Illviðrin: Lægðin búin að kippa útlitinu í lag

Nú er haldið áfram pistlinum frá í gær þar sem ég kynnti til sögunnar bylgjur á jaðri Stóra-Bola II. Þær nefndi ég einfaldlega B0 til B4. B0 (illviðrið í fyrrinótt) er úr sögunni. B2 náði í skottið á B1 og hefur kerfið nú fengið afar hraustlegt útlit eftir tætinginn meðan bylgjurnar tókust á.

w-goes13-env_kanada_100211

Myndin er með sama sjónarhorn og ég kynnti í gær og er eins og sú mynd fengin af vef Kanadísku veðurstofunnar (Environment Canada). Við sjáum svæðið allt frá Íslandi suður til Kanaríeyja og vestur til norðausturríkja BNA.

Lægð dagsins (B2) er afar stór um sig, óvenju stór miðað við að hún var enn að dýpka þegar myndin var tekin. Ísland er komið inn í mitt skýjakerfið á undan lægðinni. Verst mun veðrið sennilega vera á undan kuldaskilunum sem eru á myndinni nærri 60 gráðum norðlægrar breiddar. Sömuleiðis er jafnvel enn verra veður sunnan lægðarmiðjunnar, en það illviðrasvæði nær ekki til landsins.

Bylgjan B3 er að taka á sig form, lægðarmiðja hennar er suður af Nýfundalandi á leið austnorðaustur. Við skulum líta nánar á hana - í uppeldisskyni.

w-goes13-env-canada100211hluti

Þetta er hluti af efri myndinni og sýnir bylgjuna B3. Í gegnum hana liggur skotvindur, hluti heimskautarastarinnar, gulmerktur. Norðvesturjaðar háskýjabakkans er mjög skarpur. Ég hef einnig sett á myndina svartar örvar sem sýna bogamynduð form suður úr meginbakkanum.

Sömuleiðis hef ég merkt sérstaklega blikuhaus þann sem einkennir hratt dýpkandi lægðir og á myndum liggur hann oft eins og lauslega tengdur þar ofan við meginskýjabakkann þar sem hæðarbeygjan er einna mest í röstinni. Sömuleiðis hef ég merkt inn fyrirbrigði sem kallað er þurra rifan (e. dry slot). Ég er reyndar ekki sérlega ánægður með íslenska heitið - en á íslensku skal það samt vera.

En hvaða fyrirbrigði eru það sem ég er að merkja? Hvaða bogar eru þetta? Haus og þurr rifa?  En fyrst er að nefna hugtökin - síðan má reyna við skýringar. Það kemur að þeim síðar ef mér endist bloggþrekið. Hvar eru svo kulda-, hita- og samskilin? Jú, jú, skilin eru þarna einhvers staðar undir, kyrfilega merkt á kortum bresku veðurstofunnar og víðar.

Núna í kvöld (fimmtudag) taldi hirlam-spálíkanið að lægðin (B3) væri um 995 hPa í lægðarmiðju. Klukkan 21 á morgun (föstudag) segir sama líkan að dýptin verði þá orðið 945 hPa, 50 hPa dýpkun á einum sólarhring. Þetta er með því allra mesta sem sést. Ameríkumenn (í stríðshugarheimi sínum) kalla lægðir sem þessar sprengur (bomb), freistandi er að kalla þær sprengjulægðir, en mér þætti orðið hraplægð eða eitthvað ámóta betra, orðið heljarlægð væri full mikið af því góða. En trúlega vinnur enskan orrustuna við íslenskuna eins og oftast í tilvikum sem þessum.

En orðasafn bandaríska veðurfræðifélagsins segir að hraplægð (bomb) sé sú sem dýpkar um að minnsta kosti 1 hPa á klst yfir 24 klukkustunda tímabil. Í skilgreiningunni segir jafnframt að hraplægðir myndist einkum yfir hafi að vetrarlagi, 750 km eða þar um bil framan við öldudal í stuttri bylgju í vestanvindakerfinu. Þessar stuttu bylgjur myndist sem innlegg í stórbylgjum, rétt norðan heimskautarastarinnar.

Þessi skilgreining virðist falla nákvæmlega að staðháttum við bylgjuna B3. Stórbylgjan er í þessu tilviki kuldapollurinn Stóri-Boli II. Eins og spáin er nú á lægðin að valda hvassviðri á laugardaginn (12. febrúar) en flest líkön gera ekki mjög mikið úr veðrinu hér á landi. En mikið fárviðri verður á Grænlandshafi. B3 er ekki eins stór um sig og B2 var. Ég hvet þó þá sem eiga eitthvað undir veðri að fylgjast með spám Veðurstofunnar og annarra.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg080125a
  • w-blogg070125hb
  • w-blogg070125ha
  • w-blogg050125a
  • w-blogg040125ia

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (10.1.): 44
  • Sl. sólarhring: 711
  • Sl. viku: 3536
  • Frá upphafi: 2430583

Annað

  • Innlit í dag: 22
  • Innlit sl. viku: 2903
  • Gestir í dag: 22
  • IP-tölur í dag: 19

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband