Illviðrin: B3 fullþroskuð

Lesendur bloggsins undanfarna daga er sjálfsagt farið að renna grun í að saga B-fjölskyldunnar heldur áfram í það endalausa - rétt eins og Ísfólkið og Lost. Það er því varla nema þá allra áhugasömustu að fylgjast með framhaldinu. En ég ætla þó að halda spunanum áfram í dag - á morgun hafði ég hugsað mér að gefa yfirlit um illviðrið í morgun - með lista yfir mesta vindhraða á stöðvunum rétt eins og fyrir B0 fyrir nokkrum dögum. Hvort fjölskyldunni verður síðan fylgt síðan verður bara að koma í ljós.

w-env-can_goes13-110211-2145

Sjónarhornið er það sama og áður, Ísland efst, Kanaríeyjar neðst til hægri og austurströnd Bandaríkjanna lengst til vinstri. Myndin er frá kanadísku veðurstofunni (Environment Canada).

Bylgjan B3 er nú fullþroskuð, í lægðarmiðjunni er þrýstingur kringum 945 hPa - verður e.t.v. lítillega lægri í nótt (aðfaranótt laugardags) eða í fyrramálið. Mun hreinni svipur er yfir B3 heldur en bæði B0 og B2. Glæsileg lægð. Skýjabakkinn framan við lægðina stefnir til Íslands og þar undir er mikið hvassviðri. Nú sem stendur gefa spár til kynna að mesti krafturinn verði úr veðrinu áður en hingað kemur, en hvasst verður samt. Þeir sem eiga eitthvað undir veðri athuga auðvitað vef Veðurstofunnar eða hlusta á spár með gamla laginu.

En nú kemur ókunnug bylgja til sögunnar. Ég kalla hana B5. Hún er nú alveg í jaðri kjarna kuldapollsins Stóra-Bola, mun kaldari en aðrar bylgjur sem við höfum fjallað um undanfarna daga. Ef við horfum grannt á B5 má sjá að hún er með haus rétt eins og B3 var í gær og einnig má greina vindröst úr suðvestri sunnan- og suðvestan við hausinn. B5 hreyfist til suðausturs og veldur því að nýja bylgjan B6 mun neyðast til að líta um öxl ef svo má segja.

B6 er varla sjáanleg enn - ský sjást - en lægðarmiðja við jörð er ekki orðin til en verður það á morgun - þá á mjög svipuðum slóðum og B3 í gær. Hún á líka að verða hraplægð (sprengilægð) sem dýpkar um meira en 24 hPa á 24 tímum. Krafturinn verður, ef marka má reiknispárnar, aðeins minni en í B3. Auk þess á hún að líta um öxl þegar B5 nálgast hana úr vestri - í misheppnuðu (?) stefnumóti.

B5 á einnig að gera annað - hún dregur hluta Stóra-Bola II á eftir sér þannig að hann mjakast suður og veikist. Sumar spár gera ráð fyrir því að hann fari síðan út á Atlantshaf og slakni.

En við sjáum til hvort framhald verður á lýsingu fjölskyldusögu Stóra-Bola II hér á hungurdiskum- en gervihnattamyndir og tölvuspár munu auðvitað halda áfram og má fylgjast með þeim þar til Stóri-Boli II er allur - og auðvitað sögunni um Stóra-Bola III og áfram til eilífðarnóns.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg160424b
  • w-blogg160424a
  • w-blogg120424c
  • w-blogg120424b
  • w-blogg120424a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 27
  • Sl. sólarhring: 112
  • Sl. viku: 1518
  • Frá upphafi: 2348763

Annað

  • Innlit í dag: 26
  • Innlit sl. viku: 1324
  • Gestir í dag: 25
  • IP-tölur í dag: 25

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband