Heldur kalt fyrir flestra smekk

Nú er kalt aðstreymi lofts að ná hámarki í þessu kuldakasti - það á þó eftir að kólna aðeins meira. Lítum fyrst á kort sem sýnir vind og hita í 925 hPa-fletinum nú í kvöld (fimmtudaginn 19. maí 2011). Sá flötur er í um 600 metra hæð og sýnir veðurlag á fjöllum oft vel. Myndin er fengin af brunni Veðurstofunnar.

w-blogg200511a

Við sjáum vindhraða og vindstefnu sem venjubundnar vindörvar, hvert þverstrik táknar 10 hnúta vind (5 m/s), stuttu strikin 5 hnúta og veifurnar 50 hnúta (25 m/s). Jafnhitalínur eru dregnar með 2°C-bili og eru táknaðar með línum sem hér segir: Bláar strikalínur tákna frost, heildregna, græna, línan er frostmark, en þær rauðu heildregnu sýna hita yfir frostmarki.

Frostmarkslínan liggur nú um landið þvert, enda er nú snjór niður í miðjar hlíðar á Skarðsheiði héðan úr Reykjavík séð. Við sjáum línuna taka smávegis sveig meðfram suðausturströndinni. Landið stíflar framrás kalda loftsins að nokkru leyti. Kaldasta strikalínan (skammt undan NA-Grænlandi) er -12°C og þéttar línur eru á milli Íslands og Grænlands. Við sjáum að víðast hvar er horn á milli vindstefnu og legu línanna norður af landinu þannig að vindurinn ýtir línunum sunnar. Austur af landinu eru jafnhitalínuarnar nær því að vera samsíða vindinum.

Við sjáum hér vel það sem reynt var að skýra hér á hungurdiskum í gær, kalt loft að norðan fleygast í átt til Íslands og í þessu tilviki veldur hitamunurinn vindinum, [hér stafar þrýstibratti við jörð af hitabratta í kuldafleygnum].

Það kólnar aðeins í viðbót þar til aðstreymi af köldu lofti hættir. Það þýðir þó alls ekki að kalda loftið hverfi á braut, en vindur hægist og þá léttir til. Þá tekur varmaútgeislunin völdin og það kólnar enn meir, en aðeins yfir landinu. Spár gera ráð fyrir því að kaldast verði undir morgun á laugardaginn (21. maí). Síðan virðist vera ráð fyrir því gert að hlýrra loft að austan sæki að í bili, þá vex úrkoma norðaustanlands. Sé hiti þar yfir frostmarki þegar úrkoman hefst, kólnar niður í frostmark verði hún mikil.

Ekki er annað hægt að segja en að evrópureiknimiðstöðin hafi staðið sig afburða vel. Kuldapollurinn kom úr Karahafi og hefur síðan hreyfst í átt til okkar meira og minna eins og spáð var í upphafi vikunnar. Útlit er fyrir að ekki muni nema um 200 til 300 kílómetrum á braut hans hér fyrir vestan land á laugardaginn. Hann er, sem þessu munar, lengra frá landi en fyrst var spáð. Lítum á annað spákort. Það gildir á hádegi á föstudag (20. maí). Þetta er 500 hPa-kort sem lesendur hungurdiska ættu að vera farnir að kannast við. Jafnhæðarlínur (í dekametrum) eru heildregnar, en þykktin er táknuð með rauðum strikalínum.

w-blogg200511b

Kuldapollurinn er merktur með K-i á myndinni. Hann verður við Scoresbysund á morgun og hreyfist síðan til suðurs skammt fyrir vestan land. Innsta þykktarlínan er 5100 metrar, mun kaldara heldur en er í kerfinu suðaustur af landinu. Nú er hægt að tala um átök milli þeirra, í gær var þykktarmunur kerfanna lítill, en á morgun á hann að vera orðinn meir en 180 metrar (meir en 20 hPa).

Örin á myndinni tákna leið pollsins fram á sunnudagsmorgun. Þá verður hann kominn nokkuð suðvestur fyrir land. Ekkert hlýnar meðan hann er í nánd við okkur. Ef hann fer nær landi en hér er sýnt skapast möguleiki fyrir úrkomu á suðvesturlandi, þá sleppum við betur varðandi næturkulda en nú er spáð - en hvít korn gætu flogið fyrir glugga.

Við litum einnig á þriðju myndina en hún sýnir hæð 500 hPa-flatarins eins og henni er spáð á laugardaginn á stórum hluta norðurslóða.

w-blogg200511c

Ég skýrði út línurnar á kortinu í tveimur fyrri pistlum í vikunni. Bláar línur sýna hæð 500 hPa-flatarins, sú þykka, rauða er 5460 metra línan. K-ið merkir kuldapollinn sem hér hefur verið til umfjöllunar, L-in eru háloftalægðir. Hér lítum við sérstaklega á rauðu, þykku línuna, á vorin viljum við helst vera sunnan hennar. Flest svæði norðan við línuna (þó ekki alveg öll) eru kalsasöm á þessum árstíma.

Erfitt er að sjá hvernig rauða línan á að komast norðurfyrir okkur næstu daga eða viku. Ef hægt er að finna sökudólg fyrir ástandinu má benda á óvenjukröftuga hlýja fyrirstöðuhæð yfir N-íshafi norðan Alaska. Þar er allt í hæstu hæðum, flöturinn er yfir 5700 metrum og þykktin nærri 5500 metrar - fáum til gagns því hiti niður undir ísi þöktu hafinu fer ekkert mikið yfir 0°C - sama hve hlýtt er ofan við. Jú, hluti af Alaska og Yukon-svæðinu og nágrenni nýtur sín. Þar var hiti um 18 stig við ströndina þar sem landáttar gætti í dag.

Þessi hlýi hóll (algjör andstæða kuldapollanna) er svo fyrirferðarmikill að kalda loftið hrekst til suðurs á öllu svæðinu kringum N-Atlantshaf. Erfitt er fyrir heimskautaröstina að ná svo góðu taki á hlýja loftinu suður og vestur af okkur að það dugi til að grípa 5460-línuna og flytja hana til okkar. Ég hef merkt lægðardrag á kortið með rauðgulum lit sem sumar langtímaspár segja að eigi að taka höndum saman við lægðina yfir Ameríku og byggja upp hrygg sem nær til Íslands. Það versta er að hann á að brotna saman strax aftur rétt eins og fúin brú.

En við getum ekki enn tekið mark á spám sem ná langt fram í næstu viku. Ég hef enn orðið var við það að sumir telja hungurdiska vera að spá einhverju. Það er ekki rétt - hér er aðeins fjallað um spár. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hitti gamlan og vísan bónda í gær. Hann trúði mér fyrir því, að hann teldi að það myndi ekki hlýna fyrr en í fyrsta lagi um Jónsmessu og þó trúlega ekki fyrr en viku af júlí. Gekk svolítið á hann, svona eins og ég þorði, og spurði hann á hverju hann byggði þetta og eftir svolítið jaml benti hann mér á tunglkomuna í byrjun júní, en þá kviknaði tunglið í VNV. Þess utan sagði hann veðurbreytingar verða annað hvort í lok fyrsta kvartils eða upphaf síðasta kvartils hvers tungls. Skemmtilegar pælingar en auðvitað aðeins til skemmtunar!

Þorkell Guðbrandsson (IP-tala skráð) 20.5.2011 kl. 13:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 269
  • Sl. sólarhring: 311
  • Sl. viku: 1843
  • Frá upphafi: 2350470

Annað

  • Innlit í dag: 195
  • Innlit sl. viku: 1644
  • Gestir í dag: 185
  • IP-tölur í dag: 184

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband