Brot úr háloftalandafræðinni (nördatexti)

Fastir lesendur hungurdiska ættu að vera farnir að sætta sig við 500 hPa-flötinn. Hann sýnir hversu hátt í lofti við finnum loftþrýstinginn 500 hektópasköl. Í fyrstu nálgun er hann hár þar sem hlýtt er en liggur lágt þar sem er kalt. Hlýtt loft er fyrirferðarmeira en kalt. Kortið hér að neðan sýnir meðalhæð flatarins í janúar 1968 til 1996 og er fengið úr ncep-gagnasafninu bandaríska.

w-h500-ncep6896-jan

Skýrari gerð af myndinni er í viðhenginu (pdf-skjal). Litakvarðinn sýnir hæðina. Hæðin er lægst á fjólubláu svæðunum en hæst á þeim rauðleitu. Allt norðurhvelið er undirlagt af einu risastóru lægðasvæði með miðju við Norðvestur-Grænland og annarri yfir Austur-Síberíu. Á erlendum málum nefnist risalægðin The polar vortex með ákveðnum greini. Vandræði hafa verið með íslenska nafngift, hrá þýðing er pólhvirfill - ætli við verðum ekki að láta það duga þar til betra nafn birtist.

Eins og á venjulegu veðurkorti gefur fjarlægð milli jafnhæðarlína til kynna hversu sterkur vindurinn er - hér að meðaltali. Við sjáum greinilega að þær eru þéttastar yfir norðaustanverðum Bandaríkjunum og þaðan á haf út. Annar strengur, enn öflugri er sterkastur nærri Japan. Vindstrengirnir verða til þar sem lægðardrög teygja sig út frá miðju pólhvirfilsins. Þau eru oftast kennd við Japan (J) á myndinni og Baffinseyju (B) og heita því Japansdragið og Baffindragið.

Ef vel er að gáð má sjá þriðja lægðardragið yfir Austur-Evrópu (AE). Það liggur frá Norður-Rússlandi suðvestur í átt til Ítalíu. Milli þessara lægðardraga eru þrír hæðarhryggir. Síberíuhryggurinn (ómerktur) kemur lítið eða ekki við sögu hérlendis, en það gera hins vegar Klettafjallahryggurinn (K) og Golfstraumshryggurinn (G). Þeir sem sjá vel geta lika séð vægan hrygg liggja yfir Íslandi.

Í fyrstu nálgun liggja jafnhæðarlínurnar eins og breiddarbaugar, en hryggir og drög sýna vik frá þeirri reglu. Þessi veðurfyrirbrigði eru ótrúlega fastheldin en óvön augu sjá þau e.t.v. ekki mjög vel á daglegum kortum. Í stöku mánuði sjást þau heldur ekki mjög vel - þá er eitthvað ólíkindaveðurlag í gangi í heiminum. Munur á árum sést enn ver og þarf þá oftast að grípa til vikakorta til að sjá færslur þessara „föstu“ fyrirbrigða.

Vindstrengirnir sem við sjáum eru hes heimskautarastarinnar. Hún er öflugust nærri Japan og yfir Bandaríkjunum. Þar skiptir miklu máli fyrir veðráttuna hvoru megin strengs er verið. Hin óbyggilegu svæði í Labrador eru oftast norðan strengsins inni í meginkulda Baffindragsins. Vesturríki Kanada eru á svipaðri breiddargráðu undir mildandi áhrifum Klettafjallahryggjarins. Frá degi til dags sveiflast röstin til suðurs og norðurs, fari hún suður fyrir stað er kulda að vænta.

Röstin er að meðaltali mun veikari hér við land heldur en vestra. Hér á landi skiptir lega og styrkur Baffindragsins og Golfstraumshryggjarins mestu máli. Raskist þessi veðrakerfi að ráði verða miklar breytingar á veðurfari hér á landi. Undanfarna 12-14 mánuði hefur veðurlag á okkar slóðum verið mjög óvenjulegt. Baffinsdragið er varla svipur hjá sjón og Austur-Evrópudragið hefur færst til vesturs í átt til Skandinavíu. Golfstraumshryggurinn er líka mun vestar en venjulega. Ég man vart ástand þessu líkt.

Síðar mun vonandi gefast tækifæri til að fara nánar í saumana á þessu viðfangsefni með fleiri skýringum og talnadæmum.

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Fróðlegt og skemmtilegt. Nörd bíða spennt eftir framhaldinu!

Þorkell Guðbrandsson (IP-tala skráð) 27.1.2011 kl. 11:26

2 Smámynd: Sumarliði Einar Daðason

Mjög fróðlegt. Hlakka líka til næsta skammts.

Sumarliði Einar Daðason, 27.1.2011 kl. 17:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg010125i
  • w-blogg010125
  • w-blogg271224a
  • w-blogg271224aa
  • w-blogg261224ia

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.1.): 980
  • Sl. sólarhring: 1100
  • Sl. viku: 3370
  • Frá upphafi: 2426402

Annað

  • Innlit í dag: 874
  • Innlit sl. viku: 3030
  • Gestir í dag: 854
  • IP-tölur í dag: 788

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband