Rétt fyrir mánaðamót

Þegar þetta er skrifað (miðvikudagskvöldið 29. júní) er einn dagur eftir af mánuðinum. Uppgjör er því ekki alveg tímabært - ætti að koma frá Veðurstofunni á föstudag og trúlega munu aðrir bloggarar einnig fjalla um mánuðinn.

En lítum hér á fáeina mola. Að minnsta kosti eitt merkilegt met var sett í mánuðinum. Meðalhiti mánaðarins á Gagnheiði er í kringum -0,8 stig. Erfitt er að keppa við þessa stöð í lágum hita á þessum tíma árs, enda hirti hún lægsta meðalhita júnímánaðar nærri því strax og hún var stofnuð (1993). En samt hefur gamla metið (-0,15°C) staðið frá 1998 og hitinn í núlíðandi júnímánuði því marktækt lægri. Vonandi verður einhver bið á því að metið verði slegið aftur.

Mánaðarmeðalhitalágmarksmetið á mannaðri stöð var ekki í hættu. Svartárkot virðist ætla að verða kaldasta stöð í byggð núna í júní með 3,7 stig. Metið er úr Grímsey 1882, 1,7 stig. Yngra met er frá Skoruvík á Langanesi en þar var meðalhiti í júní 1952 2,5 stig. Þar skammt frá er nú stöðin Fontur en meðalhiti í júní í ár stefnir þar í 3,6 stig. Trúlega er ívið kaldara þar heldur en í Skoruvíkinni.

Gagnheiði setti nú einnig eitt dægurlágmarksmet fyrir landið þegar lágmarkshitinn þann 22. mældist -4,9 stig. Þetta er 1,5 stigi neðar heldur en fyrra met sem sett var í Sandbúðum á Sprengisandi þennan dag 1978.

Átján daga í mánuðinum var Gagnheiði með lægsta hita sólarhringsins, sex daga mældist lægsti hitinn á Þverfjalli vestra en stöðin þar er í 750 metra hæð yfir sjó, 200 metrum lægra en Gagnheiði.

Frost mældist einhvers staðar á landinu alla daga mánaðarins og í byggð voru frostnætur 15.

Óvenjulegt er líka að stöð á höfuðborgarsvæðinu skuli vera hlýjasta stöð mánaðar - ég hef að vísu ekki athugað hvenær það gerðist síðast. Af sjálfvirku stöðvunum er Reykjavíkurflugvöllur hlýjastur, en síðan koma Geldinganes, Korpa og Veðurstofutún rétt í kjölfarið.

Hiti komst ekki í 20 stig á landinu nema einn dag, þann 19., og þá aðeins á tveimur stöðvum sýnist mér, Þingvöllum (21,7 stig) og Þyrli í Hvalfirði. Þetta er óvenjuslakur árangur í júní, en var þó ámóta fyrir þremur árum, 2008 þegar hæsti hiti í mánuðinum mældist 20,5 stig í Vík í Mýrdal. Hiti komst í 10 stig einhvers staðar á landinu alla daga.

Þingvellir voru átta sinnum með hæsta hita dagsins það sem af er mánuðinum og reyndar einu sinni lægsta hita á landinu öllu.

Mikill fjöldi dægurmeta var sleginn á einstökum veðurstöðvum. Stafar það bæði af kulda en einnig að mjög margar stöðvar hafa aðeins athugað í örfá ár. Ekki er ástæða til að tíunda það hér. Þó má nefna að fáein dægurhámarksmet féllu. Það sem vekur mesta athygli er að Stórhöfði náði nýju hámarksdægurmeti þann 28. þegar hiti þar mældist 15,5 stig, 0,7 stigum hærra en gamla metið sem var frá 1951.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Pálmi Freyr Óskarsson

Hvað áttu við með hámarksdægurmet hér á Stórhöfða????

Er búinn setja höfuðið í bleyti, og finn ekkert útúr þessu hjá þér. Það sem ég fann er að 15,5°C er "11" hæsti júníhiti á Stórhöfða 1949-2011, Enn hæsti 19,3°C 1999.

Pálmi Freyr Óskarsson, 30.6.2011 kl. 05:34

2 Smámynd: Pálmi Freyr Óskarsson

Ertu kannski að meina hæsti meðaltalshámark í júní á Stórhöfða síðan 1924?

Þessi frétt finnst mér líta út frekar misskilin fyrir Stórhöfðann:

http://mbl.is/frettir/innlent/2011/06/30/frost_alla_daga_manadarins/

Pálmi Freyr Óskarsson, 30.6.2011 kl. 06:00

3 Smámynd: Trausti Jónsson

Stigin 15,5 eru hæsti hiti sem mælst hefur á Stórhöfða þann 28. júní að minnsta kosti frá 1949. Í „venjulegu“ ári má búast við 6 slíkum metum á Höfðanum á ári. Dægurmet eru hæsti eða lægsti hiti sem mælst hefur á stöð á ákveðnum degi almanaksársins. Ég skal senda þér töfluna fyrir Stórhöfða við tækifæri.

Trausti Jónsson, 30.6.2011 kl. 09:46

4 Smámynd: Pálmi Freyr Óskarsson

Já þú ert kominn svona langt að taka fyrir hvern dag fyrir sig til að finna met. Maður er vanari að láta árin og mánuðuna nægja hingað til.

Takk fyrir að ætla að senda mér töfluna, getur sent mér það á vistorhofdi@simnet.is.

Pálmi Freyr Óskarsson, 30.6.2011 kl. 15:38

5 identicon

Þakka þennan fróðleik, Trausti. Þegar svonalagað ber á góma verður manni oft hugsað til þess hve mikilvægt hljóti að vera að mælingar séu sambærilegar yfir lengri tíma svo þær séu marktækar til að ráða megi í þróun og sveiflur loftslags. Því miður skapast oft aðstæður sem leiða af sér að til dæmis staðsetning stöðva breytist, sem aftur leiðir af sér mismunandi mælinganiðurstöður. Ef maður tekur Stykkishólm sem dæmi, þá er manni ljóst, ekki síst þegar maður hefur fylgst með "Hungurdiskum" yfir lengri tíma, að samfelld saga mælinga er gríðarlega dýrmæt hvað þetta varðar. Vafalaust þarf margs að gæta í þessu efni, smávægilegur flutningur á mælaskýli getur þýtt breytingar á niðurstöðum mælinga, sem og þarf áreiðanlega að gæta vel að kvörðun mælitækja þá og þegar þarf að skipta um þau. Mig grunar að margur vísindamaðurinn á Veðurstofunni hafi lítt fagnað því þegar mönnuð athuganastöð var lögð niður á Hveravöllum, svo dæmi sé nefnt, þótt vissulega sé sjálfvirka stöðin að safna sínum upplýsingum. Svo er áreiðanlega með fleiri staði á landinu.

Þorkell Guðbrands (IP-tala skráð) 30.6.2011 kl. 17:01

6 Smámynd: Trausti Jónsson

Þorkell. Mannaðar athugunarstöðvar einfaldast mikið á næstu árum. Hitamælingar í hefðbundnum skýlum eiga ekki mörg ár eftir að því er virðist. Úrkomumælingar og snjóhuluathuganir gerðar einu sinni á dag lifa þó vonandi í 10 til 30 ár til viðbótar. Tækniþróun er mjög hröð og nú fæst varla nokkur maður til þess að binda sig við athuganir fyrir lélegt kaup.

Trausti Jónsson, 1.7.2011 kl. 01:27

7 identicon

Ég er ekki að draga þetta í efa, Trausti, síður en svo, það sem ég var að spá í var einfaldlega hvernig væri að bera saman yfir lengra tímabil mælingar, sem eru gerðar með mismunandi móti. Ég veit auðvitað ekkert um þetta, en gæti ímyndað mér að einhver breytileiki gæti verið innifalinn, m.a. vegna þess að sjálfvirki búnaðurinn er eðli málsins samkvæmt tæknilega flóknari en beinn aflestur af t.d. kvikasilfursmæli svo ég taki dæmi. En auðvitað er líka mannlegi þátturinn áhrifavaldur per se.

Þorkell Guðbrands (IP-tala skráð) 1.7.2011 kl. 20:32

8 Smámynd: Trausti Jónsson

Mælingar með mismunandi aðferðum eru bornar saman. Það er auðveldast þegar skipti milli mælingahátta eða mælitækja eru ekki snögg og ef stöðvar eru margar. Nú eru til ágætar samanburðarmælingar á nýjum sjálfvirkum stöðvum og eldri kvikasilfursmælaskýla. Sömuleiðis er gerður samanburður á báðum tegundum af mælum inni í sama skýli. En leiðréttingar eru oft álitamál og oftast betra að halda leiðréttingum í skefjum. Við samanburð gamalla og nýrra gagna þarf maður stundum að gefa sér einhverjar forsendur, séu forsendurnar skynsamlega valdar glatast lítið af upplýsingum - en ofleiðréttingar eru sérlega hættulegar. Um þetta hefur verið mikið ritað á alþjóðlegum vettvangi. Ritgerðir um leiðréttingar og samræmingar þykja flestum með afbrigðum leiðinlegar, t.d. er höfuðrit íslenskt um þetta málefni nánast ólesið. Þar rekur dansk-sænski veðurfræðingurinn Hovmöller vandamál við íslenskar mælingar og mæliaðferðir og hvernig eigi að höndla þau. Ritið er aðgengilegt á netinu á ensku.

Trausti Jónsson, 2.7.2011 kl. 02:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg200125c
  • w-blogg200125g
  • w-blogg200125f
  • w-blogg200125e
  • w-blogg200125d

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.1.): 29
  • Sl. sólarhring: 129
  • Sl. viku: 2476
  • Frá upphafi: 2434586

Annað

  • Innlit í dag: 26
  • Innlit sl. viku: 2200
  • Gestir í dag: 26
  • IP-tölur í dag: 25

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband