Íslensk veðurfræðirit: Alþýðleg veðurfræði (1919)

Alþýðleg veðurfræði heitir bók sem kom út 1919, Hún er eftir Sigurð Þórólfsson (1869-1929). Sigurðar er helst minnst sem stofnanda og skólastjóra lýðháskólans á Hvítárbakka í Borgarfirði. Auk bókarinnar skrifaði hann í blöðin um veðurfarsleg efni. Sumt af því er gaman að lesa, einkum þegar hann fjallar um árferði það sem hann upplifði sjálfur. Af bókinni og greinaskrifum má ráða að hann hefur reynt að fylgjast með skrifum um veðurfarssögu eins og hún blasti við mönnum í kringum 1920.  Í Alþýðlegri veðurfræði er getið um ýmsar framfarir í fræðunum frá því að bók Björlings um vinda kom út 1882, en margar eru þó rangfærslurnar. Réttara er að lesa hana í hugmyndasögugír (ef eitthvað þannig fyrirfinnst) fremur en að nota hana sem uppsláttarrit í veðurfræði. Orðaforðinn er heldur nútímalegri heldur en í nítjándualdarritunum og er t.d. talað um lágþrýsti- og háþrýstisvæði rétt eins og nú er gert.   Bókin fjallar í alllöngu máli um veðurfarssveiflur á Íslandi og á meginlandi Evrópu og rekur hugmyndir erlendra manna um þær. Sigurður er fullur efasemda um þær niðurstöður en heldur hins vegar fram þeirri skoðun að tengsl séu milli harðinda hér á landi og sólbletta og ritar um það alllangt mál. Þar sýnir hann gögnum mikinn góðvilja. Gaman er að lesa stuttan kafla um veðurspár og veðráttumerki því Sigurður hefur sjálfur reynt og athugað hvort gömul alþýðutrú á við rök að styðjast eða ekki. Hann segir (bls.64): 
Eg set hér nokkuð af þessum gömlu veðurspám. Þær sem eg hef reynslu fyrir, að byggja má á, eða tel réttmætar, set eg stjörnumerki við, en hinar, sem eg þori engan dóm að leggja á, eru ómerktar. Sum þessi atriði skýri eg lítið eitt.
 Sem dæmi um stjörnumerkt veðráttuábendi má nefna: 
Þegar smáfuglar koma venju fremur heim að bæjum, á vetrum, veit það á snjókomu eða jarðbönn.* Giktveikir menn fá gigtarköst eða stingi á undan illviðrum.*
 Eftirfarandi fullyrðing er ekki stjörnumerkt: 
Sagt er, að eldur logi ver á undan illviðri en vanalega.
 Svo segir: 
Gömul, ábyggileg kona hefur sagt mér, að ávalt hafi borið mikið á koppaþef á undan norðanátt. Þetta getur vel verið rétt, en nú á enginn lengur þennan gamla veðurvita.
 Gleymum skrifum Sigurðar ekki alveg. Í framhaldi má geta þess að fáeinum árum eftir að bók Sigurðar kom út var sýnd í Reykjavík ein vinsælasta revía íslandssögunnar - Haustrigningar. Alþýðleg veðurfræði í fimm þáttum. Því miður hef ég hana ekki undir höndum og get því ekki greint hana.  

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg200125c
  • w-blogg200125g
  • w-blogg200125f
  • w-blogg200125e
  • w-blogg200125d

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.1.): 28
  • Sl. sólarhring: 131
  • Sl. viku: 2475
  • Frá upphafi: 2434585

Annað

  • Innlit í dag: 25
  • Innlit sl. viku: 2199
  • Gestir í dag: 25
  • IP-tölur í dag: 25

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband