Samsætuskeið (söguslef 11)

Áður en við förum að sinna ísöldinni og helstu tímamótum hennar er nauðsynlegt að vita hvað átt er við með hugtakinu samsætuskeið (isotope stage). Flestir vita að veðurfarssveiflur hafa verið gríðarlegar á þeim tíma sem við köllum ísöld.

Í fyrra slefi var á það minnst á að hlutfall samsæta í leifum sjávardýra gefa miklar vísbendingar um ísmagn á jörðinni í fyrndinni. Smátt og smátt eru upplýsingar um ísmagnið að batna eftir því sem kjörnunum fjölgar. Þrátt fyrir þetta er upplausn þeirra takmörk sett. Í kjörnunum má sjá að samsætuhlutfall gat haldist ámóta um tíma - en síðan breyst nokkuð snögglega yfir í annað hlutfall sem síðan einnig hélst í nokkurn tíma.

Því var farið að tala um samsætuskeið og þeim sem rekjanleg voru um mestöll heimshöfin var gefið númer. Þegar fyrstu kjarnarnir voru greindir vissu menn ekki hversu gamlir þeir voru, þær aldursákvarðanir breyttust nokkuð framan af þar til tímasetningin var orðin betri. Meðan á þessu stóð var vísast best að vitna til skeiðanna sem númera. Hægt hefði verið að nota nöfn sem búið var að gefa jökulskeiðum og hlýskeiðum áður en þær nafngiftir voru ekki samræmdar á heimsvísu auk þess sem kjarnarnir gáfu til kynna að skeiðin væru mun fleiri en nokkurn grunaði áður. ´

Við tölusetninguna var byrjað efst (yngst) á tölunni 1. Sú tala á við nútímann (holocene). Nú eru til allvel samræmd skeiðanúmer aftur til um 2,4 milljóna ára og eru tölur komnar upp í um 100 fyrir þennan tíma. Einnig er farið að tölusetja eldri skeið, en þá er að ég held nafn segulskeiðs notað sem forskeyti og byrjað upp á nýtt þegar komið er aftur í enn eldra segulskeið. Við 2,59 milljónir ára eru mörkin sett á milli segulskeiðanna Matuyama og Gauss, Gauss er það eldra. Skýringar á því hvað segulskeið er má finna á Vísindavefnum - fyrir alla muni flettið því upp, enn lengri grein er á Wikipediu (geomagnetic reversal).

Þegar ískjarnamælingar komu til sögunnar með sínum skeiðum kom í ljós að ótrúlega gott samræmi var á milli þeirra og djúpsjávarkjarnanna. En þessar tvær kjarnategundir eru auðvitað ekki nákvæmlega eins - munurinn gefur líka upplýsingar.

Upplausn djúpsjávarkjarnanna er því betri eftir því sem nær dregur nútíma. Fyrstu 5 samsætuskeiðin eru öll innan síðustu jöklunarsveiflu, næsta stórjökulskeið á undan því síðasta er því númer 6. Í Evrópu er það kallað Saale. Eem, hlýskeiðið það næsta á undan okkar, var upphaflega númer 5 og tók yfir það sem vitum nú að eru tugþúsundir ára.

Ískjarnarnir tryggðu betri tímasetningar og kom þá í ljós að hið eiginlega Eem náði ekki nema yfir hluta skeiðsins og hægt var að greina fleiri stórar sveiflur innan skeiðs 5. Því var þá skipt upp með bókstöfum, frá a til e. Eem er nú 5e, en 5a til d eru stórar sveiflur sem urðu á tímabilinu frá enda hins eiginlega Eem og til um 70 þúsund ára frá okkur séð. Númer 4 er kalt skeið innan síðasta jökulskeiðs, kringum 60 þúsund árin, númer 3 er ívið hlýrri tími á undan kaldasta tíma jökulskeiðsins sem fékk töluna 2.

Aldursgreining ískjarna er ekki laus við vanda en þó má telja árstíðaskipti nærri því frá ári til árs vel aftur á síðasta jökulskeið þar sem nægilega snjóar svo sem á Suður-Grænlandi. Ískjarnarnir staðfestu að snöggar breytingar verða á veðurlagi rétt eins og djúpsjávarkjarnarnir höfðu áður gefið til kynna, en nánast öllum að óvörum sýndu þeir fyrrnefndu að breytingarnar voru mun sneggri en nokkur hafði leyft sér að nefna.  

Þetta hefur orðið til þess að merking orðanna snöggar veðurfarsbreytingar hefur breyst á síðustu 20 til 30 árum miðað við fyrri merkingu. Fyrir 50 árum var breyting sem aðeins tók 1000 ár talin snögg. Eitt af fjölmörgum kraftaverkum ískjarnanna er að þeir gerðu mun nákvæmari greiningu djúpsjávarkjarnanna mögulega og hafa einnig orðið til þess að menjar umhverfisbreytinga eru mun auðrekjanlegri en áður.

Nákvæmnin hefur orðið til þess að mun fleiri skeið hafa bæst við, með sínum númerakerfum. Óhætt er að segja að kennitölur þessar hafi auðveldað mönnum umfjöllun um stórkostlega atburði veðurfarssögunnar. Í erlendum ritum eru sjávarsamsætuskeiðin kölluð Marine Isotope Stage, skammstafað MIS. Kuldaskeiðin taka sléttar kennitölur, en hlýskeiðin oddatölur. Kuldi varð mestur á síðasta jökulskeiði á MIS2 - sjávarsamsætuskeiði 2. Langvinnasta hlýskeið síðustu ármilljónar er sjávarsamsætuskeið 11, við sjáum á tölunni einni að hér er hlýskeið á ferðinni.  

Ég reyni að koma öðrum skeiðategundum að síðar.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • w-blogg211224b
  • w-blogg211224
  • w-blogg121224
  • w-blogg111224a
  • w-blogg101224b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 90
  • Sl. sólarhring: 236
  • Sl. viku: 1055
  • Frá upphafi: 2420939

Annað

  • Innlit í dag: 82
  • Innlit sl. viku: 931
  • Gestir í dag: 81
  • IP-tölur í dag: 80

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband