Hvenær er sumarið?

Enn skal róið á árstíðamiðin - og ekki í síðasta sinn haldist hungurdiskar á lífi. Ég hef lengi velt vöngum yfir einhverju sem kalla má náttúruleg árstíðaskil - þegar eitthvað í veðurfari vendist snögglega. Áður hef ég minnst á höfuðdaginn, 29. ágúst, sem vendipunkt af þessu tagi, sú vending tengist loftþrýstingi. Auðvitað má þó ekki taka nákvæma dagsetningu of hátíðlega.

Sömuleiðis hef ég minnst á 1. apríl í þessu sambandi, þá verða þau tímamót að meðalhiti tekur á rás upp á við á móts við vorið.

Ég er sífellt að leita dagsetninga af svipuðu tagi og hef óformlega safnað nokkrum - en er ekki alveg tilbúinn með það verk. Hér ætla ég þó að rifja upp sígilda mynd af árstíðasveiflu hitans hér í Reykjavík á árabilinu 1971 til 2000 úr safni mínu.

w-blogg120511

Hér má sjá meðalhita allra daga 1971 til 2000 sem rauða línu og miðað við hægri kvarða myndarinnar (°C). Hún er dálítið óróleg og markast það af því að mjög kaldir dagar ná ekki að jafnast út þótt deilt sé með þrjátíu. Á myndinni er einnig blá lína sem sýnir sólarhæð á hádegi í Reykjavík, vinstri kvarði (í gráðum). Hún liggur lægst á vetrarsólstöðum, 22. desember og hæst á sumarsólstöðum 21. júní.

Athuga ber að merki mánaðanna er sett við þann 15. hvers þeirra.

Hér hef ég einnig merkt inn 15 gráðu sólarhæð með punktalínu. Þegar sólin er lægra á lofti en það má hún heita gagnslaus í að hita lárétta fleti. Heildregna bláa línan og punktalínan mætast seint í febrúar. En vorið byrjar varla fyrr en sólin hefur náð 30 gráðu hæð á hádegi. Sólin dettur niður fyrir 15 gráðurnar um miðjan október, en er fer undir 30 gráður fyrir miðjan september.

Eftirtektarvert er að við 30 gráðurnar á vorin er meðalhiti við frostmark, en á haustin er hitinn um 8 stig í þann mund að sólin dettur niður fyrir 30 gráðurnar. Njótum við þar góðs af vinnu sólarinnar allt vorið og sumarið. Um fimm vikur eru frá sólstöðum yfir í hitahámarkið sem á myndinni er 24. júlí.

Veturinn er á myndinni merktur með grænum flötum línum (örvum). Á myndinni byrjar hann 16. desember en endar í marslok.

Ég hef einnig sett græna línu við tímabilið frá 28. júní til og með 13. ágúst. Þetta er kjarninn úr sumrinu. Hitinn rís mjög ört fram að sólstöðum og á myndinni viku betur, þá gerist það að hitinn hættir að hækka jafnhratt og áður og stefnir í jafnvægi. Frá 1. til 28. júní hlýnar um 2 stig.

Hitahámarkið er eins og áður sagði 24. júlí, en síðan gerist mjög lítið frá 24. júlí til 13. ágúst. Mestallan þann tíma er sjórinn ennþá að hlýna og nær sjávarhiti hámarki á bilinu frá 5. til 15. ágúst. Síðan sígur ört á ógæfuhliðina og frá 13. ágúst til 1. september kólnar um 2,2 stig - ískyggilegt það.

Hásumarið er eini tími ársins hér við land þegar sjór er að meðaltali kaldari en loft. Þetta er einnig sá tími þegar sjávarþoka er algengust við Suður- og Vesturland. Í útsveitum nyrðra og við Austurland er tíminn sem sjór er kaldari en landið heldur lengri en annars staðar. Þetta með mismun sjávar- og lofthita gæti gefið tilefni til frekari vangaveltna.

En er tíminn frá 28. júní (svona nokkurn veginn) til 13. ágúst sérstök árstíð? Hvað skyldu slíkar árstíðir vera margar á Íslandi?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Man ekki hvort ég hef velt upp þeirri spurningu áður á þessum vettvangi þínum, Trausti, hvernig vísindamenn skilgreina hugtakið skammdegi? Skynjun alls almennings á þessu fyrirbrigði er sennilega jafn fjölbreytt og fólkið, þannig að ég er per se ekki að spyrja um huglægt mat, sem hlýtur alltaf að vera persónubundið. Ég hef í minni fávisku skilgreint skammdegi sem þann tíma, sem sólin fer ekki upp fyrir 6° yfir sjónbaug, sem hér er um það bil frá 20. nóvember til 25. janúar. Veit ekki hversu mikið vit er í því, er eiginlega viss um að það sé ekkert vit í því!

Þorkell Guðbrandsson (IP-tala skráð) 12.5.2011 kl. 19:29

2 identicon

 Þetta eru athyglisverðir punktar og grafið líkist sínuskúrfu með konvex á

jónsmessu og konkaf í sökkvabekk. En það er merkilegt að  höfuðdagurinn var einmitt mikill " veðurspárdagur" til forna  og þú nefnir hann líka þarna. En er

ekki líka  einhver " tilbreyting" nærri 11. nóvember.? 

Þegar ég var við loftrakamælingar í húsum í Reykjavík fyrir margt löngu , fékk

ég ýmsar upplýsingar á Veðurstofunni , ma. um loftraka og hita  (úti) og með þessum

tölum gat ég reiknað út hvort og hvenær væri hætta á rakaþéttingu í steyptum

veggjum með einangrun að innan. En það er annað mál . En ef ég man rétt , þá

skilgreindu þeir vorið : mars og apríl , sumarið : maí - ágúst , haustið : sept. og okt.

Veturinn var svo nóv-feb, eða 4 mánuðir og þá notaði ég í útreikninga. Mér finnst þetta ágæt skilgreining þó etv. óformleg sé.

En þetta er skemmtilegur pistill hjá þér Trausti og ekki of flókinn  fyrir meðalnörd

eins og mig.  Ein spurning svona í lokin. : Hvar er kuldapollurinn Stóriboli núna?

Er búið að slátra honum og gera úr honum hakk? Eða fór hann í ferðalag að

skoða sig betur um kringum norðurpólinn?

                                                               Óli Hilmar Briem

óli Hilmar Briem Jónsson (IP-tala skráð) 12.5.2011 kl. 22:06

3 Smámynd: Trausti Jónsson

Þorkell - mér er ekki kunnugt um einhlíta skilgreiningu skammdegis. Sigurður Þór gefur þessu gaum í gamalli bloggfærslu og stingur upp á 11. nóvember sem upphafs - ágæt skilgreining hjá honum. Mig minnir að Þórbergur Þórðarson hafi sömuleiðis haft ákveðna skoðun á því - sem ég man ekki. Annars er þín skilgreining ágæt - hún dugir hins vegar ekki á Bretlandseyjum - þar er líka skammdegi eins og menn verða fljótt varir við ef þeir heimsækja hina myrku borg Lundúnir í desember. En ég skal hafa spurninguna í huga ef ég rekst á eitthvað um málið.

Óli Hilmar. Ekki man ég eftir neinu 11. nóvember hvað þetta varðar - annað en það sem minnst var á hér að ofan. En vel má vera að eitthvað megi finna. Rakaþétting í og á veggjum er mjög athyglisvert mál sem erfitt hefur verið að koma fólki í skilning um - eins og þú hefur sjálfsagt reynt. Um skilgreiningar Veðurstofunnar á reikningsárstíðum hennar má lesa á orðskýringasíðu á vef hennar - undir nafni árstíðarinnar. Stóriboli er farlama orðinn á hringferð sinni um norðurskautið - en slettir samt frá sér kuldabylgjum - ef tilefni gefst til fjalla ég um það síðar.

Trausti Jónsson, 13.5.2011 kl. 01:33

4 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Ég tók mína skilgreinngu frá ÞÞ og hef tvisvar komið með hana á bloggi og nefndi ÞÞ í fyrra skiptið sem fyrirmynd. Viðmiðun hans var sú að skammdegið væri þegar sól væri á lofti minna en einn þriðja af þeim tíma sem hún gæti mest verið á lofti. Skilningur Þorkells er mjög nærri þessu. Spurði einu sinni Þorstein Sæmundsson stjörnufræðing um þetta en hann sagði að á þessu væri engin samþykkt skilgreining en fannst spurningin greinilega áhugaverð. 

Sigurður Þór Guðjónsson, 13.5.2011 kl. 12:03

5 identicon

Mér finnst vel mega túlka þetta sem svo að í staðinn fyrir þá venjulegu framsetningu fjögurra þriggja mánaða árstíða, þá séu á Íslandi í raun bara þrjár árstíðir, og hver þeirra spannar umþaðbil fjóra af gömlu mánuðunum: Vetur sem er þá ýlir, mörsugur, þorri og góa (ca 20. nóvember - 19. mars), vor sem nær yfir einmánuð, hörpu, skerplu og sólmánuð (ca 20. mars - 19. júlí) og haust sem spannar heyannir, tvímánuð, haustmánuð og gormánuð (ca 20. júlí - 19. nóvember). Það er varla hægt að halda fram að toppurinn á kúfnum rétti nóg úr sér til að geta kallast sín eigin árstíð.

Hjörvar Pétursson (IP-tala skráð) 18.5.2011 kl. 08:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg211124a
  • w-blogg181124a
  • w-blogg151124c
  • w-blogg151124b
  • w-blogg151124a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 6
  • Sl. sólarhring: 908
  • Sl. viku: 2328
  • Frá upphafi: 2413762

Annað

  • Innlit í dag: 6
  • Innlit sl. viku: 2147
  • Gestir í dag: 6
  • IP-tölur í dag: 6

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband