Illviðrin þessa dagana - aðeins víðari sýn

Nú ganga illviðrin hjá eitt af öðru. Veðrið sem gekk yfir síðastliðna nótt (aðfaranótt miðvikudags) var býsna slæmt víða á landinu. Næsta veður kemur annað kvöld eða aðra nótt (segja spár), ég vil ekkert segja um hversu slæmt það verður. Enn eitt veður á síðan að ganga yfir á laugardag en spár eru enn mjög óvissar um hvort við verðum illa fyrir því eða ekki. Í gær og fyrradag var útlit fyrir það, en nú eru spár ekki eins vissar.

En við höldum áfram að líta á bakgrunn illviðranna og lítum á tvær skýringarmyndir. Sú fyrri er hefðbundin innrauð gervihnattamynd - að vísu lituð og skorin af Kanadísku veðurstofunni (Environment Canada). Hin er 500 hPa-greining frá evrópsku veðurreiknimiðstöðinni frá hádegi í dag.

w-blogg102011-m1

Myndin er tekin kl. 21:45 í kvöld og sýnir ástandið við norðvestanvert Atlantshaf. Ég hef merkt nokkra staði inn á myndina til að lesendur átti sig betur á því undir hvaða horni við horfum. Neðri hluti myndarinnar nær allt vestan frá New-York og austur til Kanaríeyja en sá efri frá Hudsonflóa í vestri og nærri því til Noregs í austri. Ísland er efst á myndinni og Grænland þar til vinstri.

Græni liturinn er sá hlýjasti á myndinni, grátt og hvítt kaldara og appelsínugult og rautt er kaldast. Ég verð að játa að uppeldislegt gildi myndarinnar er ekki það besta vegna þess hversu flókið skýja- og lægðakerfið suður af Grænlandi er. Einhvern veginn geta vanir menn samt klínt einhverjum skilakerfum inn í súpuna - en ég er ekkert upprifinn yfir því. Þó súpan sé þykk má samt greina tvo skýjasveipi, þeir eru merktir B1 og B2 og ofan við þá eru tvö háloftalægðardrög - óþægilega nærri hvort öðru. Auk þessa má sjá einhver brot úr heimskautaröstinni í skýjunum - en ógreinilega. Mælingar í dag sýndu mikið þrumuveður í rauðgulu klessunni austan við B1.

Ekki eru mjög mörg ár síðan tölvulíkön fóru að ná góðu taki á svona flóknum kerfum. Tökin í dag virðast allgóð - því til staðfestingar má skoða svonefndar gervi-gervihnattamyndir en þær eru reiknaðar út úr líkönunum (undarlegt - ekki satt). Þessar gervimyndir sýna í dag kerfi þar sem eitthvað ámóta kemur fram og á hinni raunverulegu mynd. Við skoðum svona myndir ekki að sinni en e.t.v. má einhvern tíma sýna þær sem dæmi.

Ef við horfum stíft á myndina má sjá lægð gærdagsins sem sveip við suðausturströnd Grænlands, sömuleiðis sjáum við nýtt skýjakerfi (rauðgular klessur) nærri New York á myndinni. Hvort þær tengjast laugardagslægðinni veit ég ekki ennþá.

Ég hef einnig merkt kuldapollinn Stóra-Bola II (S_B II) með miðju nærri suðurenda Baffinseyju. Hann hreyfist lítið sem ekki neitt. Hin myndin í dag á að sýna veldi hans vel. Henni er hnuplað af vef evrópsku reiknimiðstöðvarinnar eins og áður sagði. Hún sýnir hæð 500 hPa-flatarins á hádegi í dag (miðvikudag). Litirnir marka hita í 850 hPa-fletinum.

w-blogg100211-m2

Þessi mynd nær yfir meginhluta vesturhvels jarðar norðan hitabeltis, miðjuð á Norður-Ameríku. Við sjáum varla í Ísland við efsta jaðar myndarinnar og hún nær langt vestur á Kyrrahaf og suður til Suður-Ameríku. Kuldapollurinn Stóri-Boli II þarf enga sérmerkingu við sjáum helbláan kjarna hans í kringum Hudsonflóann. Hann stýrir vindum allt frá vesturströnd Bandaríkjanna norður til norðurskauts og austur að vesturströndum Evrópu.

Í dag sjást að minnsta kosti fimm bylgjur á leið í kringum kjarna pollsins. Sú sem fylgdi illviðri gærdagsins er ómerkt við Suður-Grænland. Hún verður trömpuð til bana á morgun af sameinuðum bylgjum B1 og B2 í illviðri því sem gengur yfir síðdegis á fimmtudag og aðfaranótt föstudags. Þetta eru sömu bylgjurnar og þær sem við merktum á gervihnattamyndinni.

Bylgja B3 er ekki mjög greinileg en er þarna samt - eins og við sáum á gerfihnattarmyndinni sem skýjakerfi yfir New York, skýin eru við austurjaðar bylgjunnar. Hún sést mun betur á því samblandi þykktar- og hæðarkorta sem við höfum skoðað að undanförnu.

Bylgja B4 olli í dag (fimmtudag) mjög skæðu hríðarveðri í Bandaríkjunum. Veðurbloggarinn góði, Jeff Masters, fjallar um veðrið undir fyrirsögninni: Winter storm dumps 2 feet of snow on Oklahoma, Arkansas. Blogg Jeffs er eitt það besta í veðurbransanum með ótal fróðleiksmolum inn á milli greina um veður dagsins.

Við sjáum að allar þessar bylgjur eru mjög stuttar og hreyfast því hratt til austurs og síðan norðausturs í kringum stóru bylgjuna, Stóra-Bola II, sem nær yfir um 140 lengdarstig. Hringurinn er 360 stig og bolabylgjan er meir en þriðjungur hringsins að lengd, e.t.v. bylgjutala 3 við 50 gráður norðlægrar breiddar.

Ég veit ekki hver örlög B3 og B4 verða, það verður bara að sýna sig. Sömuleiðis verður að sýna sig hvort bylgjan stóra suður af Alaska muni þrengja sér í gegnum hæðarhrygginn mikla vestan Klettafjalla og sparka í kvið Stóra-Bola þannig að hann hristi sig, hreyfist eða lendi í alvarlegum veikindum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg160424b
  • w-blogg160424a
  • w-blogg120424c
  • w-blogg120424b
  • w-blogg120424a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 48
  • Sl. sólarhring: 107
  • Sl. viku: 1539
  • Frá upphafi: 2348784

Annað

  • Innlit í dag: 45
  • Innlit sl. viku: 1343
  • Gestir í dag: 42
  • IP-tölur í dag: 41

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband