Kuldapollurinn kominn hjá - kalt næstu daga

Þá er kuldapollurinn sem hér hefur verið fjallað um undanfarna daga kominn framhjá Íslandi. Hann náði að skila talsverðum snjó víða um landið suðvestanvert og snjókomu er ekki lokið um landið norðanvert. Trúlega verður talsvert eða mikið frost næstu daga, sérstaklega inn til landsins (þetta síðasta þarf varla að taka fram). Ég held að hungurdiskabloggið fylgi honum ekki mikið lengur en lítum samt á stöðuna nærri veðrahvörfum á morgun. Kortið er af  brunni Veðurstofunnar.

w-blogg-090311

Þetta er spá um hæð og vind í 300 hPa-fletinum snemma fyrramálið (kl. 6 miðvikudaginn 9. mars 2011). Svörtu línurnar eru jafnhæðarlínur flatarins í dekametrum (dam) með 4 dam bilum eða 40 metrum. Lægstu tölurnar eru í námunda við kuldapollinn okkar, um 8200 metrar - merkt K á myndinni. Hæstur er flöturinn vestur af Asóreyjum í tæplega 9400 metra hæð, rautt H á myndinni. Mikil brekka er á milli og þar rennur heimskautaröstin allt frá vinstri brún myndarinnar (suður af Hudsonflóa) og allt til Norður-Noregs. Litskyggðu svæðin sýna skotvinda rastarinnar, ystu mörk þeirra eru við 80 hnúta vind, um 40 m/s. Sjá annars kvarðann hægra megin á myndinni.

Ég hef merkt þrjú lægðardrög með þykkum strikalínum (við tölurnar 1, 3 og 4 á myndinni) og einn hæðarhrygg (rauðstrik og talan 2). Sömuleiðis má sjá pínulítið L skammt vestan hæðarhryggjarins. Þar er lægð við yfirborð.

Þegar ég leit fyrst á myndina hélt ég að lægðardrögin við 3 og 4 væru sama dragið, 3 aðeins framhald á 4. Þegar ég hins vegar leit á spár lengra fram í tímann sá ég að drögin eru tvö og það sem merkt er númer 3 hreyfist hraðar en hitt. Það straujar yfir hæðarhygginn sem bælist þegar það nálgast. Í kerfinu eins og það stendur á myndinni á yfirborðslægðin „L“ mjög litla möguleika á vexti, hún er svo nærri hæðarhryggnum. Hún rennir til austurs nærri 59. breiddarstigi. og dýpkar lítið í fyrstu.  

Þegar lægðardragið (3) verður búið að bæla hrygginn alveg hleypur hins vegar vöxtur í lægðina. Hirlam-spálíkanið gerir ráð fyrir um 25 m/s af vestri á Suðureyjum og Norður-Skotlandi aðfaranótt fimmtudags. Síðan er spurning hversu hvasst verður í Danmörku og Suður-Svíþjóð. Danska veðurstofan sýnist mér ekki gera ráð fyrir skaðavindi - líklega hafa þeir rétt fyrir sér.

En hvað með okkur hér? Við sitjum eftir í kuldanum í nokkra daga. Svo virðist sem éljaloftið hafi að mestu verið hreinsað frá á Suðvesturlandi, smáéljabakki er þó eftir sem ég veit ekki hvað gerir. Á kortinu að ofan er vestnorðvestanátt við veðrahvörfin - vindur ekki mjög truflaður af Grænlandi 5 kílómetrum neðar. En í neðstu lögum, neðan við 5 km. hefur Grænland mikil áhrif og truflar strauminn. Loft er enn óstöðugt yfir Grænlandshafi, samspil þess við Grænland er flókið og satt best að segja ráða spár ekki alltaf við smálægðir og éljagarða sem myndast við þessi skilyrði. En ég þreyti lesendur ekki á frekari vangaveltum að sinni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Alltaf skilur maður oggulítið meira eftir að hafa lesið hvern pistil. Ekki ónýtt að hafa kennara af þessum "kaliber" ef svo mætti segja.

Þorkell Guðbrands (IP-tala skráð) 9.3.2011 kl. 21:34

2 Smámynd: Trausti Jónsson

Ekki veit ég um kalíber þessa kennara, en endurtekning á endurtekningu ofan getur um síðir bætt skilninginn. Þannig hef ég oftast lært eitthvað - alla vega man ég annað ekki.

Trausti Jónsson, 10.3.2011 kl. 01:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • w-blogg300325a
  • w-2008-hitabylgja-rvk-linurit
  • Slide13
  • w-2008-hitabylgja-rvk-linurit
  • tx rvk 300708 arason i08m afrit

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (1.4.): 56
  • Sl. sólarhring: 108
  • Sl. viku: 1637
  • Frá upphafi: 2457297

Annað

  • Innlit í dag: 50
  • Innlit sl. viku: 1484
  • Gestir í dag: 45
  • IP-tölur í dag: 44

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband