Merkilegt veðurmet

Nú þegar er orðið ljóst að meðalþrýstingur ársins hefur ekki orðið svo hár hér á landi síðan samfelldar mælingar hófust 1822. Það má sjá á myndinni hér að neðan.

Ársmeðalþrýstingur-svland

Myndin sýnir ársmeðalþrýsting (lóðréttur ás) á Suðvesturlandi frá 1823 til 2010. Eins og sést er gildi ársins 2010 talsvert ofar en önnur há gildi sem lausu ártölin benda á. Einnig er bent á lág gildi til samanburðar. Nú ber þess að geta að nokkur óvissa er í eldri þrýstimælingum. Nokkuð samfelldar mælingar eru til úr öðrum landshlutum frá því um 1875 og er niðurstaðan sú sama í þeim tilvikum, engin ársgildi eru jafn há og það sem við höfum nú upplifað.

Það kemur einna mest á óvart hversu eindregið þetta met virðist vera. Ef við reynum að reikna eins konar stig fyrir þessa íþróttagrein til samanburðar við aðrar greinar. kemur í ljós að þetta met gefur ámóta mörg stig eins og ársmeðalhitinn 6,6 stig myndi gefa Reykjavík. Þeir sem fylgjast með slíku vita að það hefur ekki komið fyrir. - Og þó, meðalhiti 12-mánaða tímabilsins frá nóvember 2002 til október 2003 var 6,57 stig í Reykjavík - langt fyrir ofan allar aðrar tölur.

Sú spurning hlýtur því að vakna hvort þrýstingur ársins sem nú er að líða hafi einfaldlega hitt svona vel í árið. Svarið er játandi. Árið, janúar til desember, er einmitt með hæsta þrýstimeðaltalið. Því hljótum við að leita þess möguleika að þrýstingur hafi einhvern tíma áður verið jafnhár eða hærri yfir einhverja 12 samfellda mánuði. Þá kemur í ljós að það hefur gerst nokkrum sinnum áður, einna hæst frá ágúst 1887 til og með júlí 1888 og í þremur öðrum tilvikum eru 12-mánaða tímabil lítillega hærri en þeir síðustu 12, en hittu öll illa í árið. Hér munar að vísu svo litlu að mælióvissan á erfitt með að greina á milli.

Þetta dregur þó ekki úr þeirri merkilegu staðreynd að ársmeðalþrýstingur hefur ekki orðið hærri síðan samfelldar mælingar hófust. En frá því að ósamfelldar mælingar hófust? Þær mælingar eru vægast sagt köflóttar en eitt ár kemur samt hugsanlega til greina, 1812, árið sem Napóleon fraus í Rússlandi og mannfellir varð víða um Evrópu sökum kulda. En förum ekki nánar út í það hér.

Nú er veturinn ekki liðinn og enn er möguleiki fyrir 12-mánaða tímabil að bæta sig. Þrýstingur var hár bæði í janúar og febrúar síðastliðinn vetur og verður ekki auðvelt fyrir þá mánuði 2011 að slá þá út. En enginn mánuður ársins í fyrra átti þrýstimet þannig að rúm er fyrir hækkun.

Nú er auðvitað spurt hvers vegna þetta gerist og hvort það tengist eitthvað hlýnandi loftslagi. Um 1990 var þrýstingur fádæma lágur hér við land, álíka út úr kortinu eins og háþrýstingurinn nú (sjá myndina). Þá birtust allmargar greinar um að lágþrýstingur við Ísland væri kominn til að vera - og væri lofthjúpsbreytingum af manna völdum um að kenna. Gekk þá yfir mikið nao-fár. Það er eins gott að muna eftir því meðan núverandi ao-fár gengur yfir. En höfum í huga að fyrirsagnir fjölmiðla endurspegla ekki raunverulega umræðu meðal loftslagsvísindamanna og gerðu það ekki heldur 1990.

Síðan er umhugsunarefni, rétt eins og 1990, hvort afleiðingarnar verði einhverjar á næstu árum. Við reynum að fylgjast með tíðindum af slíku.  

nao: North Atlantic Oscillation

ao: Arctic Oscillation


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Þetta er eins og jarðskjálftarit.

Mér finnst athyglisvert hvað sveiflurnar eru miklar og hæstu toppar og dýpstu lægðir eru nálægt hvorri annarri og tiltölulega jafnt á milli.

Gunnar Th. Gunnarsson, 29.12.2010 kl. 01:58

2 identicon

Sæll Trausti.

Mbl.is segir með tilvitnun í blogg þitt m.a. :"Línuritið er mjög óreglulegt og hefur einkenni slembiþýðis úr máldreifingu."

Efast ekki um það sem þeir segja þó ég skilji það ekki. En veldur háþrýstingur hausverk hjá fólki? Heyrði það í æsku.

Annars bara takk fyrir góðan fróðleik.

Guðmundur Bjarnason (IP-tala skráð) 29.12.2010 kl. 09:12

3 Smámynd: Trausti Jónsson

Rétt er það Gunnar, en ef vel er að gáð má sjá að tilhneiging er samt til tímabila lág- og háþrýstings. Líttu t.d. á tímabilin 1950 til 1970 (háþrýstingur) og 1988 til 1995 (lágþrýstingur). Þannig tímabil eru fleiri. Guðmundur, auðvitað fær maður hausverk við að lesa setningar eins og þú nefnir. Ég kannast við hana og er hún fengin úr pistli mínum um loftþrýsting á vef Veðurstofunnar. Framhald setningarinnar er svona: „Það þýðir á mannamáli að þrýstingur næst meðaltalinu sé algengastur, en ár með meiri frávikum komi á tilviljanakenndu stangli allt tímabilið.“ Og síðan: „Sé hins vegar farið nánar í saumana á ferlinum má taka eftir að tímabilaskipti eru talsverð þó heildarleitni sé ekki marktæk.“

Trausti Jónsson, 29.12.2010 kl. 10:55

4 Smámynd: Einar Sveinbjörnsson

Þetta er vitanlega afar merkilegt veðurmet.  Maður var farinn að gæla við það í lok nóvember að kannski kæmist árið í 1010 hPa, en samkvæmt þessu fer meðalþrýstingurinn yfir 1011 hPa.  Þú talar um meðalþrýsting á Suðvesturlandi í textanum, en línuritið er merkt Reykjavík. Veit vel að sulla þarf saman Stykkishólmi og Reykjavík til að ná þetta langt aftur. Er ekki ljóst að um met verður einnig að ræða í Hólminum ? 

Ef lágþrýstingurinn um 1990 var tilefni umfjöllunar, hvað þá nú ?  Sérstaklega ef neikvæður fasi NAO heldur áfram fram á nýárið eins og ýmislegt bendir til og með áframhaldandi vetrarríki í Evrópu og staðbundið vestanhafs.  Erfitt er að skýra hvernig á standi öðru vísi en að benda á tilviljanakennda dreifingu, þó margir verði tilbúnir á skrifa þessi afbrigðilegheit á eitt og annað.  Vinsælasta skýringin verður sennilega "óbein afleiðing loftslagshlýnunar !".

ESv

Einar Sveinbjörnsson, 29.12.2010 kl. 23:08

5 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Þetta er bara byrjunin. Í vetur mun Evrópa frjósa í helvíti. Og menn munu ganga á ísi yfir Ermasund! 

Sigurður Þór Guðjónsson, 29.12.2010 kl. 23:17

6 Smámynd: Trausti Jónsson

Gagnaröðin er alræmd sullröð sem kennd er við Suðvesturland og birtist fyrst í grein sem ég og fleiri skrifuðu (sjá nýjasta blogg mitt). Það er alveg sama hvaða stöð er notuð ég hef athugað þær allar. En lítilsháttar ósamfellur eru í öllum röðunum sem ég er að vinna í og gengur mjög erfiðlega að hreinsa. Þess vegna birti ég ekki aðrar fastar tölur en þessa röð. Ég bendi bara á útgefin gögn að sinni.

Trausti Jónsson, 29.12.2010 kl. 23:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • w-blogg211224b
  • w-blogg211224
  • w-blogg121224
  • w-blogg111224a
  • w-blogg101224b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 20
  • Sl. sólarhring: 214
  • Sl. viku: 985
  • Frá upphafi: 2420869

Annað

  • Innlit í dag: 15
  • Innlit sl. viku: 864
  • Gestir í dag: 15
  • IP-tölur í dag: 15

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband