Saga Grænlandsjökuls - (söguslef 10)

Nýlega birti tímaritið Quarternary Science News yfirlitsgrein um sögu Grænlandsjökuls. Aðaltilgangur greinarinnar virðist reyndar vera sá að benda á að jökullinn sé næmur fyrir breytingum á hita og stjórnist fremur af honum heldur en úrkomumagni.

Jökullinn sjálfur veldur því að fréttir af sögu hans eru litlar. Hann liggur ofan á sönnunargögnum auk þess að skrapa þau burt. Helstu ályktanir um elstu sögu jökulsins eru því úr sjávarkjörnum þar sem sjá má eitthvað af afurðum hans. Talið er að fyrir um 7,2 milljónum ára (á Míósen) hafi jökull fyrst náð verulegri útbreiðslu í lágsveitum Grænlands en jöklar hafi setið á hæstu fjöllum lengi áður, en ekki samfellt.

Grunur er um meginframsókn jökulsins fyrir um 3,2 milljónum ára. Setlög við Kaupmannahafnarhöfða á Norður-Grænlandi þykja benda til þess að jökull hafi verið lítill á Norður-Grænlandi á hlýskeiði fyrir um 2,4 milljónum ára. Jafnvel hafi láglendi verið íslaust og þakið víðáttumiklum skógargróðri. Síðan fréttist lítið af ástandinu þar til hugsanlega á svonefndu sjávarsamsætuskeiði 11 [hlýskeiðinu mikla] fyrir um 440-400 þúsund árum.

Þá var sjávarstaða allt að 20 metrum hærri en nú. Það er meira en vesturjökull Suðurskautslandsins inniheldur nú af vatni og þar sem ólíklegt er að mikið hafi bráðnað af austurjöklinum mikla er bent á Grænlandsjökul sem líklegt forðabúr sjávarhæðaraukans. Sumir telja að þá hafi skógar aftur vaxið á láglendi Suður-Grænlands og mikill hluti jökulsins bráðnað. Þá hafi meðalsumarhiti í 1000 metra hæð verið um 10 stig og vetrarhiti hærri en -17 stig. Ekki eru þetta áreiðanlegar tölur.

Flestir vita vonandi að undir Grænlandsjökli er mikil lágslétta, lægsti hluti hennar reyndar neðan sjávarmáls, en hyrfi jökullinn myndi landið lyftast talsvert. 

Næstu tvö hlýskeið, fyrir um 300 þúsund árum og fyrir um 200 þúsund árum voru ekki jafnhlý og sjávarsamsætuskeið 11 og ólíklegt að Grænlandsjökull hafi þá orðið fyrir teljandi búsifjum.

Nú er einna helst talið að Grænlandsjökull hafi náð hvað mestri útbreiðslu á kuldaskeiðinu sem stóð frá 188 þúsund árum og þar til fyrir 130 þúsund árum. Jöklar virðast þá hafa þakið hluta þess lands sem var íslaus á síðasta jökulskeiði auk þess sem jökulfarg hafi verið meira en síðar hefur orðið.

Hlýskeiðið næst á undan því sem við nú lifum á ef oftast kallað Eem. Ekki er eindregið samkomulag yfir hvaða tíma það nær, en á seinni árum er oftast átt við hluta þess, nokkur þúsund ár í kringum tímann fyrir 123 þúsund árum, en þá virðist hafa orðið einna hlýjast. Þá virðist sjávarstaða hafa verið 4 til 6 metrum hærri en nú.

Talið er að þá hafi hiti verið 5 stigum hærri en nú er á Austur-Grænlandi og því 2-4 stigum hærri en var á bestaskeiði nútíma (fyrir um 6-9 þúsund árum). Ef marka má greinina áðurnefndu eru nú í gangi miklar umræður um hvað gerðist þá með Grænlandsjökul. Svo virðist sem hann hafi látið nokkuð á sjá. Höfundar kveða ekki endanlega úr með það hversu mikið tapið hefur verið en af mynd sem þeir sýna má ráða að það hafi varla verið minna en 15%, hugsanlega mun meira.

Á síðasta jökulskeiði var jökullinn talsvert rúmmálsmeiri en nú, ekki er þó vitað hversu mikið. Sennilega þó ekki meira en 100% rúmmálsmeiri.

Ályktun höfunda er sú að Grænlandsjökull sé næmur fyrir hitabreytingum og að sambandið milli hita og rúmmáls sé ekki línulegt. Stór hluti jökulsins geti bráðnað ef hiti hækkar um 2 til 5 stig. Það tæki auðvitað langan tíma.

Ég hvet áhugasama til að lesa greinina þó löng sé. Hún er í opnum landsaðgangi á hvar.is

Greinin:

History of the Greenland Ice Sheet: paleoclimatic insightsAlley RB, Andrews JT, Brigham-Grette J, et al. QUATERNARY SCIENCE REVIEWS, 29 s: 1728-1756


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Takk fyrir fróðleikinn, Trausti.

Hvað finnst þér um þá spádóma sumra loftslagsvísindamanna, að illa verði lífvænlegt á Jörðinni ef hitastig hækkar um 2-3 gráður frá því sem nú er?

Gunnar Th. Gunnarsson, 22.11.2010 kl. 04:35

2 Smámynd: Trausti Jónsson

Hitahækkun um 2-3 stig setur lífkerfið í heild ekki í neina hættu og út af fyrir sig yrði jafn lífvænlegt á jörðinni. Það eru aðrir þættir sem eru varasamari, sérstaklega vegna þess hversu mannkynið er í heild orðið háð ákveðnu framleiðslumynstri. Það væri e.t.v. í lagi ef einhver slaki væri mögulegur, en því miður er það varla svo. Matarforði er t.d. ekki til nema í nokkra mánuði í senn. Það væri út af fyrir sig í lagi ef stór hluti þessa matarforða væri ekki háður ótrúlegum flutningum bæði á matvörunni sjálfri sem og áburði og öðrum aðföngum. Svipað má segja um orku og flutninga hennar. Það er allt of langt mál að fara hér frekar út í þá sálma en þessar „litlu“ veðurfarsbreytingar sem hugsanlegar eru eru ansi ógnvekjandi í þessu samhengi öllu. Ég er hins vegar ekki mikill aðgerðasinni í þessu máli og hef áratuga gamla vantrú á skyndilausnum af stjórnmálalegum toga. Mikilvægast er að menn geri sér grein fyrir því að um raunverulega ógn er að ræða, þá fyrst er einhver von til þess að spilaborgin falli ekki við minnsta ólag.

Trausti Jónsson, 23.11.2010 kl. 01:42

3 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ekki skal vanmeta aðlögunarhæfni mannskepnunnar, sem og annarra lífvera.

En ef hlýnunin er alfarið "man made", þá er það auðvitað áhyggjuefni, en ég er sömu skoðunar og þú varðandi skyndilausnir af stjórnmálalegum toga.

Gunnar Th. Gunnarsson, 23.11.2010 kl. 01:57

4 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Þó svo lífkerfið leggist ekki af í heild, þá eru taldar líkur á því að vistkerfi geti orðið "vanstillt", ef svo má að orði komast, ef hitastig hækkar um t.d. 2-3 gráður yfir tiltölulega stuttan tíma (100 ár t.d.), eins og sumar spár gera ráð fyrir, vegna losunar gróðurhúsalofttegunda. Svona hitastigshækkun (yfir tiltölulega skamman tíma) getur haft allskyns afleiðingar í för með sér, sem jafnvel geta verið ófyrirsjáanlegar og orðið til að spilaborgin falli við minnsta ólag, eins og Trausti orðar það. Þó svo að mannskepnan geti hugsanlega aðlagað sig öllu mögulegu, þá getur hún líka valdið hlutum með aðgerðum (aðgerðaleysi) sem ekki er sjálfgefið að sé auðvelt að tækla.

Ég er sammála því að skyndilausnir af stjórnmálalegum toga geti verið varhugaverðar, enda liggur það í eðli stjórnmála að sjá ekki lengra fram í tímann en ca. 1 kjörtímabil og það eru litlar sem engar líkur á að þau byrji á morgun á því að sjá hlutina í einhverju stærra samhengi. En hitt er svo annað mál að upplýsingar um áhrif óheftrar losunar geta orðið til þess að almenningur krefjist lausna sem virka. Það er hægt að nefna ýmsar lausnir og mótvægisaðgerðir, m.a. bætt tækni sem leiðir til minni losunar CO2, breytt samgöngu mynstur, breyttur hugsunarháttur almennings, breytt skipulag í borgum og bæjum svo fátt eitt sé nefnt. Sumt getur gerst á skömmum tíma, annað þarf að gerast yfir lengri tíma, en aðalatriðið er kannski að við áttum okkur á að vandamálið með aukningu gróðurhúsalofttegunda er talið vera raunverulegt, enda sýna mælingar vísindamanna fram á það.

Sveinn Atli Gunnarsson, 23.11.2010 kl. 09:11

5 Smámynd: Höskuldur Búi Jónsson

Trausti, þú segir: "Hitahækkun um 2-3 stig setur lífkerfið í heild ekki í neina hættu og út af fyrir sig yrði jafn lífvænlegt á jörðinni"

Geturðu rökstutt þessa setningu eða bent á lestrarefni (greinar) þar sem þessu er haldið fram?

Getur verið að þú sért að einblína á hitahækkun um 2-3 stig, þar sem lífverur hafa nægan tíma til að aðlagast breytingunum (þ.e. þar sem þær breytingar gerast á þúsundum ára en ekki hundrað árum)?Er möguleiki að þú sért að einblína á lífvænleika á þeirri breiddargráðu sem við búum á? Hversu lífvænlegt telurðu t.d. að það verði í hitabeltinu?

Það lítur kannski út fyrir að ég sé með stæla með þessum spurningum, en ég vil taka fram að ég er þér þakklátur ef þér hefur tekist að sannfæra Gunnar að "um raunverulega ógn er að ræða" og eins svo ég vitni í þig úr athugasemd hér annars staðar á síðunni þinni:

"...en það munar samt um 2 gráður þegar sú breyting tekur til margra áratuga. Hún nægir t.d. til að bræða alla jökla á Íslandi nema á hæstu fjöllum. Jöklar á þriggja breiddargráða bili á Grænlandi breytast úr því að bráðna aðeins að neðan yfir í það að kelfa, hafís þynnist, sumarið lengist, sífrerajafnvægi raskast og svo framvegis..."

Ef þessi setning væri skrifuð af okkur ritstjórum á loftslag.is þá væri þetta "alarmískt" og hræðsluáróður að mati Gunnars - þannig athugasemdir býður hann okkur upp á reglulega. Því finnst mér þörf að þakka fyrir það, ef þér hefur tekist að opna augu Gunnars - þó mér finnist þú gera lítið úr áhrifum loftslagsbreytinga á lífkerfið.

Höskuldur Búi Jónsson, 23.11.2010 kl. 10:56

6 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Meira fjör, meira fjör!

Sigurður Þór Guðjónsson, 23.11.2010 kl. 12:37

7 Smámynd: Trausti Jónsson

Það er grundvallarmunur á lífkerfinu í heild og einstökum dýrategundum eða einstaklingum. Gangi spár um breytingar eftir munu fjölmargar tegundir deyja út, því miður, bæði rómantískar og órómantískar, en líkerfinu í heild er ekki ógnað - langt frá því. Í reynd munu breytingar meira sega gefa sumum tegundum ný tækifæri til að blómstra. En subbulegt er það frá okkar sjónarhóli.

Trausti Jónsson, 23.11.2010 kl. 13:09

8 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Merkilegt að gera mig, leikmanninn, að umræðuefni hér.

Jafnvel enn merkilegra að sálartetri Höska sé rórra vegna mín. Að vísu er um ákveðinn misskilning að ræða hjá honum...að augu mín hafi opnast... eitthvað sérstaklega.

Gunnar Th. Gunnarsson, 23.11.2010 kl. 18:22

9 Smámynd: Höskuldur Búi Jónsson

Það er oft svo að þeir háværu í umræðunni verða að umræðuefni - stundum gegn vilja þeirra sem um ræða.

En o jæja, augun þín hafa ekki opnast neitt sérstaklega og því munt þú væntanlega halda áfram að kalla mig og fleiri alarmista með hræðsluáróður, því og ver og miður fyrir mína sálarró

Höskuldur Búi Jónsson, 24.11.2010 kl. 09:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg211124a
  • w-blogg181124a
  • w-blogg151124c
  • w-blogg151124b
  • w-blogg151124a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 345
  • Sl. sólarhring: 539
  • Sl. viku: 2140
  • Frá upphafi: 2413160

Annað

  • Innlit í dag: 329
  • Innlit sl. viku: 1929
  • Gestir í dag: 327
  • IP-tölur í dag: 325

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband