Á míósenskeiðinu

Mér hefur aldrei liðið sérstaklega vel þegar ég hugsa til míósenskeiðsins. Ég ætti sennilega að láta það vera að skrifa um það en hér er alla vega stutt yfirlit um veðurfar tímabilsins. Míósen er heiti á því bili jarðsögunnar sem nær yfir tímann frá því um 23 milljón árum síðan fram til 5,3 milljón ára síðan. Ólígósenskeiðið var næst á undan, en plíósen kemur næst á eftir.

miosen

Ágætt er til liðsjónar að horfa á mynd af súrefnissamsætuvikum á tímabilinu, en það er talið gefa til kynna magn ferskvatns sem bundið var í jökulís á hverjum tíma. Ekki er þó alveg beint samband þar á milli. Lóðrétti kvarðinn á myndinni sýnir vikið, takið eftir því að kvarðinn er öfugur, því hærra sem samsætuhlutfallið er því meiri ís er bundinn og því kaldara hefur líklega verið. Rauða línan er sett  nærri núverandi jökulmagni - mest af því er á Suðurskautslandinu.

Við sjáum að sveiflur í samsætuvikinu eru býsna stórar. Þess vegna má telja líklegt að ísmagn hafi verið mjög breytilegt. Talið er að fyrir rúmum 20 milljón árum hafi fyrst orðið vart íss við Norður-Atlantshaf en lengst af var þó mjög hlýtt á þeim slóðum sem og víðast hvar í heiminum. Eyðimerkurmyndun tók verulega við sér í Asíu. Hið gamla Miðjarðarhaf - Tethys - lokaðist að austanverðu. Það sem eftir varð er kallað Paratethys og náði um allt svæðið þar sem nú er Svartahaf, Kaspíahaf, Aralvatn og enn austar. Þetta haf minnkaði mjög á míósen.

Árekstur Indlands við Asíu var fullum gangi og bæði Himalajafjöll og Tíbethásléttan uxu mjög. Þá jókst mjög veðrun á því svæði og batt hún mikið magn koltvísýrings úr lofthjúpnum. Hásléttan fór einnig að hafa áhrif á bæði meginhringrásina og monsúnhringinn. Hlýindi á míósen náðu hámarki fyrir 14 til 17 milljónum ára. Elstu jarðlög á Íslandi ná e.t.v. í enda þessa tímaskeiðs. Um tíma varð yfirborðssjór hlýrri en verið hafði frá lokum eósen, nærri 20 milljón árum áður. Umtalsverð saltsjávarmyndun átti sér þá stað í norðanverðu Indlandshafi.

Á miðmíósen fyrir um 13 til 14 milljónum ára náðist loks varanleg tenging Atlantshafs og Norðuríshafs og um svipað leyti byrjaði kólnun að ná sér á strik. Norðurdjúpvatn barst þá til suðurhafa. Núverandi djúpsjávarhringrás fór af stað í aðalatriðum og jókst binding koltvísýrings einnig af hennar völdum. Þó var enn mun hlýrra í djúphöfum en nú á tímum og kuldahvelið ekki eins öflugt og nú er.

Þegar kólnunin komst í gang mynduðust loks varanlegir jökulskildir á Suðurskautslandinu austanverðu. Hlýtt var á Íslandi og uxu hér suðrænar trjátegundir svipaðar þeim sem nú vaxta við austurströnd Bandaríkjanna.

Fyrir um 11 milljón árum hafði kólnað nokkuð (sjá myndina) og frá þeim tíma eru elstu menjar um að jöklar hafi náð allt til sjávar við norðanvert Atlantshaf. Upp frá því hefur ísborinn sandur, möl og grjót (ísamöl) fundist langt frá landi - þó í mun minna mæli en áður var. Meginjökull Grænlands hafði þó ekki myndast, en fyrsti stórjökull á Grænlandi virðist hafa orðið til á köldum skeiðum síðmíósentímans fyrir um 7 til 10 milljónum ára. Sennilega var Grænland þó lengst af án stórjökuls, þótt jöklar hafi verið á háfjöllum.

Fleiri jöklar fóru að taka við sér. Til dæmis eru fyrstu merki um stóran jökul í Patagóníu syðst í Suður-Ameríku frá því um 7 milljónum ára. Stórir jöklar mynduðust einnig í Alaska á þessum tíma og suðurskautsjökulhvelin stækkuðu.

Súrefnissamsætumælingar benda til þess að jöklar hafi á köldum skeiðum þessa tíma náð meiri útbreiðslu en nú er. Þar sem ljóst er að stórhvel mynduðust ekki á norðurhveli utan Grænlands á þessum tíma hljóta Suðurskautsjöklar að hafa verið stærri. Djúpsjór sem myndaðist í suðurhöfum var um 5°C um þetta leyti. Á tímabilinu fyrir 5 til 6 milljónum ára var hafís farinn að láta á sér kræla í Norður-Íshafi, óvíst er hvort aðeins var um vetrarís að ræða og þá aðeins á köldum skeiðum. Líklega var jökull á hæstu fjöllum á Íslandi, það fer þó eftir því hversu há þau voru - veit það einhver?

Þá kemur að mjög einkennilegum atburði - Miðjarðarhafið þornaði upp.

Í viðhengi eldri bloggfærslu er fjallað um samsætumælingar, þar er einnig vitnun í greinina sem myndin hér að ofan byggir á.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Takk fyrir þetta!

Fáum við fróðleiksmola um uppþornun Miðjarðarhafsins? Spennandi.

Gunnar Th. Gunnarsson, 8.11.2010 kl. 12:46

2 Smámynd: Mofi

Að menn skuli gefa svona hugarburðum nöfn er alveg magnð... að kalla þetta fróðleiksmola er út í hött, á miklu meira skyllt við froðu. Það væri að minnsta kosti gáfulegt að tala um ágískanir og ályktanir á mjög litlum gögnum í staðinn fyrir svona fullyrðinga stíl.

Mofi, 8.11.2010 kl. 14:20

3 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Sorglegt að fyrirmyndar bloggsíða um veður sé menguð af athugasemd trúarofstækismanns sem kallar samansafnaða þekkingu í fornveðurfræði hugaarburð.

Sigurður Þór Guðjónsson, 8.11.2010 kl. 14:52

4 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Kom Móses kannski eitthvað við sögu við þornun Miðjarðarhafsins … eða var það Rauðahafið?

Emil Hannes Valgeirsson, 8.11.2010 kl. 16:39

5 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Takk fyrir færsluna. Merkilegt þegar fólk hafnar rannsóknum og mælingum vísindamanna af trúarlegum og/eða hugmyndafræðilegum ástæðum, eiginlega bara sorglegt...

Sveinn Atli Gunnarsson, 8.11.2010 kl. 18:45

6 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Mofi kallinn telur jörðina vera 6000 ára og eðlilegt að það ergi hann að sjá svo há ártöl. Hann hefur enga þekkingu né grunn til að gera athugasemdir hér nema Biblíuna.  Bible says it. I believe it. That settles it.

Jón Steinar Ragnarsson, 8.11.2010 kl. 20:23

7 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Mér finnst að allir eigi að hunsa svona athugasemd, sem augljóslega á ekki heima hér. Ég held að Trausti sé ekki að kalla eftir rökræðum um trúmál eða þróunarkenninguna, heldur einungis að miðla af sinni þekkingu.

En fínt að athugasemd Mofa birtist, ....samt

Gunnar Th. Gunnarsson, 8.11.2010 kl. 21:42

8 Smámynd: Guðmundur Benediktsson

http://theflatearthsociety.org 

Guðmundur Benediktsson, 17.11.2010 kl. 22:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg211124a
  • w-blogg181124a
  • w-blogg151124c
  • w-blogg151124b
  • w-blogg151124a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 846
  • Sl. sólarhring: 899
  • Sl. viku: 2641
  • Frá upphafi: 2413661

Annað

  • Innlit í dag: 792
  • Innlit sl. viku: 2392
  • Gestir í dag: 769
  • IP-tölur í dag: 751

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband