Maí og júní

Þær fregnir berast nú frá Bretlandi og Danmörku að meðalhiti (á landsvísu) hafi verið lægri í júní heldur en var í maí. Þetta er harla óvenjulegt. Hin opinberu landsgögn í Danmörku ná aftur til 1871 (miklu lengur hefur þó verið mælt í Kaupmannahöfn) og að sögn danskra fjölmiðla hefur júní aldrei á þessum tíma verið kaldari heldur en maí - fyrr en nú. Svipaða sögu er að segja frá Englandi. Landsmeðalhiti þar nær að vísu ekki jafnlangt aftur, en þeir eiga hins vegar samsetta röð frá Mið-Englandi sem nær allt aftur á 17. öld - lengsta mánaðarhitaröð í heimi. Ritstjóra hungurdiska skilst að á öllu þessu rúmlega þrjú hundruð ára tímabili hafi það aðeins gerst tvisvar að júní hafi verið kaldari heldur en maí, síðast 1833. 

Hérlendis var landsmeðalhiti í júní 1946 lítillega lægri heldur en í maí og eins árið 1928, í báðum tilvikum hafði maí verið óvenjuhlýr. Líklega gerðist þetta líka árið 1851, en þá var mælt á nokkrum stöðvum. 

Þó þetta sé svona sjaldgæft á landsvísu er það samt algengara í einstökum landshlutum eða á einstökum veðurstöðvum. Þannig er það alla vega hér á landi (og nær örugglega í Danmörku og á Bretlandi líka).

Fyrir sjö árum vildi svo til hér á landi að júní varð kaldari heldur en maí á allmörgum veðurstöðvum - en ekki þó á landsvísu. Um þetta tilvik var fjallað á hungurdiskum, tvisvar. Fyrst snemma í júní þegar ljóst var að maí hafði verið óvenjuhlýr, en jafnframt leit snemma í júní ekki vel út með hlýindi. Pistillinn birtist 4.júní, með fyrirsögninni „Júní kaldari en maí?“. Síðari pistillinn birtist svo mánuði síðar, 3. júlí, þá með fyrirsögninni „Júní kaldari en maí á nokkrum veðurstöðvum“. Ekki er ástæða til að endurtaka efni þessara pistla í smáatriðum hér (smellið á tenglana til að rifja þá upp). 

Venjulega er júní talsvert hlýrri heldur en maí. Á landinu í heild munar um 3,2 stigum á meðalhita mánaðanna. Mest hlýnar að jafnaði á Miðhálendinu, um 4,6 stig að meðaltali. Það stafar væntanlega af því að snjór hverfur oftast þaðan seint í maí eða í júní. Hlýindi í maí fara fyrst og fremst í að bræða snjó og tefur það hlýnun. Minnst hlýnar milli mánaðanna á Suðausturlandi og Austfjörðum, um 2,7 stig að meðaltali. 

Á þessu ári, 2024, var meðalhiti í júní lægri heldur en í maí á einni veðurstöð, Vatnsskarði eystra. Þar munaði 0,2 stigum. Meðalhiti var sá sami í mánuðunum tveimur í Bjarnarey og í Ásbyrgi. Mest hlýnaði milli mánaða á hálendinu, júní var 3,4 stigum hlýrri en maí í Þúfuveri og 2,9 stigum hlýrri við Setur. Þessi munur er þó undir meðallagi - því sem minnst var á hér að ofan. Munur á landsmeðalhita mánaðanna var 1,3 stig, einnig undir meðallagi. 

Það ber einna oftast við austanlands og norðan að júní sé kaldari heldur en maí. Í Reykjavík þurfum við að fara allt aftur til ársins 1851 til að finna slíkt tilvik, í Stykkishólmi aftur til 1946, á Akureyri aftur til 1991 og aftur til 1998 á Egilsstöðum. 

Júlí er á landsvísu langoftast hlýrri heldur en júní, í 94 prósent tilvika síðustu 200 ár (13 tilvik), síðast í fyrra, en þar áður ekki síðan 1970 og svo líka 1963.  Um þetta má lesa nánar í pistli frá því 3. ágúst í fyrra: Júlí kaldari heldur en júní - en hver nennir svosem að lesa alla þessa gömlu pistla? Er aldrei komið nóg?


Bloggfærslur 3. júlí 2024

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Júlí 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30 31      

Nýjustu myndir

  • w-blogg050724e
  • w-blogg050724d
  • w-blogg050724
  • w-blogg050724b
  • w-blogg050724a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (6.7.): 328
  • Sl. sólarhring: 525
  • Sl. viku: 2854
  • Frá upphafi: 2372026

Annað

  • Innlit í dag: 309
  • Innlit sl. viku: 2562
  • Gestir í dag: 304
  • IP-tölur í dag: 292

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband