Staða dagsins

Þorkáksmessa hefur verið heldur kuldaleg í ár. Í tilefni af því má kannski rifja upp að fyrir nokkrum árum reiknaði ritstjóri hungurdiska út sér (og einhverjum lesendum) til gamans hversu mikið hver einstakur dagur ársins hefði hlýnað frá því að hitamælingar hófust í Stykkishólmi 1846. Langflestir dagar hafa hlýnað, örfáir kólnað - og Þorkáksmessa langmest. Sömuleiðis er merkilegt að undanfarna áratugi hafa dagarnir fyrir jól að meðaltali verið þeir köldustu á vetrinum (ekki er þó marktækur munur á þeim og fleiri dögum).

Vindur hefur í dag verið öllu meiri en undanfarna daga, þótt ekki sé beinlínis hægt að tala um illviðri. Skafrenningur hefur þó verið sums staðar á vegum og líkur virðast á að heldur herði á vindi og jafnvel úrkomu líka, einkum þó um landið norðvestanvert og er (skammvinn) appelsínugul viðvörun í gildið á Vestfjörðum í fyrramálið. Við skulum líta á stöðuna eins og hún kemur fram á kortum evrópureiknimiðstöðvarinnar nú í kvöld.

w-blogg231223a

Heildregnu línurnar sýna sjávarmálsþrýsting. Alldjúp lægð er á hraðri leið til austurs fyrir sunnan land, en skammt norðvestan við land er lægð eða lægðardrag á leið til vesturs og suðvesturs. Þrýstilínur eru nokkuð þéttar vestan við hana og gengur sá strengur suðvestur um Vestfirði þegar lægðin fer hjá. Hún mun þó að mestu gufa upp yfir landinu - en strengurinn lifir hana. Þegar hann fer hjá snýst vindur úr norðaustri meira í hánorður. Litirnir á myndinni sýna 3 klukkustunda þrýstibreytingar, þeir rauðu fall, en þeir bláu ris - og sýna jafnframt hreyfingar kerfanna. 

Uppi í miðju veðrahvolfi (500 hPa9 er staðan aðeins öðru vísi. Gildistími sá sami og á kortinu að ofan.

w-blogg231223b

Ísland (nokkuð óskýrt) á miðri mynd. Suðvestanátt er á landinu (vindörvar og lega jafnhæðarlína) - alveg öfug við það sem er á kortinu að ofan. Dálítil háloftalægð er við Vestfirði. Henni fylgir mikill kuldi, fjólublái liturinn byrjar hér við -42 stig. Lægðin er á leið til austsuðausturs. Þeir sem skynja veður vel hafa ábyggilega fundið að veðrið í dag hefur verið ólíkt því sem verið hefur undanfarna daga, alla vega um landið vestanvert. Snjó hafur slitið úr lofti við Faxaflóa - jafnvel þótt norðaustanátt sé - slíkt ástand er ekki alveg „eðlilegt“. 

Svo vill til að þetta kuldakerfi er ekki mjög fyrirferðarmikið og ekki sérlega illkynja - en samt á að gefa öllu slíku gaum. Ákveðin alvara á ferð. 

Svo virðist helst að kuldapollarnir stóru ætli enn að halda sig fjarri landinu - kannski senda okkur fáeina afleggjara eins og þann í dag á nokkurra daga fresti. Heimskautaröstin komst nokkuð nærri okkur fyrr í vikunni, en við sluppum samt alveg við öll illindi hennar - þau fór suðaustur á Norðursjó og allt suður í Alpa - og glitský sáust á Ítalíu, sem mun harla óvenjulegt. 

w-blogg231223c

Kortið sýnir stöðuna á norðurhveli eins og evrópureiknimiðstöðin telur hana verða síðdegis á jóladag. Aðeins einn fjólubláan lit er að sjá, dreifðan í línu frá Grænlandi, yfir norðurskautið og til Austur-Síberíu. Kuldapollarnir í veikbyggðara lagi og sá vestari, Stóri-Boli varla svipur hjá sjón. Þrátt fyrir þetta virðumst við samt eiga að vera áfram vetrarmegin í tilverunni, engin hlýindi í sjónmáli - heldur munu skiptast á vægir hæðarhryggir og köld lægðardrög. Rétt að sofna samt ekki á verðinum því hlutir geta gerst mjög hratt. 


Bloggfærslur 23. desember 2023

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg050125a
  • w-blogg040125ia
  • w-blogg040125b
  • w-blogg040125a
  • w-blogg020125a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (7.1.): 39
  • Sl. sólarhring: 703
  • Sl. viku: 3788
  • Frá upphafi: 2428619

Annað

  • Innlit í dag: 31
  • Innlit sl. viku: 3380
  • Gestir í dag: 30
  • IP-tölur í dag: 29

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband