Smávegis kuldametingur

Það er óvenjukalt á landinu þessa dagana, sólarhringsmeðalhiti gærdagsins (10.mars) var -9,3 stig í byggðum landsins. Við eigum samt slatta af kaldari marsdögum á lager, en þó engan eftir aldamót. Í mars 1998 voru fimm dagar kaldari en gærdagurinn. Líklega verður enn kaldara í dag (11.mars). Það er því varla kominn tími á að gera þetta kuldakast upp. 

w-blogg110323a

Hér má sjá hádegisgreiningu evrópureiknimiðstöðvarinnar á þykktinni (heildregnar línur) og hita í 850 hPa-fletinum á hádegi í dag (11.mars). Þykktin yfir miðju landi er ekki nema 405ö metrar. Það er ekki oft sem svona lágar tölur sjást yfir landinu. Þykktarbratti er nokkur - yfir Kaflavík er þykktin t.d. um 4 metrum hærri heldur en yfir landinu miðju. Við eigum til þykktarathuganir yfir Keflavík aftur til 1952. Ámóta lágar tölur hafa þar nokkrum sinnum sést í mars, síðast í kuldakastinu mikla 1998. 

Við eigum líka samanburð lengra aftur, með aðstoð endurgreininga. Hafa verður þó í huga að þær eru ekki mjög nákvæmar, við höfum bandarísku endurgreininguna t.d. grunaða um að vera lítillega of hlýja miðað við núverandi líkan evrópureiknimiðstöðvarinnar og örugglega of hlýja förum við meir en 100 ár aftur í tímann. 

Þrátt fyrir þennan óvenjulega kulda stendur þannig á spori að langt er í lágmarksmet í einsökum þrýstiflötum yfir Keflavík. Við erum næst meti í neðstu flötunum, 925 og 850 hPa, en langt frá þeim í 700 (3 km hæð) og 500 (5 km hæð).

Það er í raun allt of snemmt að vera að skrifa eitthvað hér um þetta kuldakast - ekkert er útséð um það - (ritstjóri styður á „vista og birta“ og stendur síðan upp - án þess að hneigja sig eða biðjast afsökunar). . 

 


Fyrstu tíu dagar marsmánaðar

Fyrstu tveir dagar mánaðarins voru nokkuð hlýir, en síðan hefur staðið samfellt kuldakast. Meðalhiti fyrstu tíu dagana er -0.9 stig í Reykjavík, -1,2 stigum neðan meðallags 1991 til 2020 og -1,6 stig neðan meðallags síðustu tíu ára. Hitinn raðast í 20. hlýjasta sæti á öldinni (þrisvar sinnum hafa sömu dagar verið kaldari). Kaldast var 2002 og 2009, meðalhiti í báðum tilvikum -2,1 stig, en hlýjast 2004, meðalhiti þá +6,3 stig. Á langa listanum er hiti nú í 97. hlýjasta sæti (af 151). Kaldastir voru þessir sömu dagar 1919, meðalhiti -9,9 stig, en hlýjastir voru þeir 2004 eins og áður sagði, meðalhiti +6,3 stig.
 
Meðalhiti fyrstu tíu daga mánaðarins á Akureyri er -1,6 stig, -0,6 stigum neðan meðallags sömu daga 1991 til 2020 og -0,7 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára.
 
Það hefur verið kaldara að tiltölu austanlands heldur en vestan. Á Vestfjörðum raðast hitinn í 14. hlýjasta sæti aldarinnar, en á Austfjörðum og Suðausturlandi er hann í næstneðsta sæti. Á einstökum veðurstöðvum hefur að tiltölu verið hlýjast á Möðruvöllum í Hörgárdal, þar er hiti fyrstu 10 dagana í meðallagi síðustu tíu ára, en kaldast á Höfn í Hornafirði þar sem hiti hefur verið -2,8 stigum neðan meðallags.
 
Sérlaga þurrt hefur verið á Suður- og Vesturlandi. Aðeins hafa mælst 1,5 mm í Reykjavík. Nokkrum sinnum hefur úrkoma mælst minni í Reykjavík sömu daga, síðast 2018 þegar hún var aðeins 0,1 mm. Á Akureyri hefur úrkoman til þessa mælst 13,6 mm og er það um 75 prósent meðalúrkomu þar.
 
Sólskinsstundir hafa mælst 51,8 í Reykjavík, um 19 fleiri en í meðalári, en hafa þó 10 sinnum mælst fleiri sömu almanaksdaga. Á Akureyri eru sólskinsstundirnar nú orðnar 20,4 og er það í meðallagi.
 
Loftþrýstingur hefur verið óvenjuhár það sem af er mánuði. Meðaltalið er nú 1026,4 hPa í Reykjavík og hefur aðeins tvisvar sinnum verið hærra sömu daga síðustu 202 árin. Það var 1847 og 1962.
 
Hiti fór ekki upp fyrir frostmark á landinu í gær (10.) og ekki heldur þann 7. Þannig var einnig um þrjá daga í desember. Hin síðari ár hafa dagar sem þessir verið mjög fáir, t.d. voru þeir aðeins tveir samtals á átta árum, 2014 til 2021.
 
Lágmarkshiti í Reykjavík í nótt (aðfaranótt 11.mars) var -14,8 stig, á kvikasilfursmælinn fór frostið í -14,6 stig. Þetta er óvenjumikið frost. Spurt var hvert væri mesta frost sem mælst hefði í mars í Reykjavík. Það er -22,1 stig sem mældust 22. mars 1881. Um þær mundir fór frostið í meir en -20 stig þrjá daga í röð. Ellefu árum síðar, þann 9. mars 1892 mældist frostið -20,5 stig í Reykjavík. Mesta frost í Reykjavík í mars síðustu 100 árin er -16,4 stig, þann 9. mars 1969. Daginn áður mældist það -16,3 stig - þetta verður þó að teljast sama tilvikið. Þann 7.mars 1998 mældist frostið í Reykjavík -14,9 stig - ómarktækt meira en nú.

Bloggfærslur 11. mars 2023

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • w-blogg120324a
  • w-blogg080324a
  • w-blogg010324c
  • w-blogg010324b
  • w-blogg010324a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.3.): 11
  • Sl. sólarhring: 76
  • Sl. viku: 979
  • Frá upphafi: 2341353

Annað

  • Innlit í dag: 10
  • Innlit sl. viku: 897
  • Gestir í dag: 10
  • IP-tölur í dag: 10

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband