Vestrænn eða norrænn kuldi?

Það má víst einu gilda hvort það er kuldi af norrænum eða vestrænum uppruna sem plagar okkur. En á þeim bræðrum er samt bragðmunur. Við þurfum fyrst að ræða hvað átt er við þegar talað er um annars vegar blandað loft, en hins vegar lagskipt.

Þegar loft er lagskipt liggur hlýtt loft ofan á kaldara lofti, gjarnan eru hitahvörf á milli kalda loftsins og þess hlýrra ofan við. Þetta merkir þó ekki að efra loftið þurfi endilega að vera svo hlýtt. Þegar loft er blandað eru engin hitahvörf finnanleg í blandaða laginu, það er þá kallað óstöðugt. Einnig má segja að loftið sé vel hrært.

w-blogg160511a

Grunnurinn á kortinu er eftir Þórð Arason. Vestræni kuldinn fer leið sem merkt er 1. Í upphafi ferðar sinnar er þetta loft lagskipt, en blandast vel á leið sinni yfir hafið þegar það hlýnar að neðan og eyðir smám saman þeim hitahvörfum sem voru ofan við. Á endanum er hingað komið djúpt lag af köldu lofti. Þegar sagt er að loftlag sé djúpt er átt við að langt sé frá efra borði þess til jarðar, djúp er tjörnin sú. Á sama hátt er loftlag talið grunnt eða grunnstætt þegar stutt er frá hitahvörfunum ofan lagsins niður að jörð undir því.

Norræni kuldinn kemur suður með austurströnd Grænlands, leið 2 á kortinu. Hann er lengst af yfir ís á sínum heimaslóðum eða þá mjög köldum sjó. Það er aðeins síðasta spölinn til Íslands sem hann fær varma úr hlýjum sjó og byrjar að éta af hitahvörfunum ofan við. Berist þetta kalda loft alveg til Bretlandseyja er það orðið djúpt og Bretar upplifa svipað veðurlag og við gerum í vestankuldanum.

Sé norðankuldinn grunnur munar um hlýnunina sem verður á milli hafíss og Íslandsstranda, sömuleiðis munar um sólarvarma yfir Íslandi að deginum. Því fer fljótt versta bitið úr grunnum norðankulda. Sé kalda lagið grunnt - tekur ekki mjög mikinn tíma að hita það allt. Sé norðanáttin hvöss og aðstreymi kalda loftsins ákaft er verra við að eiga. Verst er þó ef norðankuldinn er djúpur (og hvass).  

Á kortið er einnig merkt leið 3 - yfir Grænland. Hún er erfið - og ólíkleg á þessum tíma árs. Ég fjalla síðar um slík tilvik ef hungurdiskar halda skriði sínu.

Þykktarspá morgundagsins (16. maí 2011) er tilefni þessara skrifa. Þar má sjá bæði djúpan vestrænan kulda, sem og grunnan norrænan - ágætt dæmi. Kortið er af brunni Veðurstofunnar.

w-blogg160511b

Kuldapollurinn sem yfir Íslandi verður er kominn að vestan - hefðbundna leið. Þykktin er hér táknuð með svörtum, heildregnum línum, tölur eru í dekametrum. Þykktin í miðju pollsins er aðeins 5200 metrar. Þetta er óþægilega lág tala fyrir maímánuð, en við sjáum að naprasti kuldinn nær ekki nema yfir tiltölulega lítið svæði og verður fljótt úr sögunni þegar pollurinn hreyfist áfram til austurs. Myndarlegar síðdegisskúrir verða oft til (tilviljanakennt) í stöðu sem þessari. En hungurdiskar iðka ekki veðurspár.

Ámóta kuldapollur rétt utan við myndina (þar sem stendur K2) á síðan að fara hratt til austurs (ásamt myndarlegri lægð) næstu 1 til 2 daga. Kjarna hans er þó ekki spáð yfir Ísland.

En lítum nú á litina á myndinni. Þeir sýna hitann í 850 hPa hæð (um 1300 metrar), kvarði lengst til hægri. Bláar örvar eru teiknaðar ofan í svæði þar sem hitinn er neðan við -8 stig. Þegar nánar er að gáð sjáum við að þetta svæði teygir sig frá Scoresbysundi, suður um í stefnu rétt vestan við Vestfirði þar sem það breiðir úr sér. Þetta loft er svo kalt að það getur í bili stungið sér undir vel blandaða vestanloftið í kuldapollinum. Sól og sjór þurfa þá fyrst að hita þetta lag áður en þau geta snúið sér að því að hita vestanloftið. En kalt verður að sögn Veðurstofunnar á Vestfjörðum á mánudag (16. maí). Hér sunnanlands er spáð sæmilegum yl í skjóli, sunnan undir vegg, að deginum næstu daga.

En þetta norræna loft er grunnt og austanátt næstu lægða lokar fljótt fyrir uppsprettu þess. Næsti alvörumöguleiki á norrænni útrás verður eftir nokkra daga - og vonandi þá ekki.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Nú þykir áhangendum The Trausti Jonsson Weather Club kominn tími á frekari útlistanir á eðlisfræði kuldabolanna margfrægu og hvernig þeir framlengja stöðugt líf sitt sem uppvakningar.

Þorkell Guðbrandsson (IP-tala skráð) 16.5.2011 kl. 15:27

2 Smámynd: Trausti Jónsson

Ég þakka áhugann Þorkell. Ég kem fróðleik um eðli kuldapollana vonandi að um síðir, en fyrst er að horfa á þá, venjast þeim og fá þá aðeins á tilfinninguna. En það er sama með lægðirnar - enginn friður er fyrir þeim, endalaus röð lægða árið út og inn - uppsprettan tæmist aldrei. Flestir kuldapollar klekjast út yfir meginlöndunum eða heimskautasvæðum, þeir eiga síðan stefnumót við hlýja hæðarhryggi sem sífellt koma úr suðri. Kuldapollar og hlýir hæðarhryggir búa í sameiningu til allgóðan hluta þeirra lægða sem við síðan tökum á móti. Hæðarhryggirnir geta orðið að hlýjum fyrirstöðuhæðum - eins og algengt var í fyrra. Þá mynduðust þær hver á fætur annarri í grennd við okkur. En eftir áramót hafa kuldapollarnir verið mun ágengari - og er það ástand reyndar algengara þegar til lengri tíma er litið.  

Trausti Jónsson, 16.5.2011 kl. 19:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg231124-kosningaspa-ec b
  • w-blogg23124-kosningaspa-ec a
  • w-blogg211124a
  • w-blogg181124a
  • w-blogg151124c

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 150
  • Sl. sólarhring: 183
  • Sl. viku: 2472
  • Frá upphafi: 2413906

Annað

  • Innlit í dag: 138
  • Innlit sl. viku: 2279
  • Gestir í dag: 131
  • IP-tölur í dag: 130

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband