Hey í harðindum?

Ritstjóra hungurdiska finnst eitthvað orðið öfugsnúið þegar farið er að fagna komu leiðindakuldapolls úr norðri sem einskonar vonarpenings (svo ekki sé talað um endurlausnara). Alla vega er ljóst að kuldapollar sem þessi þykja almennt vera boðberar verstu leiðinda að sumarlagi - í júlí klippa þeir marga daga úr örstuttu sumri - þó vægir og ómerkilegir séu.

En - svona er þurrkurinn farinn að leika okkur grátt og hin alvarlega gróðureldahætta mikil að fáeinir hraglandadropar vekja einhverjar vonir - með sínum 1 til 5 stiga hita og það í maí. En til allar hamingju virðist sú veðurtíska enn undirliggjandi að það fari vel með - vindar verði hægir og engin aftök af neinu tagi í sjónmáli. 

Kuldapollurinn stóri yfir Norðuríshafi kemur til allrar hamingju lítt við sögu - en léttir aðeins á sér með því að senda örverpi suður um Ísland á fimmtudag og föstudag - stendur raunar stutt við. 

w-blogg110521a

Kortið sýnir stöðuna í 500 hPa-fletinum - í miðju veðrahvolfi - á fimmtudagskvöld. Þá á miðja kuldapollsins að vera við Vestfirði á leið til suðurs eða suðsuðvesturs. Ekki er þetta öflugt kerfi - en þó er um -34 stiga frost í miðjunni og þykktin undir þessu er minni en 5200 metrar - ekki met á þessum árstíma, en nær þó inn í botn-10 á síðustu 100 árum ef við þrengjum dagagluggann niður í 11. til 15.maí. Minnsta þykkt sem við vitum um eftir 12.maí var talsvert lægri, 5110 metrar - en það átti sér stað 15.maí 2012 (og getið í hungurdiskapistli á þeim tíma). Þá var hið versta veður - en það stendur ekki til að þessu sinni þó svalt verði. - Í dag (þriðjudag 11.maí) var þykktin yfir miðju landi 5280 metrar, hiti í neðri hluta veðrahvolfs 4 stigum hærri en hann á að vera um miðnætti á fimmtudagskvöld. 

En í þessu tilviki verður sum sé að fórna hita (sem þó er ekki hár) og sólskini fyrir einhverja úrkomuvon - (sem svo kannski bregst) - flest er hey í harðindum. 


Fyrstu tíu dagar maímánaðar

Meðalhiti fyrstu tíu daga maímánaðar er 3,9 stig í Reykjavík, -1,7 stigum neðan meðallags áranna 1991 til 2020 og einnig síðustu tíu ára. Hann raðast í 18.hlýjasta sæti aldarinnar í Reykjavík. Kaldastir voru sömu dagar 2015, meðalhiti þá 1,7 stig, einnig var kaldara en nú sömu daga árin 2018 og 2003. Hlýjastir voru dagarnir 10 árið 2011, meðalhiti þá 8,6 stig. Á langa listanum er hitinn nú í 101.sæti (af 145). Hlýjastir voru sömu dagar 1939, meðalhiti þá 9,1 stig, en kaldastir voru þeir 1979, meðalhiti -1,0 stig.

Á Akureyri er meðalhiti nú 1,4 stig, -3,5 stigum undir meðallagi áranna 1991 til 2020, en -3,2 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Frá 1936 hefur maíbyrjun verið kaldari 11 sinnum á Akureyri, síðast 2015 - langkaldast var 1979, meðalhiti fyrstu tíu daga maímánaðar þá var aðeins -3,4 stig.

Dagarnir tíu eru ýmist í næstkaldasta eða þriðjakaldasta sæti aldarinnar á spásvæðunum. Einna hlýjast að tiltölu hefur verið á höfuðborgarsvæðinu, en hiti er vel undir meðallagi síðustu tíu ára á öllum veðurstöðvum, minnst er neikvæða vikið í Bláfjöllum, -1,6 stig, en mest við Setur, -4,2 stig.

Úrkoma hefur verið sáralítil um stóran hluta landsins. Í Reykjavík hafa aðeins mælst 0,2 mm, 1 prósent meðalúrkomu. Síðustu 100 ár hefur úrkoma þessa daga aðeins einu sinni verið minni en nú, (1958) og einu sinni jafnlítil (1979) - nokkrum sinnum litlu meiri (innan við 1 mm). Árið 1892 var ekki getið um úrkomu þessa daga og ekki heldur 1904, 1906 og 1907. Á þeim árum var minna hirt um mælingu 0,1 til 0,2 mm heldur en nú er gert - og samanburður svo lítillar úrkomu því ekki alveg raunhæfur - að öðru leyti en því að þessir dagar hafa einnig verið mjög þurrir þessi ár.

Á Akureyri hefur úrkoman aðeins mælst 1,1 mm - en hefur alloft verið enn minni þessa sömu daga. Austur á Dalatanga er úrkoma heldur meiri, en samt um 30 prósent undir meðallagi. 

Óvenjusólríkt hefur verið í Reykjavík, alls hafa mælst 152,9 sólskinsstundir, 88 fleiri en að meðallagi 1991 til 2020. Svo margar sólskinsstundir hafa aldrei mælst þessa sömu tíu daga í Reykjavík. Um síðustu áramót var hætt að mæla með gamla sólskinsstundamælinum (brennikúla) og sjálfvirkur mælir tekinn í notkun í veðurskeytum. Nýi mælirinn mælir heldur fleiri sólskinsstundir á þessum tíma árs heldur en sá gamli gerði - við fjöllum vonandi um það síðar hér á þessum vettvangi verði mánaðarmetinu ógnað. Samanburðarmælingar hafa staðið í um 15 ár. Í dag munar svo miklu (næsta tala er 129,3 stundir sömu daga 1958 og síðan 129,1 stund 2015) að þessi breyting á mælifyrirkomulagi skiptir ekki máli.

Loftþrýstingur hefur verið hár - en er þó mjög langt frá meti sömu daga.


Bloggfærslur 11. maí 2021

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 79
  • Sl. sólarhring: 404
  • Sl. viku: 1904
  • Frá upphafi: 2350640

Annað

  • Innlit í dag: 76
  • Innlit sl. viku: 1704
  • Gestir í dag: 76
  • IP-tölur í dag: 76

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband