Veðurfræðirit á íslensku - þýdd: Um vinda

Skömmu eftir að bókin Eðlisþættir jarðarinnar kom út 1879 gaf Þjóðvinafélagið út þýdda bók um veðurfræði. Hún heitir Um vinda og er eftir C.F.E. Björling háskólakennara í Lundi í Svíþjóð. Ekki er vitað hver þýddi en ég hef heyrt giskað á Sigurð Sigurðarson menntaskólakennara. Sigurður var veðurathugunarmaður dönsku veðurstofunnar í Reykjavík frá því 1880 og til þess að hann féll sviplega frá 1884. Sigurður tók við athugunum af Jóni Árnasyni þjóðsagnasafnara en hann var síðastur í röð athugunarmanna sem tengir voru Vísindafélaginu danska.

Um vinda er mun lengri (um 100 siður) heldur en veðurfræðitexinn í Eðlisþáttum jarðarinnar. Ekki er þar með sagt að hann sé betri. Langir kaflar ættu að lesast með varúð, svipað og á við um bókina Um meteora eftir Magnús Stephensen. Margt er þó gott í bókinni. Ágætlega er t.d. fjallað um mikilvægi veðurspáa og bent á mikilvægi þess að rafmagns-málþráður verði lagður til landsins. Það gerðist þó ekki fyrr en aldarfjórðungi síðar.

Orðanotkun er athyglisverð, engin orð voru til um það sem við nú köllum lægðir og hæðir. Þýðandinn notar fleiri en eitt orð um hvort þessara hugtaka, t.d. loptvogar lágstig, loptlaut og loptiðu um lægðir, en hástigsreiti, lopthæðir og hástigspetti um hæðir. Mér hefur lengi verið í nöp við orðið loftmassiloftfúlga sem þýðandi notar um áþekkt hugtak er skömminni skárra.

Undir lok bókarinnar er fjallað um það sem helst skortir á þekkingu til að veðurspár megi batna. Eftir að hafa rætt um hreyfingar lágstigsreita segir: ´

Þó á þetta enn freklegar heima um hástigsreitina; hvernig á því stendur, að þeir halda opt svo lengi kyrru fyrir á sama stað, svo og hitt, að þeir færast hægt og hægt í ýmsar áttir, það má heita gjörsamlegur leyndardómur enn sem komið er.  

Áhugamenn um sögu veðurfræðinnar ættu að gefa þessari bók gaum, hún er þess virði.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg200125c
  • w-blogg200125g
  • w-blogg200125f
  • w-blogg200125e
  • w-blogg200125d

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.1.): 30
  • Sl. sólarhring: 129
  • Sl. viku: 2477
  • Frá upphafi: 2434587

Annað

  • Innlit í dag: 27
  • Innlit sl. viku: 2201
  • Gestir í dag: 27
  • IP-tölur í dag: 25

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband