Smávegis af júní

Þó nýliðinn júnímánuður eigi hafi verið klipptur og skorinn í stykki á ýmsan hátt (svalt mestallan mánuðinn suðvestanlands - en öfgakenndari kaflar, bæði hlýir og kaldir á Norðaustur- og Austurlandi) verður samt til meðaltal allra hluta - þar á meðal stöðunnar í háloftunum.

w-blogg020721a

Á meðalkorti evrópureiknimiðstðvarinnar eru jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins heildregnar, jafnþykktarlínur eru strikaðar (mjög daufar), en þykktarvik sýnd í lit. Jafnhæðarlínur segja frá ríkjandi vindáttum, en þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs. Þykktarvikin segja okkur frá því hvort hafi verið hlýrra eða kaldara en að meðaltali 1981 til 2010. Hiti er ofan meðallags á mestöllu kortinu - langmest þó austast, en þar fréttist af hlýjasta júní allra tíma í Finnlandi og Eystrasaltslöndum. Hjá okkur var hins vegar svalt - sérstaklega yfir Vesturlandi. 

Vestanátt mánaðarins var með öflugra móti - þó langt frá meti (1988). Sunnanáttin var vel ofan meðallags, en 500 hPa-flöturinn heldur lágur - en ekki nærri meti. Þessi samsetning þáttanna þriggja er hins vegar ekki algeng - sé 500 hPa-flöturinn mjög lágur á þessum tíma árs er fremur sjaldgæft að vestan- og sunnanáttirnar séu jafnstríðar og nú. En við finnum  þó ámóta tilvik, t.d. í júní 1992 (þegar jónsmessuhretið fræga gerði) - og ameríska endurgreiningin segir okkur að svipað hafi líka verið uppi á teningnum 1918 - en sú evrópska er ekki alveg sammála því. [Lauslega er sagt frá tíð í júní 1918 í árspistli hungurdiska fyrir 1918]. 

Landsdægurmet féllu til beggja handa í júní, þann 15. mældist frostið á Reykjum í Fnjóskadal -5,0 stig - það er mesta frost í byggð þann dag (og reyndar líka svo seint að vori). Þann 29. og 30. féllu landsdægurhámarksmet hins vegar, fyrri daginn mældist hiti 26,4 stig á Hallormsstað, og þann síðari 26,6 stig á Egilsstöðum. Það er hæsti hiti á landinu í júní frá 1988, en þá mældist hann 28,6 stig á Vopnafirði þann 25. Hingað til hefur aðeins eitt landsdægurlágmark fallið byggð á árinu, en sjö landsdægurhámörk. Ef við leyfum hálendisstöðvum að vera með í metunum (sem er hálfgert keppnisplat) hafa líka sjö landsdægurlágmarksmet fallið til þessa í ár. Hálendis- og fjallastöðvar munu smám saman hirða langflest landsdægurlágmörk sem í boði eru. 

Við þ0kkum Bolla P. að vanda fyrir kortagerðina.


Bloggfærslur 2. júlí 2021

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg130925-ak-a
  • w-blogg130925a
  • w-blogg130925b
  • Slide8
  • Slide7

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.9.): 190
  • Sl. sólarhring: 204
  • Sl. viku: 1806
  • Frá upphafi: 2498780

Annað

  • Innlit í dag: 173
  • Innlit sl. viku: 1650
  • Gestir í dag: 161
  • IP-tölur í dag: 158

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband