Austan- og norðaustanþræsingur

Þegar ég átti mína fyrstu setu við veðurspár fyrir meir en 30 árum var ég alveg viss um að allir þekktu þræsinginn. En svo var ekki og því varð dálítið upphlaup þegar ég notaði orðið í formlegum spátexta á Veðurstofunni. - Ekki lái ég mönnum það nú þótt pirraður væri á sínum tíma.

Þórður Tómasson í Skógum minnist auðvitað á þræsinginn í bók sinni Veðurfræði Eyfellings. Þar segir hann (á bls. 81):

Þræsingur var fremur kaldur blástur eða stormur, sá með honum lítt eða ekki til sólar. Þræsingur fylgdi vissum áttum. Til var austanþræsingur, vestanþræsingur og landnyrðingsþræsingur, en helst var hann þó með austanátt.

Orðið landnyrðingsþræsingur er ekki vinsælt til notkunar við upplestur í fjölmiðla (prófið að segja það nokkrum sinnum). En annars er mesta furða hvað minni tilfinningu og lýsingu Þórðar ber saman. Takið eftir því að hér er ekki einungis um hvassan vind að ræða heldur er víðtækari veðurlýsing innifalin: Lítt eða ekki sér til sólar. Það er líka athyglisvert að Þórður getur sérstaklega um austanáttina. Því er ég sammála, þræsingur á Suður- og Vesturlandi er einkum í vindáttum á bilinu 40 til 100 gráður - réttvísandi.

Mér finnst þræsingurinn auk þessa vera nær úrkomulaus og í honum er lítið sem ekkert af lágskýjum. Einhverja úrkomu getur þó slitið úr - einn og einn regndropi fallið eða snjókorn, en lengst af svo litla að hún mælist trauðla.

Það fellst í nafninu að þræsingur er ekki notað um veður og vind fyrr en það hefur staðið nokkurn tíma - varla að einn sólarhringur nægi. Orðið er ábyggilega skylt þráa og þrjósku - en um það læt ég málfræðingana.

Hversu hvass er þræsingurinn? Í minni tilfinningu er hann á bilinu 12 til 17 metrar á sekúndu, svipað og stinningskaldi og allhvass vindur (6 og 7 gömul vindstig). Ég held þó að hann geti verið hvassari, en varla hægari en þetta.

Ég verð að játa að ég veit ekki hvernig orðið er notað á Norður- og Austurlandi.

Austan- og norðaustanþræsingurinn er feikialgengur og oft þrálátastur á útmánuðum á Suður- og Vesturlandi. Þræsingsmánuðir, þegar fátt annað hefur verið á boðstólum, eru nokkrir. Veðurlagið er þá svipað og er í dag (11.1. 2011). Allbjart suðvestanlands, en éljahreytingur eða snjókoma nyrðra. Hæð er yfir Norðaustur- Grænlandi og lægðakerfi þrýstir að úr suðri. Í hinum dæmigerðasta þræsingi er bæði þrýsti- og hitabratti í kringum Ísland. Kalt loft er þá norðurundan en hlýtt suðurundan. Við skulum sjá þetta á korti:

hirlam-fl025-120111-0900

Myndin er úr HIRLAM-spálíkaninu og fengin af flugveðursafni á vef Veðurstofunnar. Spáin gildir kl. 9 að morgni 12. janúar 2011. Á kortinu má sjá vinda í flughæð 025 (2500 fet - nokkurn veginn 800 metrar) sem hefðbundnar vindörvar, veifur sýna vind 25 m/s eða meiri (50 hnúta). Strikalínurnar eru jafnhitalínur í þessari hæð. Sú bleika er frostmarkið 0°C. Í lægðarmiðjunni er um 5 stiga hiti, en -15°C jafnhitalínan er ekki langt úti af Vestfjörðum. Við sjáum tvo vindstrengi við Ísland, annan skammt undan Suðurlandi en hinn er úti af Vestfjörðum eins og algengt er - einkum þó að vetrarlagi.

Í tilviki dagsins minnkar vindur með hæð og er lítill i 5 km en uppi í 8,5 km hæð er hins vegar sterk vestanátt. Ef við höldum okkur við skilgreiningu Þórðar er ekki þræsingsveður nema að það sé sólarlítið. Það þýðir að einhver mið- og háský verða að vera á himni. Á Suður- og Vesturlandi blæs þræsingurinn af landi - en samt er skýjað. Hvaða skýjabönd eru það? Hugsum um það til betri tíma.  

Vitnað var í bók Þórðar Tómassonar: Veðurfræði Eyfellings. Bókaútgáfan Þjóðsaga, 1979. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

 Áferðarfallegt og skemmtilegt orð, eins og "norðangarri"

Vindhaninn (IP-tala skráð) 12.1.2011 kl. 00:54

2 Smámynd: Höskuldur Búi Jónsson

Frændi minn var kannski óskýr, en ég heyrði alltaf "fræsingur" hjá honum.

Höskuldur Búi Jónsson, 12.1.2011 kl. 07:49

3 identicon

Sammála þessari skilgreiningu á "þræsingnum". Ég er fæddur og uppalinn á norðanverðu Snæfellsnesi og þetta hugtak er alþekkt þar, á einkum við vinda frá austri til NNA í mínu minni allavega. Varðandi "fræsinginn" hans Höskuldar, þá held ég að upphaflega hafi þetta byggst á latmæli eða misheyrn, hvorttveggja jafn líklegt, en ég hef heyrt þetta notað í seinni tíð og held að þetta sé eins og margt annað í nútímamáli komið til vegna þess að fólk er búið að missa sambandið við "ethymologíuna" ef svo mætti segja.

Þorkell Guðbrands (IP-tala skráð) 12.1.2011 kl. 09:30

4 identicon

Sæll Trausti.

Athyglisvert hjá þér.

Má ekki skilja merkingu orðsins "þræsingur", sem þráláta vindátt, sem er hvöss og köld?

Ég er að austan (Eskifirði) og þar var notað orðið "steyta" sbr. "norðansteyta" um t.d. all-hvassa eða hvassa norðanátt eða norð/austanátt sem varir við í nokkra daga.

Örn Jónasson (IP-tala skráð) 14.1.2011 kl. 09:03

5 Smámynd: Trausti Jónsson

Þræsingur er ábyggilega tengdur þrálátum. Steyta hefur aldrei verið mér töm en ég kannast við orðið. Ég held að fræsingur sé afbökun á þræsingi, en annars á fræsingsnafnið ágætlega við þegar þræsingur leikur um snjó á jörðu. Hann fræsir þá snjóinn.

Trausti Jónsson, 15.1.2011 kl. 02:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • w-blogg120425b
  • w-blogg120425a
  • w-blogg080425b
  • w-blogg080425a
  • w-blogg060425b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.4.): 130
  • Sl. sólarhring: 133
  • Sl. viku: 1158
  • Frá upphafi: 2460936

Annað

  • Innlit í dag: 120
  • Innlit sl. viku: 1023
  • Gestir í dag: 115
  • IP-tölur í dag: 115

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband