Frá september yfir í október

Haustið gengur sinn gang. Hiti í október er að meðaltali um 3 stigum lægri en í september í Reykjavík og 3,3 stigum á Akureyri, miðað við 1961-1990 . Hitinn í september segir ekkert um hita í október eins og sjá má á myndinni hér að neðan.

setp_okt_rvk_

Hér er meðalhiti í september á láréttum ás, en hiti í október á þeim lóðrétta. Nær engin regla sést í myndinni. Myndir sem af þessu tagi eru gjarnan nefndar haglabyssurit. Oftast er talað niður til aðdáenda haglabyssurita, en það ber auðvitað fordómum vitni. Eina reglan sem er sjáanleg á þessari mynd er sú að tiltölulega hlýir októbermánuðir elta hlýjustu þrjá septembermánuðina. Miðað er við tímabilið 1882 til 2009 í Reykjavík.

sept_til_okt2

Myndin hér að ofan sýnir hitabreytingu frá september til október í Reykjavík 1882 til 2009. Hún er þannig sett upp að talan á lóðrétta ásnum sýnir hversu miklu hlýrri september var heldur en október viðkomandi ár, en árin má sjá á lárétta ásnum. Rauða punktalínan (ef einhver sér hana) sýnir leitnina á þessu tímabili. Hún er engin. Það ætti að tákna að engin breyting hefur orðið á þessum hluta árstíðasveiflunnar allt frá 1882. Róar það einhverja?

Blái ferillinn dregur fram sveiflur innan tímabilsins. Þar er helst athyglisvert að síðustu 15 til 20 ár hefur september verið að tiltölu hlýrri heldur en október enda er það svo að í hlýindum síðustu 15 ára hefur minna hlýnað í október heldur en í öðrum mánuðum. Meðalhiti í október frá aldamótum hér í Reykjavík er aðeins 0,5 stigum yfir meðallaginu 1961-1990,en september hefur verið 1,4 stigum yfir. Er þetta sú breyting á árstíðasveiflunni sem afneitað var í fyrri málsgrein? Ólíklegt er það.

Þrisvar hefur það gerst í Reykjavík á þessu tímabili að hlýrra var í október heldur en september, síðast 1975. Víða norðanlands var október 1979 einnig hlýrri en september. Og auðvitað gerðist það 1882, en þá var október hlýjasti mánuður ársins í Grímsey. Á Akureyri var október 1882 næsthlýjasti mánuður ársins á eftir júlí, en aðeins munaði 0,8 stigum.  

Að meðaltali eykst úrkoma talsvert frá september fram í október. Í Reykjavík er meðaltal októbermánaðar 29% (19 mm) hærra en meðaltal september og á Akureyri er úrkoman í október nærri 50% meiri heldur en í september. Úrkomudagarnir eru þó aðeins tveimur fleiri í fyrrnefnda mánuðinum heldur en í þeim síðarnefnda. Úrkomuákefð er því einnig meiri. Lesendur þessara bloggpistla ættu þó að muna að september hefur á síðari árum verið tiltölulega þurr miðað við lengra tímabil.

Loftþrýstingur fellur um að meðaltali 3 hPa milli mánaðanna tveggja og meðan snjór á jörðu er sjaldgæfur í september á láglendi landsins er algengt í Reykjavík að 1 til 2 alhvítir dagar komi í október. En við lítum vonandi á þann mánuð betur þegar hann er genginn í garð.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • w-blogg230425a
  • w-blogg120425b
  • w-blogg120425a
  • w-blogg080425b
  • w-blogg080425a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.4.): 94
  • Sl. sólarhring: 236
  • Sl. viku: 902
  • Frá upphafi: 2461997

Annað

  • Innlit í dag: 81
  • Innlit sl. viku: 800
  • Gestir í dag: 81
  • IP-tölur í dag: 79

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband