Lægstu desemberlágmörk á öllum veðurstöðvum

Í viðhenginu er listi með lægstu lágmörkum sem mælst hafa á veðurstöðvum í desember. Listinn nær aðeins aftur til 1924. Hann er fjórskiptur. Fyrstar eru sjálfvirku stöðvarnar allar, síðan sjálfvirkar stöðvar Vegagerðarinnar, þar næst mannaðar veðurstöðvar 1961 til 2009 og að lokum mannaðar stöðvar 1924 til 1960.

Af eldri metum má nefna mesta frost í Reykjavík í desember, -18,7 stig. Það mældist á annan jóladag 1880. Mesta frost sem vitað er um á Akureyri í desember eftir að samfelldar mælingar hófust þar 1881 er -22,0 stig. Það var 16. desember 1917. Við vitum ekki um mesta frost á Akureyri í desember 1880. Lægsti hiti sem vitað er um á landinu í desember 1880 er -23,2 stig á Valþjófsstað, það var 18. dag mánaðarins. Mæling er til frá Akureyri 30. desember 1809 þar sem hiti fór niður í -25,4 stig. Skyldi það sjást aftur?

Í hinu viðhenginu (pdf) er mynd af allt öðru tagi. Hún sýnir ástandið í 250 hPa-fletinum á norðurhveli þessa dagana. Litirnir sýna svonefnt þyngdarmætti í þeim fleti. Ef deilt er í það með þyngdarhröðuninni (u.þ.b. 10) verður kvarðinn efst lesanlegur sem hæð flatarins í kílómetrum. 250 hPa flöturinn er ekki fjarri 10 km hæð. Bláu svæðin sýna lágan flöt, þar er kalt loft undir, en ljósari litirnir hlýrri svæði. Örvar benda annars vegar á Ísland en hins vegar á fyrirstöðuhæðina við S-Grænland. Hún ætlar að verða þaulsetin hæðin sú. Miðja hennar er umkringd kaldara lofti. Áhugasamir geta reynt að telja hversu margar bylgjurnar kringum norðurhvelið eru um þessar mundir.

Myndin er fengin af ágætri síðu hjá háskólanum í Reading á Englandi.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Það er gaman að skoða desember lágmörkin. Hitt er ekki síður áhugavert, en krefst skoðunar í rólegheitum við tækifæri. (Ég er sennilega ekki veðurnörd af fyrstu gráðu)

Ég man eftir rúmlega 20 stiga frosti á Reyðarfirði, um miðjan 10. áratug síðustu aldar. Þar munar rúmlega 5 stigum frá desembermetinu 1961-90.

Er það algengt að það muni 5 stigum eða meira á desembermeti og vetrarmeti?

Gunnar Th. Gunnarsson, 6.12.2010 kl. 02:11

2 Smámynd: Trausti Jónsson

Mesta frost sem mældist á mönnuðu stöðinni á Kollaleiru (1976 til 2007) var -17,1 stig. Hiti varð svo lágur tvisvar sinnum: 23. janúar 1988 og 14. mars 1992. Kollaleirustöðin stendur aðeins uppi í hallanum, hugsanlegt er að hiti hafi orðið eitthvað lægri niðri á sléttlendinu.

Trausti Jónsson, 6.12.2010 kl. 10:43

3 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Takk fyrir þetta. Já, þetta hefur verið ´92. Það getur munað nokkrum stigum á Kollaleiru og inni í þorpinu, þó Kollaleira sé nánist í þorpinu. Í miðbænum er oft merkilega mikill kuldapollur, og á sumrin er suðupottur. Kollaleira er alltaf kaldari.

Gunnar Th. Gunnarsson, 6.12.2010 kl. 12:33

4 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Þarna átti að standa; Kollaleira er alltaf kaldari að jafnaði.

Gunnar Th. Gunnarsson, 6.12.2010 kl. 12:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg080125a
  • w-blogg070125hb
  • w-blogg070125ha
  • w-blogg050125a
  • w-blogg040125ia

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (9.1.): 606
  • Sl. sólarhring: 770
  • Sl. viku: 3729
  • Frá upphafi: 2430257

Annað

  • Innlit í dag: 539
  • Innlit sl. viku: 3132
  • Gestir í dag: 521
  • IP-tölur í dag: 494

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband