Aðfangadagur jóla

Ég ætlaði eiginlega að blogga áfram um ísöldina í dag, en varð eitthvað lítið úr verki. Í staðinn fyrir það er hér stuttur listi um illviðri á aðfangadag (úr margnefndu uppkasti mínu að veðurskrá).

Annars hefur aðfangadagur oftast verið furðuhagstæður í áranna rás þrátt fyrir almennan illviðratíma um þetta leyti árs. Í lista mínum eru um 350 textaatburðir í desember og falla þar af leiðandi um 11 slíkir á hvern dag að meðaltali. Níu falla á aðfangadag - en ekki nema 4 á sjötta desember. En hér er listinn:

1901     Tveir menn fórust útivið í snjóflóði í Mýrdal.

1910     Vestanofsaveður olli sköðum á Seyðisfirði.

1957     Skemmdir urðu á síldarverksmiðjunni í Krossanesi og beituskúrar hrundu á Hellissandi í illviðri. Þök fuku af útihúsum á Hamraendum og Gröf í Breiðuvík. Járn tók af nokkrum húsum á Akureyri. Miklar rafmagnstruflanir urðu vestanlands. Erlent flutningaskip stórskemmdist við bryggju í Höfðakaupstað, skemmdi þá bryggjur og löndunarkrana.

Ég man vel eftir þessu veðri í Borgarnesi þrátt fyrir ungan aldur. Rafmagnið fór snögglega milli klukkan 18 og 19 - beðið var með jólamat eftir fólki sem fór til kirkju. Kveikt hafði verið á jólakertum sem komu að góðum notum - en veðurhljóðið var ógurlegt í vestanofsanum. 

1969     Miklar rafmagnstruflanir í ísingu á Suðurlandsundirlendi, miklar símabilanir austanlands.

1971     Umferðaröngþveiti í hríðarveðri í Reykjavík, víðar lokuðust vegir vestanlands.

Þetta veður er mér einnig minnisstætt. Fyrir jólin hafði snjóað mikið í Borgarfirði - eitthvað minna í Reykjavík. Í kringum hádegi rak á með miklum austanhríðarbyl og sá ekki út úr augum. Kirkjugarðaumferðarteppur urðu verri en um getur. En bylurinn stóð ekki lengi og gerði hæga hláku með jólum. 

    1986     Flutningaskipið Suðurland fórst djúpt norðaustur af Langanesi, 6 menn fórust, en 5 var bjargað á jóladag.

1987     Tíu staurar brotnuðu í raflínu í Ölfusi og áætlunarbifreið fauk út af vegi undir Ingólfsfjalli.

1989     Mikið eignatjón varð í fárviðri undir Eyjafjöllum og fjölmargir rafmagnsstaurar brotnuðu. Mest tjón varð í Hlíð, en þar fuku dráttar- og heyvinnuvélar langar leiðir og eyðilögðust, þar fauk einnig stór hertrukkur nærri kílómeters leið. Þak fauk af fjósi á Steinum, járnplötur fuku af fjárhúsi í Berjanesi og þar hrundi gamalt steinsteypt en tómt íbúðarhús. Þil fauk úr hesthúsi á Raufarfelli og vindskeið af íbúðarhúsi. Vélar fuku á fleiri bæjum, járnplötur losnuðu og rúður brotnuðu, grjót fór í gegnum þök á útihúsum.

Þetta veður varð einnig mjög slæmt í Borgarnesi á aðfangadagskvöld rúður og þök skulfu á húsum en tjón þar varð þar lítið. Lægðin sem olli veðrinu var sérlega djúp, þrýstingur fór niður í 929,5 hPa á Stórhöfða í Vestmannaeyjum.   

 

2004     Nokkuð snarpan byl gerði um norðan- og norðaustanvert landið á aðfangadag og jóladag. Festingar slitnuðu á nokkrum skipum á Akureyrarhöfn, bátur slitnaði upp á Höfn í Hornafirði og stór tengivagn á bryggjunni fór hálfur út í sjó, ýmislegt lauslegt fauk einnig þar í bæ.

En á aðfangadag nú?  

Ekkert verður bloggað hér á jólanótt og óska ég lesendum og landsmönnum öllum gleðilegra jóla.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Kærar þakkir fyrir þennan fróðleik og alla þín pistla. Óska þér og þínum góðs um hátíðina og farsældar á nýju ári.

Þorkell Guðbrands (IP-tala skráð) 24.12.2010 kl. 12:51

2 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ég var í sveit í Húnavatnssýslu á jólum 1972. Rafmagnið fór af, mig minnir um hádegisbilið og kom ekki aftur fyrr en kl. 19 eða 20. Við þurftum að handmjólka tæplega 30 beljur við kertaljós og það var sérlega hátíðleg stund í fjósinu þegar jólunum var hringt inn kl. 18 á aðfangadagskvöld.

Bestu jólkakveðjur að austan

Gunnar Th. Gunnarsson, 24.12.2010 kl. 14:43

3 Smámynd: Trausti Jónsson

Þakka kveðjurnar Gunnar og Þorkell. Rafmagnsleysið 1972 var afleiðing ofsaveðurs nokkrum dögum áður þegar rafkerfi um stóran hluta landsins (eins og samtenging náði þá) fór í klessu í miklu ofviðri nokkrum dögum áður. Handsnúa þurfti þá rafknúnum gjaldkerakössum í búðum í Reykjavík og rafmagn var skammtað á hverfi og hverfi í senn. Ekki er ég viss um að landskerfið hafi þá verið tengt norður í Húnavatnssýslur. Margar sveitir voru þá enn með heimarafstöðvar og olíulampar og varahlutir í þá fengust enn í kaupfélögunum.

Trausti Jónsson, 24.12.2010 kl. 17:03

4 Smámynd: Pálmi Freyr Óskarsson

Takk fyrir þessa spá hér að neðan Annars gleðileg jól Trausti

Ótitlað

Skrifað 25.12.2010 kl. 5:02 af Pálma Frey

Bein slóð á færslu

Pálmi Freyr Óskarsson, 25.12.2010 kl. 07:09

5 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Gleðileg jól, takk fyrir fróðlega pistla.

Sveinn Atli Gunnarsson, 25.12.2010 kl. 11:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg200125c
  • w-blogg200125g
  • w-blogg200125f
  • w-blogg200125e
  • w-blogg200125d

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.1.): 38
  • Sl. sólarhring: 105
  • Sl. viku: 2485
  • Frá upphafi: 2434595

Annað

  • Innlit í dag: 33
  • Innlit sl. viku: 2207
  • Gestir í dag: 33
  • IP-tölur í dag: 30

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband