Enn um kuldakast (dragsíðir kuldapollar)

Það skal upplýst strax í upphafi að ekkert nýtt hefur gerst frá því í gær. Spár halda sínu striki - kannski sjónarmun hlýrri. Ég ætla því að hjakka í því sama og undanfarna tvo daga - fjalla um þykktarkort og nota að venju spá um þykkt morgundagsins til þess. Ég reyni enn á þolinmæði lesenda með þungum texta - en örvæntið ekki.

w-blogg190511

Fastir lesendur hungurdiska ættu að kannast við kort af þessu tagi. Þeim óvissu bendi ég á síðustu málsgreinina hér að neðan. Undanfarna daga hafa nokkrir kuldapollar (lág þykkt) farið til austurs fyrir sunnan land. Þeir mynduðust yfir Kanadískum heimskautaslóðum. Þegar þeir ganga austur yfir hlýjan sjó vex þykktin eftir því sem loftið hlýnar.

Á kortinu sést einnig í jaðar annars kuldapolls við Norðaustur-Grænland. Um hann hefur verið fjallað á hungurdiskum undanfarna daga, enda hreyfist hann í átt til Íslands og verður fyrir vestan land á laugardag.

Lærdómur dagsins á að felast í tölunum tveimur á kortinu. Fyrir sunnan land er talan -5°C og -13°C sjást við Norðaustur-Grænland. Ef rýnt er í þykktarkortið (svörtu línurnar) má sjá að tölurnar báðar eru settar nærri 520 dekametra línum. Þykktartalan 520 er mjög örugg vísbending um meðalhita í neðri hluta veðrahvolfsins. Þó sýna tölurnar 8 stiga mun á hita í 850 hPa metra hæð á kortinu. Flöturinn er í um 1250 metrum þar sem talan er -5, en í um 1400 metrum þar sem talan er -13. Þarna munar um 150 metrum, það gæti skýrt um 1,5 stig af stigunum 8.

Þar sem meðalhitinn upp í 500 hPa er sá sami á báðum stöðum hlýtur að vera hlýrra í 5 km hæð yfir Norðaustur-Grænlandi heldur en fyrir sunnan Ísland. Og þannig er það. Hita í 500 hPa er spáð -38°C fyrir sunnan land (yfir -5 stigum), en aðeins -30°C yfir Norðaustur-Grænlandi. Upplýsingar þessar má einnig finna á brunni Veðurstofunnar ef vel er leitað.

Á sama stað má finna hæð 500 hPa-flatarins og við getum borið saman hitafall yfir þessum tveimur stöðum. Fjarlægðin milli 850 hPa og 500 hPa er svipuð yfir báðum stöðum, rúmir 3900 metrar. Ef við nú reiknum, sjáum við að hiti sunnan við land fellur um 33 stig á 3900 metrum, það er 0,8 stig á hverja 100 metra. Í fullkomlega blönduðu lofti fellur hiti um 1,0 stig á hverja hundrað metra. Ástandið er þarna ekkert fjarri slíku, loft sem er hitað lengi að neðan blandast vel.

Við Norðaustur-Grænland fellur hiti ekki nema um 17 stig á milli 850 og 500 hPa-flatanna eða 0,4 stig á hverja 100 metra - miklu minna en á hinum staðnum. Þar má ef vel er leitað finna öflug hitahvörf - einhvers staðar ofan við 1400 metra hæð. Til að sjá í hvaða hæð þau eru verður að rýna meira en verður ekki gert hér.

Þannig er það oftast með kuldapolla á upprunaslóðum - þeir stinga lágskreiðu, köldu lofti út frá sér þar sem tækifæri gefst*. Við sjáum ekki enn sjálfan kjarna kuldapollsins við Norðaustur-Grænland, hann enn er ekki kominn inn á kortið - en sést væntanlega á spákorti sem gildir á föstudag. Við lítum hugsanlega á það á morgun. Loftið beint undir honum er ekki mikið kaldara heldur en það sem þegar er komið inn á kortið, en mun kaldara er þar í 500 hPa hæð. Þar er því möguleiki á mikilli blöndun og miklu uppstreymi þegar sá kuldi kemur út yfir hlýjan sjó.

Kortið: 

Heildregnu, svörtu línurnar sýna þykktina (þ.e. fjarlægðina milli 500 hPa og 1000 hPa þrýstiflatanna) í dekametrum (1 dam = 10 metrar). Þykktin mælir meðalhita milli flatanna, hún er því meiri eftir því sem hlýrra er í laginu. Hærri flöturinn, 500 hPa, er yfirleitt í rúmlega 5 km hæð, nálgast 6 km þegar mest er, en sá lægri, 1000 hPa, er nálægt yfirborði jarðar. Litirnir á myndinni sýna hita í 850 hPa-fletinum en hann er í um 1300 metra hæð frá jörðu (mishátt þó frá degi til dags).


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ben.Ax. (Benedikt  Jóhannes Axelsson)

Sæll og þakka þér fyrir góð svör við spurningum mínum. Í tilefni af vondri spá og ófærð á fjallvegum vil ég geta þess að þegar ég bjó norðan heiða lagði ég það til að á Alþingi yrðu sett lög um að ekki skyldi snjóa á Holtavörðuheiði nema á þriðjudögum og fimmtudögum. Þessi ósk helgaðist af því að á þessum tíma voru fjallvegir mokaðir á ákveðnum dögum og var Holtavörðuheiðin mokuð þessa daga.

Ben.Ax. (Benedikt Jóhannes Axelsson), 19.5.2011 kl. 17:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg010125i
  • w-blogg010125
  • w-blogg271224a
  • w-blogg271224aa
  • w-blogg261224ia

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.1.): 1011
  • Sl. sólarhring: 1110
  • Sl. viku: 3401
  • Frá upphafi: 2426433

Annað

  • Innlit í dag: 900
  • Innlit sl. viku: 3056
  • Gestir í dag: 876
  • IP-tölur í dag: 810

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband