Sérlega hlýr ágústmánuður

Nýliðinn ágústmánuður var (rétt eins og júlí) sérlega hlýr á landinu. Methlýindi voru um allt norðanvert landið, hafa aldrei verið meiri í ágúst á fjölmörgum veðurstöðvum og á nokkrum stöðvum var mánuðurinn hlýrri en nokkur annar mánuður hefur verið til þessa, t.d. bæði í Stykkishólmi og í Grímsey, en athuganir hafa verið gerðar á þeim stöðum frá því á 19.öld. Þetta er líka hlýjasti mánuður sem við vitum um á Hveravöllum. Í Reykjavík er þetta næsthlýjasti ágústmánuður allra tíma - lítillega hlýrra var 2003. Á Teigarhorni var hann næsthlýjastur, ásamt ágúst 1947, lítillega hlýrra var þar í ágúst 2003 rétt eins og í Reykjavík. Heldur svalara að tiltölu var syðst á landinu. Á Stórhöfða í Vestmannaeyjum var hitinn í 6.hlýjasta sæti ágústmánaðar. Við bíðum endanlegrar staðfestingar á tölum í yfirliti Veðurstofunnar sem ætti að vera tilbúið á morgun (fimmtudag) eða á föstudag. 

w-blogg010921i

Taflan sýnir eins konar uppgjör fyrir einstök spásvæði. Víðast hvar er mánuðurinn sá hlýjasti á öldinni. Það er aðeins á Suðausturlandi, Suðurlandi og við Faxaflóa þar sem hitinn er ekki í fyrsta sætinu.

Meðalhiti í byggðum landsins í heild reiknast 12,2 stig. Það jafnar fyrra met, úr ágúst 2003 og meira en hæst hefur orðið í öllum öðrum mánuðum ársins.

Ágústmeðalhámarkshiti veðurstöðvar varð nú hærri en áður, 19,0 stig, það var í Ásbyrgi. Hæsta eldri tala sem við hiklaust viðurkennum er 18,4 stig (Staðarhóll í ágúst 2004). Lágmarksmeðalhitamet var slegið - ekki aðeins fyrir ágúst heldur fyrir alla mánuði.  Hann mældist nú hærri en nokkru sinni. Það gerðist á Bíldudal, 11,6 stig. Eldri met (fyrir hvaða mánuð sem er) er 11,0 stig (Garðar í Staðarsveit, júlí 1991, Surtsey, júlí 2012 og Arnarstapi á Snæfellsnesi, júlí 1943 (vafasamt)). Hæsti meðallágmarkshiti í ágúst til þessa var 10,9 stig, í Vestmannaeyjakaupstað 2003.

Það er líka óvenjulegt að hiti komst upp fyrir 20 stig 20 daga í mánuðinum. Er það með mesta móti, mest er vitað um 23 slíka daga í einum mánuði (ágúst 2003) síðustu 70 árin rúm.

Uppgjör Veðurstofunnar með endanlegum hita-, úrkomu- og sólskinsstundatölum mun eins og áður sagði væntanlega birtast fljótlega. Úrkoma var lítil víða norðaustan- og austanlands, sumstaðar minni en í ágúst í fáeina áratugi. Úrkoma var einnig neðan meðallags víða á Suður- og Vesturlandi, en á því voru samt nokkrar undantekningar, sérstaklega á utanverðu Snæfellsnesi og á stöku stað austanfjalls.

Suðvestanlands var sólarlítið, sólskinsstundir hafa ekki verið jafnfáar í Reykjavík í ágúst síðan árið 1995, en mjög sólríkt inn til landsins norðaustanlands. Mögulegt er að sólskinsstundamet ágústmánaðar verði slegið á Akureyri - eða alla vega nærri því - við Mývatn mældust sólskinsstundir nú ámóta margar og í ágúst 2004. Endanlegar tölur ættu að liggja fyrir næstu daga.


Bloggfærslur 1. september 2021

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (30.4.): 7
  • Sl. sólarhring: 109
  • Sl. viku: 1285
  • Frá upphafi: 2351070

Annað

  • Innlit í dag: 7
  • Innlit sl. viku: 1107
  • Gestir í dag: 7
  • IP-tölur í dag: 7

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband