Kuldakastið - Evrópureiknimiðstöðin heldur sama striki og í gær

Ég ætti eiginlega að benda aðeins á pistilinn frá í gær - og segja mönnum að lesa hann aftur. En það er samt freistandi að rekja stöðuna áfram þótt þráðurinn fari að vera bæði langur og loðinn. Við kíkjum því á svipaða mynd og birtist í gær - einnig úr smiðju reiknimiðstöðvar evrópuveðurstofa. Tilbrigðið er þó það að í gær sýndi ég greiningu, en nú sjáum við 24-stunda spá. Vonandi átta menn sig á landaskipan og má greina Ísland skammt frá þar sem standa tölurnar 4 og 5. Höfin eru bláir fletir á myndinni.

Rétt er að endurtaka að bláu línurnar sýna hæð 500 hPa-flatarins í dekametrum, þykka rauða línan er 546 dam (= 5460 metrar) - við viljum helst vera sunnan við hana á þessum árstíma - en það er ekki í boði í bili. Ég hef sett bókstafinn L í stað tveggja háloftalægða (eða kuldapolla), þær hreyfast báðar austur - en verða samt á róli suður og austur af landinu næstu daga.

w-blogg180511a

Þriðja L-ið ætti að vera þar sem er tölustafurinn einn (1) - nærri Norður-Svalbarða. Þar er einnig kuldapollur og fjallaði ég um hann í pistlinum í gær. Tölurnar tákna staðsetningu hans (eins og reiknimiðstöðin spáir honum) nokkra daga fram í tímann. Talan 1 táknar því miðvikudag 18. maí, 2 standa fyrir fimmtudaginn, 3 fyrir föstudag og 4 fyrir laugardag.

Þetta er í rauninni ekkert sérstaklega merkilegur kuldapollur meðal annarra slíkra - aðeins óþægilegur. Við skulum því ekki vera að gera allt of mikið úr honum svona marga daga fyrirfram og því síður dreifa upphrópunarmerkjum. Sérstaklega á að hafa í huga að brautin sem merkt er á kortið er enn aðeins raunveruleg í þeim ofboðslega flókna tölvuleik sem reiknimiðstöðin spilar öllum stundum. En spáin gæti orðið rétt - ekki neita ég því.

Hér að neðan fylgir torfær textasamsetningur - þeir sem ekki vilja vaða elginn geta stokkið yfir mýrina og aftur í næstsíðustu málsgreinina án þess að missa af neinu.

Tekið skal fram að myndin er mikil einföldun. Vonandi að hún varpi samt einhverju ljósi á eitthvað. Kortagrunnurinn er gerður af Þórði Arasyni.

w-blogg180511b

Þetta er að nokkru endurtekning á mynd sem ég sýndi í fyrradag, sýnir brautir sem kalt loft fer um á leið til Íslands í maí. Háu tölurnar tákna þykkt. Vestræna loftið byrjar í 5040 metrum (mjög kalt) fer síðan yfir hlýtt haf á leið til Íslands og endar þar í 5240 metrum. Hefur því hlýnað um 20 dekametra (200 metra), það jafngildir um 10°C. Þegar loft hlýnar að neðan lyftist það og blandast lofti ofan við ef mögulegt er. Úr verður mjög djúpt lag af óstöðugu lofti.

Norræna loftið er ekki eins kalt í byrjun - við setjum það í 5160 metra, á leið sinni suður fer það yfir ís og mjög kaldan sjó og hlýnar lítið fyrr en rétt síðasta spölinn til Ísland, þó nóg til þess að koma þykktinni upp í 5240 metra - meðalhlýnun frá jörð upp í 5 km hæð er um 4°C (8 dam).

Hvað gerist svo þegar þessir tveir loftstraumar mætast? Ég get reyndar almennt ekki verið viss um það því raunveruleikinn er auðvitað ekki svona einfaldur - en ég bý til dæmið og hlýt því einhverju að ráða. Líklegast er að norðanloftið fleygist undir það sem komið er að vestan. Kalda norðanloftið er nefnilega grunnt. Vestanloftið nær vel blandað upp í 8 kílómetra hæð, sama loftið er þar við jörð og langleiðina upp í veðrahvörf.

Þykktin í þeirri sérstöku merkingu að vera fjarlægðin milli 500 og 1000 hPa-flatanna sýnir meðalhitann í laginu. Hitamælirinn er réttur í vestanloftinu, en í norðanloftinu er langkaldast neðst. Þar er því kaldara heldur en þykktarhitamælirinn segir. Þykktin getur verið hin sama þótt talsverður eða mikill munur sé á hitanum upp í gegnum lagið.

En hvað þýðir þetta fyrir veðrið næstu daga? Jú, norræni kuldapollurinn er talsvert stærri um sig að neðan heldur en 500 hPa-kortið sýnir. Kuldinn sem er á leið að norðan (séu spár réttar) kemur á undan sjálfum kuldapollinum. Fylgist með spám Veðurstofunnar varðandi það.

Á Vestfjörðum og undan Norðurlandi fer að hvessa og kólna degi áður en kuldapollurinn fer yfir. Það breytir litlu fyrir norðlendinga hvort þeir sitja í grunnum eða djúpum kulda - skítaveðrið er svipað. Jú, úrkoma er meiri í djúpum kulda heldur en grunnum.

Sunnlendingar eru í norðangjóstri í hvoru tilvikinu sem er, í grunna kuldanum skín þó sólin og yljar sunnan undir vegg. Þeir sem þar dvelja geta meira að segja gleymt kalsanum um stund. Djúpi kuldinn leyfir ekki jafnmikið sólskin. Rætist spár reiknimiðstöðvarinnar á að verða kaldast sunnanlands aðfaranótt laugardags (frost auðvitað). Komist kuldapollurinn í heilu lagi vestur fyrir land gæti meira að segja snjóað suðvestanlands á sunnudagsmorgni - en á þessu stigi málsins ætti ekki að minnast á það. - Munið að hungurdiskar spá engu - en fjalla samt um veðurspár.

Ég er hræddur um að ég sé ekki laus allra mála en verði að halda áfram einhvern næstu daga.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þakka þér fróðleik. Maður fylgist með hvað muni gerast, en vonar að þetta vorhert nái ekki hér inn í fjörðinn í sínum versta ham.

Gunnar Sæmundsson (IP-tala skráð) 18.5.2011 kl. 06:46

2 Smámynd: Trausti Jónsson

Vorhret eru leiðinleg - þótt þau séu væg.

Trausti Jónsson, 19.5.2011 kl. 00:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg160424b
  • w-blogg160424a
  • w-blogg120424c
  • w-blogg120424b
  • w-blogg120424a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 107
  • Sl. viku: 1491
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1298
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband