Skaflarnir í Skarðsheiði

Fyrir 44 árum, um miðjan september 1966, var ég ungur maður í vegavinnu skammt frá Valbjarnarvöllum í Borgarfirði. Verið var að leggja nýjan veg í gegnum holt og mýrar. Þetta var á þeim tíma sem manni þótti landslag fallegra sem skorið var af snyrtilegum skurðum og beinum veglínum heldur enn hið náttúrulega. Ekki löngu síðar skipti ég um skoðun en man samt þá fyrri sem ekkert allt of þægilega bernskuminningu. En þetta er útúrdúr.

Það var aðallega gott veður þessa daga og Skarðsheiðin blasti við í öllu sínu veldi. Úr holtinu sá ég aðeins fjóra skafla í Heiðinni, sjálfsagt hafa einhverjir til viðbótar leynst í skuggasælum austurgiljum Skessuhorns. Ég ákvað að festa þessa mynd í huga mínum og töluna fjórir. Það sem mér þótti merkilegt við skaflana var að þeir voru ekki hvítir heldur grásvartir, ís þakinn möl og sandi.

Ekki datt mér í hug að 44 ár ættu eftir að líða þar til ég sæi ámóta lítinn snjó á þessum stað. Ég hef fylgst með Skarðsheiðinni á hverju ári síðan, ekki nema á stangli skráð í (vondum) myndum en alltaf borið saman við september 1966. Nú er ástandið svipað, skaflarnir eru minni en alltaf síðan og reyndar er ég ekki frá því að þeir séu nú heldur minni en 1966. En þeir eru ekki eins svartir og þá.

Að undanförnu hefur ekki gefið mjög vel til myndatöku úr fjarlægð, í dag var t.d. talsvert mistur þó bjart væri í lofti að öðru leyti. Ég gerði tilraun til myndatöku frá svipuðum slóðum og ég var staddur á 1966 en hún tókst ekki. En tækifærið mátti ekki alveg líða hjá og því fékk ég hjálparmann á Hvanneyri, Borgar Bragason til að ganga út fyrir og smella nokkrum myndum af fjallinu. Það skal tekið fram að hér eru myndirnar rýrðar - nokkuð langt frá fullri upplausn.

 

IMG_3247-1

Þessi mynd sýnir tvo meginskafla í austurhluta Skarðsheiðar (og örþunnan fyrsta snjó haustsins á brúninni). Ekki sést af myndinni hvort skaflinn til hægri hefur í raun slitnað í sundur eða þá að svarta röndin sé grjóthrun frá liðnum áratugum, svipað og ég sá 1966. Það upplýsist vonandi þegar ég skoða myndina í betri upplausn sem og fleiri myndir sem Borgar tók fyrir um viku er hann hljóp upp á Skessuhorn.

 IMG_3246-1

Hér má sjá Skessuhorn til vinstri og skaflinn í Skessusæti rétt til vinstri við miðja mynd. Skaflinn situr í raunverulegu sæti sem ísavirkni óratíma hefur búið til og líkist jökulbóli. Kannski lá smájökull einhvern tíma í bólinu. Skessan í sætinu.

Ég reyndi talsvert á sínum tíma til að fá upplýst hvort snjórinn í heiðinni hefði horfið haustið 1941 en enginn hefur með vissu getað upplýst mig um hvort svo hafi verið. Sjálfur hef ég vel séð á fyrri sumrum (þegar sjónin var betri) að kjarni skaflanna er úr ís, blágrænum eins og í jöklum. Ekki hef ég burði til að giska á aldur íssins, en mér finnst einhvern veginn ólíklegt að hann sé ekki nema nokkurra áratuga gamall.

Í ferðabók Eggerts og Bjarna er talað um jökulmyndun í Heiðinni ofan Mófellsstaða um 1750. Ég er ekki með þann texta mér við hlið svo ég sleppi því að ræða hann frekar. En þetta er engu að síður merkileg stund fyrir nördið í mér og vonandi fleiri slík.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg231124-kosningaspa-ec b
  • w-blogg23124-kosningaspa-ec a
  • w-blogg211124a
  • w-blogg181124a
  • w-blogg151124c

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 246
  • Sl. sólarhring: 382
  • Sl. viku: 2544
  • Frá upphafi: 2414208

Annað

  • Innlit í dag: 229
  • Innlit sl. viku: 2344
  • Gestir í dag: 225
  • IP-tölur í dag: 223

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband