orðum Trausta...

Sveinn Atli Gunnarsson, 18.7.2011 kl. 08:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg010125i
  • w-blogg010125
  • w-blogg271224a
  • w-blogg271224aa
  • w-blogg261224ia

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.1.): 1055
  • Sl. sólarhring: 1111
  • Sl. viku: 3445
  • Frá upphafi: 2426477

Annað

  • Innlit í dag: 942
  • Innlit sl. viku: 3098
  • Gestir í dag: 914
  • IP-tölur í dag: 847

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband