Dularfyllsta veðurfarssveiflan? (Hringrásarpistill 7)

Mörg fyrirbrigði veðurfarsins eru einkennileg eða jafnvel dularfull. Ég vona að mér fyrirgefist að skjóta hér inn smápistli um eitt hið dularfyllsta.

Það er óskýrt að miklu leyti hvers vegna sveiflutími ýmissa hringrása í lofthjúpnum er meiri en ár og fellur ekki að hinni hefðbundnu árstíðasveiflu sólarhæðar. Þegar rýnt er í veðurgögn rekast menn furðuoft á sveiflur sem ná yfir tvö ár frekar en eitt. Tveggja ára sveiflur eru ekki sérlega áberandi hér á landi en þó má sjá þær á sveimi t.d. í hitagögnum. Ef eitt árið er hlýtt virðast meiri líkur á því að þarnæsta ár verði það líka frekar heldur en árið næst á eftir hlýja árinu. Sama má segja með loftþrýstinginn. Stundum býr veðrið við þessa tvíæringshegðan reglulega í áratug eða meir, hún hverfur síðan en birtist gjarnan aftur og þá er sveiflutíminn ekki alveg sá sami og var. Hérlendis eru sveiflur af þessu tagi alltaf minni en árstíðasveiflan. Meðan ekki hafa fundist eðlisfræðilegar skýringar á þessu skulum við tala um þessa hegðun sem tilviljun eina.

Ég held að það séu meir en 130 ár síðan vangaveltur um tveggja ára sveiflu byrjuðu að koma fram í vísindatímaritum. Það óþægilega var þó að sveiflurnar virtust frekar vera 25 mánuðir heldur en 24. Þessar lágstemmdu umræður ollu því þó að þeim var gefið nafn. Á ensku quasi-biannual-oscillation(QBO). Ég reyni af veikum mætti að þýða þetta sem nærtvíæringssveiflur, geta menn sagt það? 

Lengi hefur verið vitað um einhverja óreglu í háloftavindum nærri miðbaug en við þéttar mælingar alþjóðajarðeðlisfræðiársins 1957 til 1958 birtist þar sveifla í öllu sínu veldi. Reyndist hún vera langreglulegasta QBO sem vitað er um og hefur nærri alveg stolið nafninu. Ef þið sjáið skammstöfunina QBO í texta er langoftast átt við þessa vindasveiflu sveiflu eingöngu.

Sveiflan fellst í því að á u.þ.b. 26 til 28 mánaða fresti skiptir um vindátt hátt í heiðhvolfinu yfir hitabeltinu, greinilegast yfir Kyrrahafi. Þetta gerist í 20 til 40 km hæð, langt ofan venjulegs veðurs. Ef við göngum inn í sveifluna þegar vindur er af vestri í 40 km hæð er hann af austri í 25 km. Síðan gerist það að vestanáttin étur sig smám saman niður í austanáttina og eftir 13-14 mánuði hafa áttirnar skipt um sæti. Þá er vestanátt í neðri lögum en austanátt ofar. Síðan étur austanáttin sig niður í vestanáttina þar til upphafsstöðu er náð efir 26-28 mánuði.

Til að skýra þetta hafa menn lagst í illskiljanlegar fræðilegar pælingar. Trúlega eru þær réttar því eitthvað sem líkist sveiflunni kemur fram í bestu veðurfarslíkönum. Samt gætir ákveðinnar óvissu um frumorsakir. Grunur um að sveiflan hljóti að tengjast Walkerhringnum á einhvern hátt, þar sem sveiflutíðni fyrirbrigðanna er svipuð.

Kemur þetta okkur eitthvað við? Ég veit það ekki en sumir þeir sem hafa að sögn betri sjón en aðrir telja að nærtvíæringssveifla hitabeltisheiðhvolfsins hafi áhrif hér á norðurslóðum. Meiri líkur séu á stórum fyrirstöðuhæðum þegar austanáttin ræður í neðri hluta heiðhvolfsins yfir hitabeltinu. Heyrst hefur að áhrif sveiflunnar á norðurslóðum séu ekki þau sömu við lágmark sólvirkni og við hámark hennar. Ég hef enga skoðun á því - enda á ég enn eftir að fá nærtvíæringssveifluna á tilfinninguna.

En dularfull er þessi sveifla sem ekki lætur að stjórn árstíðanna.   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

"Tvíæringsnándarsveiflur"  .... er það eitthvað skárra? (Ekki það að hitt sé svo slæmt)

Gunnar Th. Gunnarsson, 28.3.2011 kl. 02:40

2 Smámynd: Höskuldur Búi Jónsson

Miðað við ástandið sem skapaðist í Rússlandi og Pakistan í fyrra, þá ættu að vera einhverjar líkur á því að slíkt muni endurtaka sig á næsta ári samkvæmt þessu  - eða hvað?

Höskuldur Búi Jónsson, 29.3.2011 kl. 08:44

3 Smámynd: Trausti Jónsson

Höskuldur. Ég veit ekki hvert ástand nærtvíæringssveiflunnar er um þessar mundir og veit því ekki heldur hvort reynt hefur verið að tengja hana við ástandið í Rússlandi eða Pakistan á síðasta ári.

Trausti Jónsson, 30.3.2011 kl. 00:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg200125c
  • w-blogg200125g
  • w-blogg200125f
  • w-blogg200125e
  • w-blogg200125d

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.1.): 29
  • Sl. sólarhring: 129
  • Sl. viku: 2476
  • Frá upphafi: 2434586

Annað

  • Innlit í dag: 26
  • Innlit sl. viku: 2200
  • Gestir í dag: 26
  • IP-tölur í dag: 25

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband