Nokkur júnímet (í flokknum sett á dag)

Í flokknum met sett á dageru ýmis útgildi veðurs sem hægt er að merkja með dagsetningu. Sum þessara júnímeta hafa komið við sögu hér á hungurdiskum áður, t.d. hitametin háu (30,5 stig, 22. júní 1939) og lágu (-10,5 í Nýjabæ 11. júní 1973).

Háþrýstimetið tengist hitabylgjunni miklu 1939, fádæma hlýtt loft var yfir landinu. En þann 21. mældist loftþrýstingur í Stykkishólmi 1040,3 hPa. Ég er að vinna að ítarlegri loftþrýstimetaskrá en hún er ekki lengra komin en svo að ég á eftir að raða gildum sem eru eldri en 1924 inn í töfluna. Næsthæsta gildi sem ég hef enn fundið er úr Reykjavík, 14. júní 1959, 1036,3 hPa. Þessi dagur er umkringdur öfgum á báða bóga, því einhvers verstu norðanveður sem við þekkjum gerði þann 12. og 17. þetta sama ár. Er sá 17. 1959 stundum tilfærður sem versti 17. júní allra tíma, alhvítt var þá um mestallt Norðurland. En illviðri þetta á reyndar í harðri samkeppni við fleiri afspyrnuslæm veður sem lagst hafa ýmist á þann 17.  eða dagana tvo næstu á eftir.

Lágþrýstimetið var sett á Stórhöfða í Vestmannaeyjum þ.11. 1983, 957,5 hPa. Minnisstætt norðaustanveður fylgdi þessari lægð. Mér sjálfum er það sérstaklega eftirminnilegt fyrir þær sakir að daginn áður birtist upp úr þurru tala undir 5100 metrum í hæð 500 hPa-flatarins yfir Narsassuaq á Grænlandi og 40 stiga frost. Háloftaathuganir þessa tíma voru svo gisnar að öflugir kuldapollar gátu hæglega leynst á milli þeirra. Tölvuspár vissu auðvitað ekkert af kuldapollinum heldur og líkön afskrifuðu mælinguna sem villu. Reikningarnir urðu síðan eftir því.

Þetta lágþrýstimet er langt undir því næstlægsta sem enn hefur komist í listann, 968,2 hPa frá Kirkjubæjarklaustri þann 16. árið 1961. Árið 1983 var merkilegt fyrir lágan loftþrýsting og lága stöðu efri þrýstiflata. Þá áttaði ég mig fyrst á því að veðurfar var orðið öðru vísi en ég hafði vanist fram að því. Sú viðhorfsbreyting mín er reyndar fyrst og fremst ævisögulegt vitni um þröngsýni frekar en eitthvað beinlínis veðurfræðilegt. Ámóta viðhorfsbreyting varð hjá mér veturinn 1966 til 1967 - en það er önnur saga.

Sólarhringsúrkomumet júnímánaðar er 167,1 mm og var sett á Gilsá í Breiðdal, 18. júní 2002. Þá gerði aldeilis óvenjulegt norðaustanillviðri. Stöðvaúrkomumet júnímánaðar voru slegin víða á Norðaustur- og Austurlandi og meira að segja í höfuðborginni stórskaddaðist trjágróður í illviðrinu. Þá mældist vindhraði í hviðu 55,8 m/s á Hraunsmúla í Staðarsveit, mesta hviða sem ég hef enn fundið í gögnum í júní.

Mesta snjódýpt sem getið er um í júní mældist þann 1. árið 1995 í Kálfsárkoti í Ólafsfirði, fyrningar snjóavetursins mikla.

Hitamunur er oft mikill í júní milli inn- og útsveita. Sá mesti sem ég hef komið auga á var kl. 18 þann 23. júní 1974 (í hitabylgjunni miklu). Þá var hiti á Hallormsstað 27,2 stig, en aðeins 6,8 stig á Kambanesi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Trausti! Alltaf gaman að heimsækja síðuna þína. Við höfum talað um það í nokkur ár við nágrannarnir sem erum fæddir flestir á árunum 1960-1970 hvenær vorið komi sem við getum talaðum um á elliheimilinu, hversu gott það var. Í vor, apríl og fram í fyrstu dagana í maí, var alveg ástæða til að ætla að vorið 2011 yrði þetta kærkomna umræðuvor framtíðar. Síðan fór allt til helv... og er þannig ennþá. Flestir munum við eftir vorinu og sumrinu 1979 þegar snjóaði í öllum mánuðum. Gamall nágranni minn, fæddur 1921, sagði við mig í gær að vorið 2011 væri eitt af þremur verstu vorum sem hann myndi eftir. 1949,1979 og 2011. 2011 líktist mjög vorinu 1949 þ.e mikil úrkoma hér á norðausturhorninu, rigning eða slydda. Þá misstu bændur talsvert af lömbum sem króknuðu þar sem ærnar voru ekki rúnar að vori eins og nú, heldur voru í reifinu og þraukuðu úti í leit af æti en lömbin króknuðu í staðinn. Nú eru ærnar rúnar og koma sér í skjól og lifa þá bæði lömb og ær en ærnar eiga það til að geldast hreinlega. Sauðagróður hér í Öxarfirði er komin nokkuð þokkalegur upp í ca 140 metra hæð. Þar fyrir ofan er mest svart enn og talsvert hvítt af snjó. Vonum að ástandið batni. Kv Gunnar

Gunnar Björnsson (IP-tala skráð) 18.6.2011 kl. 08:57

2 Smámynd: Trausti Jónsson

Þakka þér fyrir Gunnar. Það er vonandi að ástandið hjá ykkur batni. Hér suðvestanlands er það mun skárra.

Trausti Jónsson, 19.6.2011 kl. 01:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg231124-kosningaspa-ec b
  • w-blogg23124-kosningaspa-ec a
  • w-blogg211124a
  • w-blogg181124a
  • w-blogg151124c

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 348
  • Sl. sólarhring: 458
  • Sl. viku: 2646
  • Frá upphafi: 2414310

Annað

  • Innlit í dag: 325
  • Innlit sl. viku: 2440
  • Gestir í dag: 317
  • IP-tölur í dag: 311

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband