Hlýtt loft yfir landinu - aðeins fyrir útvalda?

Eftir aðsókn fjölmargra vestrænna heimskautakuldapolla að undanförnu er nú meinlítið millibilsástand. Hlýtt loft hefur náð völdum í háloftunum yfir okkur en óljóst hvað tekur við. Vindur er svo hægur að hlýja loftið nær illa til jarðar - það flýtur á því kalda sem enn liggur yfir landinu.

Þetta hlýja loft var aðeins fyrir útvalda í dag, en kannski það nái að skjóta sér víðar niður um helgina. Á miðnætti (aðfaranótt 26. mars) var ekki nema 5 stiga frost í 3 km hæð yfir Keflavík, en á sama tíma var hiti undir frostmarki víðast hvar á landinu. Frostið var meira en 5 stig inni í sveitum á Norðurlandi, t.d. við Krossanesbrautina á Akureyri.

Kort dagsins sýnir þykktina milli 500 og 1000 hPa flatanna eins og HIRLAM-líkanið spáir henni kl. 6 að morgni laugardags (26. mars).

w-blogg-260311

Hér má sjá Ísland nærri miðju myndarinnar og Grænland á sínum stað. Heildregnu línurnar eru jafnþykktarlínur en hún segir frá meðalhita í neðri hluta veðrahvolfs. Tölurnar eru dekametrar (eins og sérviska veðurfræðinga segir til um). Lituðu fletirnir sýna hita í 850 hPa en sá flötur er ekki fjarri 1400 metra hæð yfir sjávarmáli.

Við sjáum vel þykktarbrekkuna til norðausturs í átt að kuldapollinum mikla sem angraði okkur um síðustu helgi og fyrstu daga vikunnar. Hann plagar nú N-Noreg, Finnland og fleiri með miklum illviðragarði og hörkufrosti. Mikil hlýindi eru í skjóli Grænlands. Niðurstreymi austan jökulsins á sinn þátt í hlýindunum. Þetta hlýja loft leggst hins vegar eins og teppi yfir kalda loftið sem liggur í neðri lögum.

Tvær minniháttar lægðabylgjur fara til suðausturs fyrir norðan og norðaustan land um helgina. Á meðan bylgjurnar fara hjá herðir vind yfir landinu og þá er von um að eitthvað af hlýja loftinu blandist niður í það kalda þannig að e.t.v sjást yfir 10 stig hjá þeim útvöldu. Þykktin er reyndar svo mikil að nái bylgjur að hreinsa kalda loftið að einhverju leyti á brott - en ekki aðeins blandast í það - eru 15 stig eða meira ekki útlokuð.

Eftir helgina á lægðakerfi að nálgast hægt úr suðvestri - ekki eru fréttir af mjög hlýju lofti með því - en alltént verður loftið betur blandað.

Jafnþykktarlínan 546 (=5460 metrar) sem við sjáum mynda lítinn hring á myndinni minnir á sumarið. Við skulum vona að við sjáum hana oft í námunda við landið í vor - hún er einskonar vorboði. Annars megum við vel við una undir þykktartölum á bilinu 534 til 540 á vorin, oft eru þær talsvert lægri á þeim tíma árs.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ben.Ax. (Benedikt  Jóhannes Axelsson)

Takk.

Ben.Ax. (Benedikt Jóhannes Axelsson), 26.3.2011 kl. 12:51

2 Smámynd: Sigurður Haraldsson

Flott færsla takk fyrir.

Sigurður Haraldsson, 26.3.2011 kl. 14:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg200125c
  • w-blogg200125g
  • w-blogg200125f
  • w-blogg200125e
  • w-blogg200125d

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.1.): 29
  • Sl. sólarhring: 131
  • Sl. viku: 2476
  • Frá upphafi: 2434586

Annað

  • Innlit í dag: 26
  • Innlit sl. viku: 2200
  • Gestir í dag: 26
  • IP-tölur í dag: 25

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband