Af árinu 1783

Árið 1783 varð mikið örlagár í sögu þjóðarinnar. Þá varð gríðarlegt eldgos á Síðuafrétti, kennt við móbergsfjallið Laka. Upp komu um 15 rúmkílómetrar af hrauni sem þekja meir en 500 ferkílómetra lands. Einnig komu upp ókjör brennisteins- og flúorefna og fleira. Þykk gosmóða lagðist yfir landið og barst til annarra landa, jafnvel norðurhvels alls. Eiturefnin spilltu grasvexti og gróðri. Hin rýra uppskera var eitruð og búfénaður veslaðist upp - og fólk í kjölfarið. Þetta voru nefnd „móðuharðindi“. Talið er að um það bil fimmtungur þjóðarinnar hafi farist í kjölfar gossins. Gosið hófst snemma sumars, afskaplega óheppilegur árstími fyrir jarðargróður. Velta mætti vöngum yfir því hvernig farið hefði ef gosið hefði hafist á öðrum árstíma - verðugt rannsóknarefni í hættumatspælingum. 

Mikinn fróðleik um gosið og mengunina sem því fylgdi má finna í ritgerð Þorvaldar Þórðarssonar og Stephen Self, „Atmospheric and environmental effects of the 1783–1784 Laki eruption: A review and reassessment“. 

Annað merkilegt gos varð sama vor, undan Reykjanesi. Kom þar upp eyja, en hún varð ekki varanleg. Sögusagnir voru einnig um gos annars staðar vestur af landinu, en það getur varla verið rétt. Margskonar ruglingur kom upp í fréttaflutningi milli manna.  

Veðurfar var heldur óhagstætt, en þó varla verra heldur en næsta ár á undan. Vorið var einna skást og eins komu sæmilegir kaflar um sumarið. Ekki hefði farið alveg jafnilla ef brennisteinn og flúor hefðu ekki leikið lausum hala. Haustið varð erfitt og veturinn sem á eftir kom sömuleiðis og hefur aukið á vandræðin. Ekki vitum við hvort það veðurlag tengdist jarðeldinum beinlínis. Ekki er það alveg víst. 

Reglulegar hitamælingar voru gerðar í Lambhúsum á Álftanesi. Þær eru ekki gallalausar, en þó miklu betri en ekkert. Viku af ári var þar skipt um hitamæli. Nýi mælirinn sýndi hærri tölur en sá fyrri. Líklega var síðari mælirinn of hár, en sá fyrri réttari. Ritstjóri hungurdiska treystir sér þó ekki til að leiðrétta þetta á einn eða annan hátt. Hnik mælisins er alla vega miklu minna heldur en bæði hitabreytingar frá degi til dags sem og árstíðasveiflan. Almennt hitafar, kuldaköst, hlýir dagar og þess háttar kemur vel fram. Hafa verður í huga að töluverður hafís var við land, eins og títt var á þessum árum og því væntanlega töluverður munur á hitafari við sunnanverðan Faxaflóa og í útsveitum nyrðra, eins og venjulega er við slíkar aðstæður. Höfuðborgarsvæðið er betur varið fyrir áhrifum hafíssins heldur en allir aðrir staðir landsins. 

arid_1783t-lambhus

Við sjáum hér afskaplega órólegan vetur, allt fram í apríl. Skiptist á frost og þíða á fárra daga fresti. Frost var þó aldrei mjög mikið. Ritaðar heimildir tala illa um þennan vetur - allt fram á miðjan einmánuð (snemma í apríl). Áfreðar virðast hafa verið meira vandamál heldur en hörð frost. Það er því ekki rétt að halda því fram að veður hafi umturnast til hins verra með eldgosinu - eins og einfaldar frásagnir halda gjarnan fram. Við munum líka af yfirferð hungurdiska um árið 1782 að það var mjög óhagstætt. Eins og mælingarnar sýna voru frost ekki mikil syðra og jarðir að sögn betri en norðanlands. Það virðist hafa vorað þokkalega - þó við fréttum síðar í þessum pistli af slæmum hretum nyrðra.

Sumarið var ekki kalt syðra - en það var stutt, því lauk fyrstu daga septembermánaðar. Þá gerði hríð fyrir norðan, en syðra virðist hafa verið öllu skárra. Að morgni 11. ágúst var jörð hrímuð í Lambhúsum og Lievog segir að jörð hafi líka verið hrímuð í morgunsárið 2. september og þann 7. hafi verið þriggja lína (7 mm) þykkur ís á vatni. Snemma í október gerði verulegt kuldakast - og síðan tvö önnur síðar í þeim mánuði og í fyrri hluta nóvember. Lievog segist hafa hýst kýr 2. október enda hafi þá síðdegis orðið alhvít jörð. Tíminn frá miðjum nóvember til miðs desember var til þess að gera hlýr, en rétt fyrir jól kólnaði verulega. Stöðugir umhleypingar gengu. 

Mistur er áberandi í veðurathugunum Lievog frá og með júnímánuði og þar til í nóvember, en hafði varla verið getið næstu árin á undan, og árin á eftir bar ekki mikið á slíku. Það var mest frá 17. júní og fram í miðjan september. Var einnig nokkuð algengt í nóvember. Hann nefnir mistrið í athugasemdum og að það hafi væntanlega komið frá eldsumbrotunum eystra og bætir síðan við: „hvoraf her undertiden er fornnemmet dunkle stöd langt borte“ (að stöku sinnum hafi orðið vart við dimman undirgang úr fjarlægð“ - hvort „stöd“ er hér undirgangur eða jarðhræring er ritstjóri hungurdiska alls ekki viss um. Hann getur 2 til 3 slíkra sérstaklega 17.júlí kl. 3 til 4 síðdegis og nokkurra jarðskjálfta 2. ágúst. 

Í grein í tímaritinu Jökli (1986) [Climate of Iceland 1701-1784] dregur Astrid Ogilvie saman umfjöllun sýslumanna og stiftsamtmanns um veðurfar ársins 1783 og verður sú samantekt ekki endurtekin hér - aðeins vísað á hana. [Þar er þýtt úr dönsku yfir á ensku og ritsjórinn leggur ekki í að nota enskuna sem millimál - hann hefur ekki séð frumtextann]. Athugið samt að þar er minnst á allnokkur atriði sem ekki eru nefnd annars staðar. 

Sveinn Pálsson bjó enn á Hólum í Hjaltadal en var talsvert í ferðalögum, fór á vertíð syðra og síðar í skreiðarferð, en flutti loks suður í október. Hann lýsir veðri þar sem hann er flesta daga í dagbók sinni. Við höfum hér ekki leyfi til að birta alla dagbókaruppskrift Haraldar Jónssonar í Gröf hér - vonandi að hún verði gefin út um síðir. Óhætt mun samt að vitna í nokkur atriði.

Í janúarlok fór Sveinn suður og segir þann 31. að nóg jörð sé fyrir sunnan, og aldeilis snjólaust sunnan Reynivalla. Í maílok fór Sveinn aftur norður og segir þann 31. maí að nyrðra hafi gengið þurrkar í allt vor, snjór vel upptekinn, en hafís útifyrir. Þann 5. júní gekk til norðurs og aðfaranótt 6. alsnjóaði, tók upp í sveit, en snjóaði aftur nóttina eftir. Mjög kalt var til og með þess 13. Upp úr því fór að bera á mistrinu. Þann 29. var mistrið svartast, gert var heit við Reykjakirkju og daginn eftir var fagurt sólskin og misturlaust - en það kom fljótt aftur. 

Þann 4. júlí fór Sveinn aftur suður og var oftast kalt í þeirri ferð. Hann getur þess að aðfaranótt þess 9. hafi snjóað í fjöll, séð úr Fossvogi. Fréttir af gosinu voru heldur óljósar, m.a. nefnir hann í færslu þann 14. júlí að eldur hafi sést frá Húsafelli úr Langjökli eða Eiríksjökli. Menn vissu varla hvað var á seyði því bjarmi frá eldinum hefur sést mjög víða. En fréttir bárust af eyðingu Síðu vegna eldgangs úr Skaftárgljúfri, Kötlugjá og öðrum eldstöðum (eins og þar segir). Þann 22. júlí var Sveinn aftur kominn norður. Þann 27. var þar norðan krapi og kuldi. Þann 5. september var norðan kuldi og nóttina eftir alsnjóaði. Þann 14. er aftur heljar kuldi, frost og fjúk. Minna var hins vegar um mistur, ekkert slíkt frá 17. til og með 29. 

Þann 16. október fór Sveinn enn suður og nú til langdvalar. Hann og félagar hans komust ekki að Nesi (við Seltjörn) fyrr en 11. nóvember eftir langsetur og veðurteppur, en ekki mikla hrakninga. Í hlákunni um miðjan október komu þeir að Blöndu á heiðum uppi, en áin var í vexti og ófær. Það þýddi 3 daga bið. Eftir viku ferð (þann 23.) komust þeir að Kalmanstungu og síðan að Húsafelli þar sem þeir voru í marga daga. Snjóaði og skóf suma dagana, en heiðríkt var á milli. Þegar þeir loks komust að Reykjadalsá var hún ófær - og síðan aftur Andakílsá - og þurftu þeir að fara upp að Fitjum í Skorradal til að komast suður um. Þann 11. nóvember komust þeir loks að Nesi við Seltjörn, eftir nærri 4 vikna ferðalag. Í nóvember og desember lýsir Sveinn miklum umhleypingum, regni, krapa og snjó á víxl. Þann 28. nóvember var þrumuveður [sem Lievog einnig nefnir]. 

Frásagnir annála af veðri eru ekki sérlega nákvæmar þetta ár, víð lítum á þær - og skiptum eftir árstímum til að gera samanburð auðveldari. Textinn er fenginn úr útgáfu Bókmenntafélagsins - hef í stöku tilviki hnikað til stafsetningu (enda gerir útgáfan það hiklaust líka - ósamræmt). 

Vetur: 

Vatnsfjarðarannáll yngsti [vetur]: Vetrarveðrátta frá nýári og fram á miðjan einmánuð mjög óstöðug og hörð, með stórkostlegum og sterkum frostum, samt köföldum, miklum hafísum og ísalögum, sem uppfyllti allar víkur og fjörður norðanlands og víðast um Vestfjörður, vegna hvers 2 hafskip urðu um veturinn að liggja, það eina á Djúpavogi fyrir austan, sem illa hafði tilreiðst í ísnum, og hitt annað á Akureyri, sem hér hefðu ei annars eftir legið. Af þessu orsökuðust allmikil harðindi í fyrrnefndum plássum, einkum 2 norðustu sýslum, hvar fjöldi fólks uppflosnaði. Um mitt landið og Suðurland var veturinn miklu betri og þar ávallt nógar jarðir.

Úr Djáknaannálum [vetur]: Vetur mjög harður um Norður- og Vesturland vegna áfreða, ísinga og snjóþyngsla, kom hann á með nýári fyrir norðan, enn fyrri vestra og víðar, og batnaði með aprílmánuði; gjörði jarðbönn með þrettánda fyrir norðan en víða annarstaðar fyrri. Hestar tóku að falla á þorra og sauðfé úr megurð á góu, og sumir skáru þá niður fé sitt og kýr nokkrar, sérdeilis í Kollafirði, Bitru og Hrútafirði vestan til. Nokkrir urðu hestlausir, því heyskortur varð allvíða vegna þess mikla grasbrests sumarið áður. Í seinustu viku þorra tók að gjöra öðruhverju fjúkhríðir – því þangað til voru staðviðri þó jarðbönnin væru- þó hélst á góu og til 1tu viku einmánaðar svo fáir dagar voru fjúklausir til kvölds. Kölluðu margir þennan vetur Skerpil, og hafði ei slíkur þyngslavetur komið síðan Hreggvið 1754. ... Á góu var búið að eta 30 hrossa á Langanesi.

Á öskudaginn (5. mars) skiptapi með 8 mönnum á Seltjarnarnesi. Litlu síðar annar frá Hvalnesi með 6 mönnum.

Höskuldsstaðaannáll [vetur]: Veturinn var eftir það graslitla sumar [1782] hér fyrir norðan einhver hinn harðasti og strangasti með frostum, fjúkhríðum og jarðbönnum víðast. Allsjaldan gaf til kirkna frá miðjum vetri, þar til batnaði og hlánaði vel 5. apríl í miðjan einmánuð. Hross féllu víða.

Viðauki Íslands Árbókar [vetur]: Vetur mjög harður allt til miðs einmánaðar, að batnaði.

Espihólsannáll [vetur]: Vetur frostamikill með hörkufrostum og áfreðum, so menn mundu ei slíkt, og harðnaði því meir, er útá leið. Frusu tún mjög. ...

Ketilsstaðaannáll [vetur]: Vetur harður með miklum frostum og áfreðum fyrir norðan og austan, batnaði með apríl. Á Suðurlandi uppkomu jarðeldar úr sjó fyrir sunnan Geirfuglasker, hvar þeir uppskutu einu stóru skeri eður eylandi sem strax var kóngi markað, en sökk litlu þar eftir.

Vor:

Vatnsfjarðarannáll yngsti [vor]: Eftir miðjan einmánuð batnaði veðuráttan, gjörði æskilegt og gott vor með gróða miklum fram til hvítasunnu, svo teiknaði til eins besta grasárs. ... en þessi góða vorveðurátta endaðist með maímánuði, því á sjálfa hvítasunnu, eður þann 8. júní, uppkom sá stóri og ógnarlegi eldgangur og bruni í Skaftafellsýslu vesturparti, af hverju hún að vísu hafði hina mestu foreyðslu, en þó landið allt í sama máta frábært tjón og skaða. ... Eldur brann ogso í sjónum fyrir Suðurlandi, nokkru (s406) áður en hann út brast í Skaftafellssýslu og sást margar mílur að af þeim sjófarandi með skelfilegum uppstígandi reyk samt ógnamiklum fljótandi vikurkolum á sjónum hér um 20 til 30 mílur vegar. Hér upp skaut ogso einni ey fyrir utan Geirfuglasker undan Reykjanesi syðra, í hverri einninn mikill eldur brann millum stórra kletta á henni og útspjó miklum vikur á hafið, en hún hvarf aftur sama ár. Að eldur ogso brunnið hafi annaðhvert í hafinu norðvestan fyrir landinu eða í Grænlands austurbyggð, er ei ólíklegt, þar eð öskurykið og því fylgjandi dimma og ólyfjunarfýla var hér á Vestfjörðum alltíð mest, þá vindurinn stóð af norður- eður norðvesturhafi, en hvað ýmsir útlenskir töluðu um ey nokkra langa, er þeir þóttust séð hafa hér utan fyrir, vissu menn engan sann til eður vildu mark á taka. ... (s407)

Úr Djáknaannálum [vor]: Með Apríl gjörði hláku og mikla vatnavexti svo menn mundu ekki slíkt, féllu þá skriður og skemmdust mjög tún á ýmsum bæjum í Húnavatnssýslu svo sem á Strjúgsstöðum og Litlu-Leifsstöðum, hvar þau að mestu tók af, en skemmdust á Geitissskarði, Bergstöðum og Flögu. Vatnagangur gjörði og skaða víða á engjum og úthaga og sumstaðar hljóp hann í heygarða og bar þaðan heyið. Vorið mjög óstöðugt og úrfellasamt til sumarmála, svo bæði var fjúk og regn sama dag, batnaði þá og viðraði sæmilega til Hallvarðsmessu [15. maí]. Komu þá norðanstormar, en þó frostlitlir, kólnaði í fardögum, og rak þá inn hafís á fjörðu; hann kom fyrst að Norðurlandi í mars og vofraði fyrir fram í ágúst. (s243)

Þann 10. maí týndist bátur af Álftanesi syðra með 6 mönnum. .... 13. sama mánaðar skiptapi í Dýrafirði með 7 mönnum í ófæru veðri á heimsiglingu frá fiskimiðum. (s247) ... Um vorið skipreiki á Ströndum ... hvoldi þá skipinu, drukknuðu 2, en aðrir 2 komust á kjöl og varð hjálpað af öðru skipi.

Höskuldsstaðaannáll [vor]: Páskadaginn síðasta sunnudag í vetri [20. apríl] stórhríð. Vorið í betra lagi, þó oft frostasamt. ... Skiptapar á Seltjarnar- og Hvalnesi. Á einu 8 menn og á öðru 6 menn, og enn þar til tveggjamannafar etc. Stórharðindi norður í Þingeyjarsýslu af grasleysi fyrirfarandi sumars og aflaleysi, Þrjár kýr eftir á Sléttu og viðlíkt á Langanesi og fólk frágengið. Varð úti giftur maður búandi í Miðfirði [bóndi á Fremri-Torfustöðum, 20. febrúar] (s591) ... Hafísinn kom að Norðurlandi í mars og hraktist til og frá fram í ágúst. (s592) ... Vor þessa árs var, sem áður er sagt, viðunanlegt, þó stundum frost.

Viðauki Íslands Árbókar [vor]: Vor í meðallagi gott. Kom hafís fyrir norðan. Varð og eins vart við hann í Austfjörðum, hvar af orsakaðist mikið gróðurleysi um vorið. (s104) ...

Sumar:

Vatnsfjarðarannáll yngsti [sumar]: Sumarið var nú, sem áður er sagt, hið ávaxtarminnsta, heyfengur ærið lítill, óhollur og ólyfjunarsamur ... 

Úr Djáknaannálum [sumar]: Sumarið þurrt og kalt, einkum frá því í september byrjaðist, var eftir það jafnast frost á nóttum. ... Gras spratt í minnsta máta og miklu minna en fyrra árið, og það lítið sem af því kom, brann af og visnaði aftur svo hvítnaði andlit jarðar af því ógnarlega mistri og svælu, sem gekk yfir allt land, er svo var svart, að í heiðbjörtu veðri eftir sólstöður sáu menn í grillingu frá sér ekki nema bæjarleið. Sólin varð að sjá blóðrauð gegnum mistrið, einkum kvölds og morgna, fylgdi myrkri þessu ódaunn og brennisteinsfýla ákafleg, hvað allt saman hleypti þeirri ólyfjan í jörðina og grasið að peningur þreifst ekki, málnyta missti mjólk og sumar skepnur voru naumlega mergjaðar um haustið. Á Akranesi var gras í meðallagi.

Um sumarið fórst skip við Drangeyju, komst af 1 stúlka, en 3 drukknuðu. ... Þann 3. september urðu 3 skiptapar í Sýrdalsvogum í Vaðlaþingi, drukknuðu 12 menn, en 6 komust af, mjög örkumlaðir, lágu svo dauðvona af meiðslum og kulda lengi síðan og dó 1 þeirra. ...

Höskuldsstaðaannáll [sumar]: Oftar sólskin og blíðviðri til Vitus sem var trinitatis [15. júní]. Þar eftir kom mikið mistur, móða og dimma í loftið hvarvetna, svo varla sá stundum sól í heiðskíru. En eftir sólhvörf, 21. júní, kom votviðri og regn með þoku. Hvítnaði þá andlit jarðar. Grasið visnaði upp, sem brunnið væri. Málnytjan missti mjólk. Sól var að sjá sem blóðrauð væri, sérdeilis kvöld og morgna, í gegnum þá móðu og mistur. Grár sandur sást af nokkrum fjölum, sem úti (s593) voru, og á útbreiddum pappír. ... Brennisteinn, sem féll yfir jörðina, fordjarfaði og brenndi grasið og varð málleysingjum og mönnum að óheilnæmi. Þessi brennisteinn má vissulega hafa komið austan úr þeim eldsbruna, sem þar gekk óvenjulegur, og féll hann yfir mestan part Norðurlands millum Hrútafjarðarár- og Þingeyjarfljóts, en ekki á Suður- né Vesturland (að sagt var). Það mátti kalla grasbruna- (eður brennisteins-) sumar. Var grasvöxtur og heyskapur meir en helmingi minni og síðri en hið fyrra sumar. Kvikfénaður tók lítt bata, sauðkindurnar merg- og mörlitlar. Oft um sláttutíð kalt og vott, en það litla brunagras þurfti ei mikinn þurrk.

Haust og vetur til áramóta. Þess má geta að þann 30. september (daginn eftir Mikjálsmessu) var sunnanátt, hlýindi og rigning í Lambhúsum. Ef til vill hefur þá verið norðaustanátt og kuldi á Vestfjörðum og síðar vestanverðu Norðurlandi, það var ekki fyrr en 2. október sem verulega kólnaði syðra - og þá snjóaði þar líka eins og áður er getið. 

Vatnsfjarðarannáll yngsti [haust og vetur til áramóta]: Haustið hart og snjóhríðasamt, því frá 2. september og fram undir Michaelismessu [29. sept] linnti aldrei snjóum, þaðan af veðurátta óstöðug, köld og óholl, með kafaldshríðum, frostum og á millum jarðbönnum árið út. (s408)

Úr Djáknaannálum [haust og vetur til áramóta]: En á Mikaelismessu [29. sept.] gekk upp bliku úr útsuðri, gjörði þá um kvöldið norðan stórregn, sem varaði frek 2 dægur svo öll hús drupu, hleypti síðan í frosti með kófi og ofviðri, lagði þá ár, vötn og firði; hélst þessi veðrátta með kafhöldum, hörkum og stundum bráðviðri af norðri fram yfir allraheilagramessu [1. nóv.]. Hlánaði þá og gjörði góðan bata, er varaði til jólaföstu, tók þó hvörgi nærri upp snjó þann, er kominn var í lautir, sem var næsta mikill. Hófust aftur harðindi, þá vika var af jólaföstu með spillingarblotum og útsynningsfjúki, svo haglaust var orðið á jólum; tók þá að gjöra norðan áhlaupshríðir. Heynýtingin var og bág sumstaðar, því fjúk gengu stundum um sumarið, svo ei varð starfað að heyverkum, sérdeilis þann 4. og 5. september. Var þetta sumar kallað Myrka- eða Svælusumar. (s244) ... Norðurpartur Þingeyjarsýslu eyddist nær því um haustið af lifandi pening og fólk flosnaði upp og fór að flakka og fólk nokkurt dó úr vesæld fyrir norðan. ... Um haustið var lömbum víða gjörfargað og mörgum kúm vegna heyleysis. Á Þorláksmessu fyrir jól í áhlaupi hraktist fé hérum á 20 bæjum í Húnavatnsþingi fyrir vestan kvíslar og á flestum bæjum í Svínadal fannst sumt aftur dautt og lifandi, en sumt aldrei. Og á jóladagskvöldið lágu menn sumstaðar úti með fé sínu og kólu. ... Þetta vor komu eldar miklir upp úr hafinu fyrir Reykjanesi syðra, skaut þar upp skeri eður eyju með klettahæðum rúma viku frá landi. (s245).

Á föstudag seinastan í þorra (20. febrúar) gjörði snögglegt áhlaup, varð þá úti Jóhannes Guðmundsson, Ásmundarsonar búandi á Fremri-Torfastöðum í Miðfirði. ... Laugardaginn fyrsta einmánaðar 29, mars var sterkviðris austan kafhald, varð þá úti vinnukona frá Stað í Hrútafirði, Guðrún Björnsdóttir. ... Á Þorláksmessu gjörði mikla norðan áhlaupshríð, urðu (s248) þá úti 2 menn í Eyjafirði, er ferðuðust í Svarfaðardal, átti annar heima á Möðruvallaklaustri. Þá varð og úti kerling frá Reynistað ... Á jóladagskvöld gjörði enn áhlaup, varð þá úti vinnukona frá Hólum í Hvammssveit .... og önnur gift á Arnarstapa milli Búða. Tveir urðu úti í Reykhólasveit í kafhaldi. Einn varð úti á Fjöllunum syðra í Gullbringusýslu. (s249)

Höskuldsstaðaannáll [haust og vetur til áramóta]: Haustið mestpart stirt. Kom á snart eftir Mikaelsmessu með fjúkum og frostum. Síðan var veturinn viðunanlegur til jóla ... (vantar inn í) en þó hjá velflestum allt of margt á sett, því þau litlu hey reyndust kraftarýr til mjólkur og holda. Þorláksdag fyrir jól var stórhríð norðan. (s596) ... Kom stórhríð aftur á jóladag, sem aftraði sumstaðar messugjörð. (s597)

Viðauki Íslands Árbókar [haust og vetur til áramóta]: Um Mikaelsmessu kom so mikill snjór, að flestar heiðar urðu ófærar, með mestu stórfrostum. Af þessu höfðu margir reisandi stóran baga. Þessi harða tíð gekk allt fram til Marteinsmessu. Þá batnaði vel til nýárs. ... Urðu 3 skiptapar á Eyjafirði norður. 11 menn fórust, en 3 eður 4 komust af. (s196)

Espihólsannáll [haust og vetur til áramóta]: Um haustið snemma lagði að með hríðar og jarðbönn. Veturinn til jóla varð því líkur. Gengu frosta- og kreppuáhlaup, sem orsökuðu drepandi hálkuflug fyrir skepnur. (s174) 6 menn týndust á Seltjarnarnesi í ofviðri, 9 fyrir sunnan á Nesjum, flestir giftir, fundust ekki aftur, 2 fyrir vestan. Suður á Mýrum fórust 5 í drukknan. 4 drukknuðu við Drangey á Skagafirði. (s175) ... Kona ferst í snjóflóði á Vöðluheiði að nafni Jórunn. Fylgjari komst af, en nær 7 menn voru þó farnir þar. (s178)

Úr Djáknaannálum [um eldinn]: Þann 8. júní á sjálfa hvítasunnu kom upp eldur úr gili nokkru skammt frá Skaftá með svo miklu myrkri og mistri um allt land að dæmalaust þótti. Færðist þessi bruni þar um byggðina og eyddi 10 bæjum. Fyrir alþing flúðu þaðan 50 bændur í aðrar sveitir, en fé drapst og hljóp á öræfi. Skál á Síðu með flestum sóknarbæjum eyddist af þessu. Var þetta myrkur mest fram að slætti, þó eimdi eftir að því fram á haust, en sandur féll þó ekki til muna, þó þóttust nokkrir sjá á útbreiddum pappír og hvítum fjölum gráan sand. Fýlan fannst í nokkur ár þar á eftir, þá vindur stóð af austri. Strax um haustið eftir Michaelismessu söfnuðust saman tittlingar í stórhópa á tún og kringum bæi eins og þá mestir eru snjótittlingahópar á vetrum og báru sig mjög aumkunarlega er orsakast hefur af spilling jarðarinnar, hvurfu þeir síðan og sáust ei eftirkomandi vetur fyrr en með einmánuði. Stórir flekkir í túnum fölnuðu og urðu hvítgulir; þau kól líka allvíða þar sem þau voru best og sléttust svo stórskallar urðu í þeim, upp úr hvörjum að ekki spratt eitt strá í nokkur ár eftir. Á jólaföstu var enn nú eldur uppi á Síðu. (s245). g4.

Lýkur hér samantekt hungurdiska um hið erfiða ár 1783. Margt er enn óupplýst varðandi veður, en upplýsist vonandi síðar.   


Bloggfærslur 12. september 2022

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg040524a
  • w-blogg020524b
  • w-blogg020524a
  • w-blogg230424
  • Slide10

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (4.5.): 82
  • Sl. sólarhring: 152
  • Sl. viku: 1098
  • Frá upphafi: 2351973

Annað

  • Innlit í dag: 77
  • Innlit sl. viku: 997
  • Gestir í dag: 73
  • IP-tölur í dag: 69

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband