Lítum aftur til austurs

Ein af þeim vefsíðum sem ég skoða oft ber yfirskriftina „Short-term climate outlooks“ eða veðurfar - skammtímaútlit. Þar eru kort sem sýna hvaða hita er spáð á ýmsum svæðum jarðar næstu tvær vikurnar. Hitakortin segja reyndar ekki svo mikið nema að lesandinn hafi meðaltölin á hreinu. Þeir lesendur eru víst fáir. Eitt kortanna fyrir hvert landsvæði sýnir þó væntanleg vik frá meðaltali eins og það reiknast í bandaríska spálíkaninu gsf næstu sjö daga. Að sögn er viðmiðið meðaltal síðustu 100 ára úr safni CRU við háskólann í East Anglia í Englandi.

Mín reynsla er að vísu sú að líkanið sé langoftast að spá hita undir meðallagi hér á landi jafnvel í fyrra, árið 2010, sem var eitt hið hlýjasta sem um getur á okkar slóðum. En fróðlegt er samt oft á tíðum að skoða myndirnar. Þannig er t.d. um þessar mundir - kortið hér að neðan var reiknað í dag (16. febrúar).

w-cola-vik16-230211

Myndin er fengin af undirsíðu þeirrar sem vitnað var í hér að ofan. Kvarðinn er undir myndinni. Við sjáum að hér á landi er hita spáð nærri meðallagi en á stóru svæði er hita spáð meir en 10 stigum undir meðallaginu. Það er ansi mikið og nær kuldinn vestur í Skandinavíu, Danmörk og Þýskaland eru á jaðrinum.

Kuldapollurinn sem ég minntist á í pistli fyrir nokkrum dögum hefur heldur styrkst og þykktin í honum miðjum (skammt vestur af Úralfjöllum) um 4960 metrar og þykktin yfir Austur-Finnlandi er litlu meiri. Talan 4960 er ekki svo óskaplega lág miðað við stað og árstíma, en sjálfsagt eru öflug hitahvörf í neðstu lögum þannig að kaldara er heldur en af þykktinni einni má ráða.

Kuldapollar styrkjast yfir meginlöndum yfir háveturinn fái þeir frið til að liggja um kyrrt, svipað er að segja um fyrirstöðuhæðir á sumrin, þær styrkjast þá yfir meginlöndunum fái þær frið til að koma sér fyrir. Þannig var það í Rússlandi síðastliðið sumar.

Í annarri viku héðan í frá gerir sama spálíkan ráð fyrir því að kalda loftið hörfi heldur til austurs þannig að heldur hlýni í Skandinavíu. En vesturevrópubúar verða enn um sinn að horfa órólegum augum til kuldans í austri sem enn bíður færis.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg181124a
  • w-blogg151124c
  • w-blogg151124b
  • w-blogg151124a
  • w-blogg141124ii

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 51
  • Sl. sólarhring: 146
  • Sl. viku: 1972
  • Frá upphafi: 2412636

Annað

  • Innlit í dag: 51
  • Innlit sl. viku: 1725
  • Gestir í dag: 50
  • IP-tölur í dag: 49

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband