20.4.2011 | 00:09
Sundurtættar lægðir hraða sér hjá
Varla hefst undan að telja þau lægðakerfi sem sífellt berast að landinu þessa dagana. Þegar þetta er skrifað (að kvöldi þriðjudags 19. apríl) er lægð á hraðri leið til norðausturs skammt vestur af landinu og á morgun fer önnur svipaðaleið, en sameinast í leiðinni annarri sem fer yfir landið á sama tíma. Auðvelt er að teikna eitthvað sem kalla má skil í þessa súpu en hvers eðlis þau eru er ekki gott að segja - og segi ég ekkert um það. Á gervihnattamynd í kvöld má með góðum vilja sjá þessar lægðir og við lítum á hana.
Lægðin vestan við landið er merkt sem L1, bláa örin sýnir áætlaða hreyfistefnu. Leggjast þarf yfir myndina til að sjá eitthvað sem gæti verið lægðarmiðja og skil - en hvoru tveggja finnst ef vel er leitað. Þetta er eitt af þeim tilvikum sem væri skýrara í huga veðurfræðingsins ef hann sæi aðeins grunnkortið. Þar er allgóð lægðasveigja á þrýstilínum, loftvog fellur mjög heiðarlega og allt virðist í góðu lagi. Af greiningu grunnkortsins einu og sér gæti fræðingurinn farið að hafa áhyggjur, loftvogin fellur ansi mikið í kvöld. En - viðbótarupplýsingar nútímans sýna að í raun og veru er lítið um að vera varðandi þessa fyrstu lægð.
Lægð númer tvö hefði varla sést á grunnkortum fortíðarinnar. Hún sést hins vegar greinilega á myndinni sem allreglulegur sveipur (eða hálfsveipur) í kringum miðju. Tölvugreiningar sýna að lægðin nær furðuhátt upp í veðrahvolfið sem sérstök hringrás sem hreyfist hratt til norðausturs í átt að landinu. En hringrásin er svo smá um sig að hún nær ekki í frekara fóður - þar til á morgun.
Áður en við lítum betur á það verður að minna á að þessar smálægðir, sem og allar lægðir síðustu daga og gott ef ekki næstu vikuna eru aðeins smáhrukkur á jaðri kuldapollsins sem sífellt er á dagskrá hér á hungurdiskum. Lægðir 1 og 2 á myndinni eru mjög stuttar hrukkur (ná varla þúsund kílómetrum að umfangi), lægð 3 er hins vegar mun stærri - en smáhrukka samt.
Til morguns færist lægð tvö nær miðju kuldapollsins, en jafnframt lendir hún í stefnumóti við bylgju þá sem merkt er á myndina sem svartur hringur. Taki maður spár bókstaflega étur hringurinn L2 um miðjan dag á morgun og úr verður myndarleg lægð sem hreyfist hratt norður í haf og veldur hvassvirði á Svalbarða á fimmtudaginn. Stefnumótið veldur því að á morgun (miðvikudag) verða um tíma tvær lægðarmiðjur eða mikil flatneskja yfir landinu og vindur því lengst af hægur.
Á meðan nálgast lægð 3 (L3) okkur og veldur hvassviðri hér á landi á fimmtudagskvöld. Ég hef sett rauða ör í myndarlegan skýjagöndul hennar - hlýja færibandið. Það á nú eftir að veltast talsvert um á leiðinni. Fylgjast má vel með því á myndunum á vef Veðurstofunnar. Má vera að hungurdiskar láti það sig einhverju varða þegar nær dregur.
Það er ekki að sjá annað en að hingað komi nýjar lægðir á 1 til 3 daga fresti næstu vikuna, en færa okkur heldur hlýrra loft en það sem yfir er í dag og á morgun (miðvikudag). Hver stór bylgja sem til okkar berst úr suðri færir með sér væntingar um vorhlýindi, kannski að pakkinn komi með næstu áætlunarferð? Eða - þarf að bíða lengur. Nokkrar ferðir eru á áætlun næstu vikuna.
Flokkur: Vísindi og fræði | Facebook
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (2.1.): 957
- Sl. sólarhring: 1111
- Sl. viku: 3347
- Frá upphafi: 2426379
Annað
- Innlit í dag: 852
- Innlit sl. viku: 3008
- Gestir í dag: 832
- IP-tölur í dag: 766
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
Athugasemdir
Nú er blíðskaparveður í Evrópu og raun komið sumar þar. Reyndar er rúmlega mánuður síðan sumar kom í Evrópu, því hlýtt og sólarmikið hefur verið þar síðan í byrjun mars.
Á meðan er enn vetur hér og ekkert útlit fyrir að hann sé á undanhaldi, þvert á móti virðist vera að kuldapollar séu komnir til að vera, það er, núverandi veðrakerfi er orði varanlegt hér á landi, með s/v-lægum áttum, úrkomu, og svölu og sólarlitlu veðri.
Að mínu mati styður þetta við fullyrðingu um það að það hlýskeið sem ríkt hefur í um 15-20 ár sé á hröðu undanhaldi.
Á það hefur nefnilega verði bent af mörgum, að þetta hlýskeið hafi náð hápunkti árið 2003, en síðan hafi farið kólnandi víðast hvar, þó svo að einstaka ár hafi verið nokkuð hlý.
Það er því orðið nokkuð ljóst, að miðað við það veðrakerfi sem fest hefur sig í sessi, að sumarið í ár verið svalt, úrkomusamt og sólarlítið, amk. s/v-lands, því ekkert bendir til þess að kuldapollaveðrakerfið sé að líða undir lok, þvert á móti er það búið að koma sér vel fyrir.
Veðramunstrið verður því kunnuglegt hér næstu vikur og mánuði;
kuldastrengur leggur niður frá norðurpólnum suður um fyrir vestan Grænland alla leið niður að Labrador, breytir þar um átt og leitar í s/a yfir Atlantshafið og ber með sér svalt og úrkomusamt loft yfir Ísland.
Kristján F. Kristjánsson (IP-tala skráð) 20.4.2011 kl. 11:33
Afsakið að ég skipti mér af: En það er ekki hægt að segja að nokkur vetur hefi verið hér það sem af er apríl og hann virðist ekki ætla að koma næstu daga a.m.k. Og síðasti vetur var mjög hlýr á landinu. Á Íslandi a.m.k. er hlýskeiðið ekki á neinu undanhaldi þrátt fyrir rysjótta tíð, en ekki raunverulega kalda, í fáeinar vikur, aðallega þó á vestanverðu landi og reyndar einna lakast allra síðustu daga, en afbragðs tíð hefur verið víðast hvar annars staðar. Hvernig væri að REYNA að sjá málin í lágmarks samhengi og á tímaskala.
Sigurður Þór Guðjónsson, 20.4.2011 kl. 12:43
Sigurður: Það er betra að horfa bara út um gluggan - gleyma um stund hvernig almennilegur vetur er - og koma síðan með fullyrðingar um að það sé að kólna af því að einhver sagði það
Höskuldur Búi Jónsson, 20.4.2011 kl. 12:58
Kuldi hvað? Lítum á tölur aprílmánaðar til þessa:
stöð mán dagafj ath.fjöldi tm(°C) tm6190T vik(°C) úrk(mm) m6190ú úrkvik loftþr sólskinsst
Reykjavík 4 20 156 3.89 2.26 1.63 79.7 42.60 37.1 991.35 82.0
Stykkishólmur 4 20 156 3.35 1.07 2.28 64.1 40.40 23.7 989.70 #
Akureyri 4 20 156 4.73 0.92 3.81 12.5 22.20 -9.7 991.11 #
Dalatangi 4 20 156 5.23 1.05 4.18 53.2 55.00 -1.8 993.64 #
Kirkjub.klaustur 4 20 156 4.32 2.60 1.72 174.0 82.40 91.6 994.66 #
Stórhöfði 4 20 156 4.39 2.91 1.48 94.2 82.60 11.6 992.83 #
Hér sést t.d. að meðalhiti í Reykjavík það sem af er apríl er 3,9 stig, 1,6 stigum ofan meðallags. Á Akureyri er hitinn fram að þessu í apríl 4,7 stig, 3,8 stigum ofan meðallags og sennilega eru hlýjustu dagar mánaðarins eftir. Þar er mánuðurinn til þessa um það bil í 6. sæti hlýrra aprílmánaða allra tíma og á Dalatanga vantar ekki mikið upp á methitamánuðinn 1974. Úrkoma er langt yfir meðallagi á Suður- og Vesturlandi og loftþrýstingur langt undir, þrýstingurinn á enn möguleika á nýju lágþrýstimeðalmeti. Það sem helst er óvenjulegt í þessum mánuði eru umhleypingarnir - lægðafjöldinn og snerpa þeirra.
Trausti Jónsson, 20.4.2011 kl. 13:35
Tarna er margt fróðlegt að sjá. Spár um sumarið eru auðvitað bara spár, kannski bara góðlátlegt grín? En það sem kemur mér á óvart er hversu lítið þessi þráláta SV-átt hefur tætt úr hafísnum við Austur-Grænland. Þó er svo að sjá á síðustu ískortum dönsku veðurstofunnar, að eitthvað sé farið að slitna úr honum vestur af Vestfjörðum. Ég hef ekki samanburð á ískortum frá fyrri árum til að meta umfang hafíssins SA af Scoresbysundi, en Páll Bergþórsson, veðurfræðingur, spáði mikið í það hér á árum áður auk þess að skoða samhengi hitamælinga á Jan Mayen við ísmyndun og þróun hafísreks. Manni hefur sýnst undanfarin ár og áratugi, að vorbráðnun hafíss hér norður af landinu hafi mikil áhrif á veðurfar hér norðanlands a.m.k. Einhverntíma las ég (man ekki hvar) að ör bráðnun íssins leiddi til þess að saltmagn yfirborðssjávarins lækkaði ört og það þýddi lægra hitastig yfirborðssjávarins, því hann væri léttari en hlýrri og saltari sjór, sem kæmi úr austri og streymdi undir kalda sjóinn og blandaðist honum afar hægt. Þarna mætti leita hluta orsakarinnar fyrir Húnaflóaþokunni og þrálátum norðanáttum, en þegar landið hlýnaði þegar sól hækkaði á lofti, drægi það til sín kaldara og rakara loft utan af hafi. Gaman væri að vita hvað er til í þessu.
Þorkell Guðbrandsson (IP-tala skráð) 20.4.2011 kl. 21:20
Þorkell: Um eina ástæðu þess að suðvestanáttin hefur ekki tætt úr hafísnum má lesa í pistli næst á eftir þeim sem þú gerir að umræðuefni. Ég sé ekki betur en að allt sé laukrétt sem þú segir um hafísinn, bráðnun hans og stöðugleika yfirborðssjávarins sem á eftir fylgir. Það er líka rétt að upphitun landsins á sumrin hefur áhrif á dreifingu þokulofts á Norðurlandi, ég fjalla e.t.v. um það þegar tilefni gefst síðar í vor eða í sumar. Ástæður þeirra þrálátu norðanátta sem oft ríkja hér á landi frá 20. apríl til 10. júní [með hámarkstíðni 1. til 10. maí] eru þó margþættar og að sumu leyti hluti af stærri atburðarás.
Trausti Jónsson, 21.4.2011 kl. 01:22
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.