Kuldapollur?

Þó veðurspár hafi í aðalatriðum verið mjög skýrar fyrir þessi jól - og það eiginlega fyrir löngu - er samt ákveðið atriði að flækjast fyrir í spám fyrir dagana milli jóla og nýárs. Reiknimiðstöðvar hafa verið sammála um að dálítill kuldapollur - eða kalt háloftalægðardrag sé væntanlegt frá Norður-Grænlandi á mánudag/þriðjudag. Hins vegar hefur verið verulegt ósamkomulag um hversu öflugt kerfi verður um að ræða - spárnar hafa hringlast til - frá runu til runu - og veruleg óvissa í safnspám líka. Allt frá því að nærri því ekkert gerist yfir í umskipti til umhleypingatíðar - og alls konar leiðinda.

Ekkert er því enn fast í hendi. Spá evrópureiknimiðstöðvarinnar í morgun (aðfangadag) kom nokkuð á óvart. Eftir nokkrar runur með spá um að lítið yrði úr kuldapollinum - og hann rynni til suðurs vel fyrir vestan land - kom aftur spá um að hann færi beint yfir okkur - þá á aðfaranótt miðvikudags. Kortin hér að neðan sýna þetta.

w-blogg241221a

Hér má sjá reiknaða stöðu síðdegis á þriðjudag, 28.desember. Heildregnar línur sýna hæð 500 hPa-flatarins, af þeim ráðum við vindátt og styrk í miðju veðrahvolfi. Litirnir sýna þykktina en hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs. Því minni sem hún er því kaldara er loftið. Í kalda blettinum miðjum er hún ekki nema 5000 metrar, loftið þar er meir en tíu stigum kaldara en í meðallagi. Þetta kaldasta loft er hér á suðurleið, en sjórinn hitar það baki brotnu áður en það nær til landsins undir morgun á miðvikudag - standist spáin. 

Það er margt uppi á borðinu þegar svona kalt loft fer hjá - jafnvel þó kerfið sé ekki fyrirferðarmikið. Vonandi verður ekkert úr - eins og hefur reyndar verið tískan í haust. Nýjasta spá bandarísku veðurstofunnar gerir t.d. ráð fyrir því að kuldapollurinn taki austlægari stefnu og fari meira eða minna framhjá okkur. Alveg jafn líklegt að evrópureiknimiðstöðin detti í það sama far strax í kvöld. 

En ritstjóri hungurdiska óskar lesendum og landsmönnum öllum gleðilegra jóla. 


Bloggfærslur 24. desember 2021

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 218
  • Sl. sólarhring: 287
  • Sl. viku: 2043
  • Frá upphafi: 2350779

Annað

  • Innlit í dag: 200
  • Innlit sl. viku: 1828
  • Gestir í dag: 194
  • IP-tölur í dag: 193

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband