Veðurfræðiorð

Þegar ég fór fyrir löngu að reyna að skrifa um veðurfræði á íslensku rak ég mig fljótt á vandkvæði með þýðingu á ýmsum sérfræðiheitum. Stöðugt bætast ný við. Þegar skólaorðabók Arnar og Örlygs var í undirbúningi á 9. áratugnum (minnir mig) tók Páll Bergþórsson saman lista með um 500 veðurfræðiorðum sem notuð voru sem þýðingar úr ensku. Mörg orðanna voru bæði alþekkt og gömul, sum voru ný af nálinni.

Fyrir rúmum 10 árum tók ég þennan lista traustataki og hóf viðbætur. Um þessar mundir inniheldur listinn um 1500 þýðingar á enskum veðurfræðihugtökum. Nýleg gerð af honum er á heimasíðu Veðurfræðifélagsins aðgengilegur öllum. Einnig hefur aðeins eldri gerð verið aðgengileg hjá Orðabanka íslenskrar málstöðvar, en þar eru margir íðorðalistar sem hægt er að leita í samtímis. Koma þá oft upp fleiri en eitt íslenskt orð sem þýðing allt eftir því sem á við í hinum ýmsu greinum. Ég vona að sem flestir þeirra sem stunda þýðingar noti sér orðabankann.

Listi minn er óttaleg hrákasmíð en hefur samt gefist mér vel. Stór galli er að skýringar á hugtökunum vantar, en skilgreiningar er þó oft hægt að nálgast í erlendum orðasöfnum, t.d. stórgóðu orða- og hugtakasafni bandaríska veðurfræðifélagsins (AMS-glossary).

Margar þýðinganna í lista mínum geta ekki talist góðar, en betri orð skjóta stöku sinnum upp kollinum og fyrri þýðingum er þá hent út. Sum nýyrði þurfa að venjast og verða fljótt lipur á tungu, önnur frjósa einfaldlega úti og verða úr sögunni. Þess ber að geta að ekki er nema lítill hluti orðanna í listanum beinlínis upprunninn í mínum ranni, heldur er þeim flestum safnað saman úr öðrum listum eða þá að reynt er að endurnýta gömul orð. Hér verð ég sérstaklega að nefna orðasafn eðlisfræðinga sem og stjörnufræði- og jarðfræðiorðasöfn sem öll hafa verið gefin út.

Hér er að lokum listi yfir fáein orð og hugtök sem mér finnst ekki hafa fundið sér rétta heimilisfestu í íslensku. Taka má eftir því að í sumum tilvikum virðast beinar þýðingar liggja á borðinu. Ég get fullyrt að svo er ekki, þær þýðingar eru klúður. Vill einhver reyna?

dry slot, 

effective gravity,

effective temperature,

heterogeneous chemistry,

North AtlanticOscillation,

polar low

quasi-geostrophic,

divergence,  

diffluence,

synoptic,

transitive system,

downscaling,

instability,

polar vortex.                  

 

Heimilislausu erlendu veðurfræðiorðin eruauðvitað miklu fleiri. En nóg um þetta að sinni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Polar vortex mætti kalla póliðu.

Freyja (IP-tala skráð) 25.9.2010 kl. 08:12

2 Smámynd: Trausti Jónsson

Þakka þér Freyja. Þessi þýðing kemur vissulega til greina - og hefur verið reynd, en ekki slegið í gegn. Ástæðan er einkum sú að hugtakið iða hefur mjög tæknilega merkingu í veðurfræði og er notað í allmörgum samsetningum sem þýðing á enska orðinu vorticity, mættisiða, hlutiða, jarðiða, sniðaiða, lægðaiða, hæðaiða o.fl. Allt eru þetta í grunninn eðlisfræðileg hugtök, en póliðan er fremur hluti af landafræði lofthjúpsins, risastór háloftalægð sem nær yfir norðurhvel allt suður undir hvarfbaug og svo systir hennar á suðurhveli. En ég prófa þýðinguna betur í huga mér. Okkur veðurfræðingum er svosem engin vorkunn að greina á milli mismunandi eðalis póliðu og annarrar iðu, en það er alltaf spurning um aðra lesendur veðurfræðitexta. En líkurnar á því að hinn almenni lesandi rekist á þessi orð eru auðvitað sáralitlar - nánast engar.

Trausti Jónsson, 25.9.2010 kl. 17:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • w-blogg211224b
  • w-blogg211224
  • w-blogg121224
  • w-blogg111224a
  • w-blogg101224b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 20
  • Sl. sólarhring: 214
  • Sl. viku: 985
  • Frá upphafi: 2420869

Annað

  • Innlit í dag: 15
  • Innlit sl. viku: 864
  • Gestir í dag: 15
  • IP-tölur í dag: 15

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband